Beint í efni

Aðalfundur Auðhumlu: 364 milljóna króna hagnaður

22.04.2017

Aðalfundur Auðhumlu fór fram á Selfossi í gær en afkoma Auðhumlusamstæðunar árið 2016 var 363,7 milljón króna hagnaður eftir skatta sem svarar til 1,3% af veltu félagsins. Árið 2015 var 137 milljóna tap. Þennan 501 milljóna króna viðsnúning má fyrst og fremst rekja til tekna af erlendri starfsemi tengdri skyrsölu og söluhagnaðar af eignasölu, segir í fréttatilkynningu frá Auðhumlu. Heildarlaunagreiðslur hjá félaginu og dótturfyrirtækjum þess voru 3.183 milljónir króna og eigið fé samstæðunnar í árslok var 7.505 milljónir króna.

Kúabændum sem leggja inn mjólk til Auðhumlu fækkaði um 38 árið 2016 og er það hraðari fækkun en hefur verið um árabil en innleggjendur í árslok voru 546. Margt bendir til að viðlíka fækkun verði á yfirstandandi ári og verði innleggjendur þá um 500 í lok þessa árs segir áfram í tilkynningunni frá Auðhumlu.

Á aðalfundinum var tilkynnt um samstarfsverkefni Auðhumlu svf. og Matís ohf. sem miðar að því að styðja og styrkja frumkvöðla til þess að þróa og koma nýjum hugmyndum byggðum á mjólk á framfæri. Styrkirnir eru að hámarki 3 milljónir en stuðningurinn felst í t.d. sérfræðiráðgjöf t.d. aðstoð við að koma vöru á markað, uppsetningu vinnuferla, vöruþróun, umbúðahönnun, matvælaöryggi og mælingar, en einnig kemur til greina að standa fyrir námskeiðum fyrir smáframleiðendur eða afla nýrrar þekkingar.

Þá var kjörin ný stjórn og varastjórn Auðhumlu en Birna Þorsteinsdóttir frá Reykjum hætti nú í stjórn eftir farsælt 10 ára starf. Þórunn Andrésdóttir frá Bryðjuholti var kjörin ritari stjórnar og þá var Ágúst Guðmundsson frá Læk 2 kjörinn inn í varastjórn í stað Péturs Diðrikssonar frá Helgavatni. Stjórn Auðhumlu er að öðru leyti óbreytt en auk framangreindra sitja í stjórn þau Egill Sigurðsson, Berustöðum, Jóhannes Torfason, Torfalæk, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Stóru-Tjörnum, Elín M. Stefánsdóttir, Fellshlíð, Jóhanna Hreinsdóttir, Káraneskoti og Sæmundur Jón Jónsson, Árbæ. Þá eru þau Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddsstöðum og Laufey Bjarnadóttir, Stakkhamri einnig í varastjórn með Ágústi.

Með því að smella hér getur þú lesið ársskýrslu félagsins/SS.