Aðalfundur 2015
13.03.2015
Aðalfundur LK 12. – 13. mars 2015 haldinn í Reykjavík
1. Fundarsetning í sal Íslenskrar Erfðagreiningar við Sturlugötu.
Sigurður Loftsson formaður LK setti fund og bauð fólk velkomið til starfa. Hann vitnaði í grein Páls Zophaníassonar úr Búnaðarritinu 1953, sem ber heitið Meiri og hagfelldari framleiðsla. „Afkoma bóndans er að sjálfsögðu háð því, hve miklar og góðar afurðir hann hefur að selja, og hve hátt verð hann fær fyrir þær. Mörgum hættir til að einblína um of á þessa hlið málsins, halda að fjárhagsleg afkoma bóndans velti eingöngu á viðskiptum hans út á við. Það er rétt að bóndinn þarf alltaf að selja úr búi afurðir fyrir að minnsta kosti jafnháa upphæð og þá, sem hann þarf að greiða fyrir aðkeyptar vörur og þjónustu. En bóndinn skiptir við fleiri viðskiptavini en þá, sem hér um ræðir, og undir þeim viðskiptum getur afkoma hans engu síður verið komin. Hann skiptir líka við móður jörð. Frá henni fær hann heyið, og það getur orðið honum ákaflega misdýrt. Enn fremur skiptir hann við búféð, sem umsetur heyið í seljanlegar afurðir. Hvernig honum farnast þau viðskipti, getur haft úrslitaáhrif á afkomu hans.“
Jóhannes Torfason og Laufey Bjarnadóttir voru tilnefnd sem fundarstjórar og það samþykkt.
Valdimar Guðjónsson, Linda B. Ævarsdóttir og Halldór Sigurðsson tilnefnd í kjörbréfanefnd og það samþykkt, fundarritari Runólfur Sigursveinsson og skrifstofustjóri Snorri Sigurðsson.
2. Skýrsla stjórnar
Sigurður Loftsson og Baldur Helgi Benjamínsson
Sigurður fjallaði um veðurfar liðins ár, úrkomusamt sumar, sérstaklega um sunnanvert landið, hey mikil og misjöfn að gæðum. Sala á mjólk árið 2014 var á fitugrunni 129 milljónir lítra og prótein 121,2 milljónir lítra. Innvigtun 133,5 milljónir lítra. Greiðslumark aukið í 140 milljónir lítra fyrir árið 2015 í ljósi aukinnar sölu og til að ná upp ákveðinni birgðastöðu. Framleiðslan hefur aukist um 5- 6% fyrstu vikur ársins. Í samræmi við ályktun síðasta aðalfundar LK um beingreiðslur var tekin upp nokkur önnur skipting A, B og C greiðslna til að auka hvata til framleiðslu, auk 100% framleiðsluskyldu.
Verðlagsnefnd fundaði síðast í apríl 2014, frá þeim tíma hafa aðilar vinnumarkaðarins ekki tilnefnt fulltrúa í nefndina. Mjólkurverð til bænda hækkaði síðast 1.október 2013. Mæld hækkunarþörf 1. júní 2014 var tæp 0,4% út frá útreikningum verðlagsnefndar.
Baldur Helgi fjallaði um niðurstöður búreikninga, síðustu afkomutölur eru frá árinu 2012. Niðurstöður eru væntanlega um afkomuna fyrir árið 2013 í maí næstkomandi samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, slíkt er óviðunandi. Gat síðan um niðurstöður úr rekstri 11 kúabúa í Eyjafirði árið 2014, svo virðist sem breytilegur kostnaður þessara búa pr. ltr. hafi lækkað um 3% milli ára og framlegð á lítra hækkað milli ára.
Fjallaði síðan um greiðslumarksviðskipti síðasta árs sem voru mjög takmörkuð, tæplega 100.000 lítrar. Stjórn LK hefur lagt til við ráðherra að leggja kvótamarkað til hliðar þar sem mjög lítil viðskipti eiga sér stað á hverjum markaði og eins að núverandi fyrirkomulag hamlar því að bændur geti flutt sitt greiðslumark milli jarða nema því aðeins að setja það inn á kvótamarkað sem er nánast óvirkur.
Framleiðsla og sala nautgripakjöts var um 3.500 tonn á árinu 2014. Ásetningur hefur aukist um 10% síðustu mánuði. Innflutningur nautakjöts var 1.047 tonn að verðmæti 912 milljóna króna, ígildi 1.750 tonna af skrokkum eða um 7.600 gripir. Svo virðist að nautakjötsmarkaðurinn og kindakjötsmarkaðurinn sé að verða svipaður að stærð með tilliti til innanlandsneyslu.
Undanfarin ár hefur stjórn LK unnið mikið starf til að fá leyfi til endurnýjunar á erfðaefni holdanauta, allt frá árinu 2009. Leitað hefur samvinnu við stjórnvöld um leiðir frá þeim tíma. Áhættumat frá MAST liggur fyrir og drög frá Veterinærinstuttet í Noregi. Umsókn var lögð fram til ráðuneytis frá stjórn LK um innflutning nautasæðis á 7 sérvalin bú. Henni var hafnað á grundvelli neikvæðrar umsagnar yfirdýralæknis.
Lokaútgáfa áhættumats Veterinærinstituttet er grundvallargagn málsins og stofnunin metur áhættuna hverfandi af innflutningi. Frumvarp til breytinga á lögum 54/1990 er tilbúið og verður væntanlega lagt fram nú á vorþingi. Starfshópur LK, MAST og Keldna vinnur að mótun reglna um innflutninginn.
Sigurður fjallaði um stöðuna í samningsgerð fyrir nýjan mjólkursamning en núverandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar rennur út í árslok 2016. Lögð verður áhersla af hálfu LK að samið verði til langs tíma, tryggð staða greinarinnar, gengið verði frá tollaumgjörð varðandi inn- og útflutning, um fyrirkomulag verðlagningu og úrvinnslu svo og um stuðningskerfi. Vegna aukinna krafna um aðbúnað er ljóst að þar liggur fyrir mikill kostnaður ef ekki verði gerð breyting á núgildandi regluverki.
Núverandi samningur hefur skilað miklu, bæði til bænda og eins til neytenda. Eins er það athyglisvert að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2012 segir að lítill munur er á viðskiptakjörum birgja til verslana m.t.t. algengra mjólkurvara. Ný skýrsla Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn er athyglisverð. Þar segir m.a. að styrking gengis skilar sér ekki í lægra vöruverði til neytenda.
Baldur Helgi fjallaði um möguleg kaup á Nautastöð BÍ, stjórn LK leggur áherslu á að búgreinin sjálf beri faglega og fjárhagslega ábyrgð á stöðinni. Þar með styrkja beina aðkomu greinarinnar að framkvæmd kynbóta- og fagstarfs í nautgriparækt. Samningar við BÍ hafa verið í gangi frá því í júlí 2014. Einn liður aðkomu LK, ef af yrði af kaupum, er hlutafjárframlag til lækkunar skulda stöðvarinnar. Málið liggur fyrir aðalfundi LK í formi tillögu.
Þá fjallaði Baldur Helgi um aðbúnað og velferð nautgripa. Miklvægt er að mat á velferð byggi á rökrænum sjónarmiðum og jafnræði gildi milli innlendra og erlendra framleiðenda. Starfsumhverfið þarf að taka mið af þeim kröfum sem gerðar eru. Rúm 300 básafjós eru nú í notkun með um 9.000 bása, ljóst að verulegur kostnaður er framundan í þessum efnum.
Fjárfestingaþörf búgreinarinnar næstu ár er um 15 milljarðar. Skoða þarf nýjar fjármögnunarleiðir eins og skuldabréfaútboð, aðkomu lífeyrissjóða og lán út á ræktarland með breytilegum afborgunum.
MAST hefur verið falið að innleiða nýtt kjötmat á nautgripakjöti. Reiknað með gildistöku um næstu áramót. Nýtt mat á að fanga breytileika á holdfyllingu og fituhulu mun betur en eldra mat. Þá fjallaði Baldur um myndvinnslu um mismunandi aðferðir við mjaltir; sett hefur verið saman myndbrot þar sem sjá má öll vinnubrögð sem tíðkuð hafa verið við mjaltir hér á landi, allt frá handmjöltum til mjaltaþjóna.
Sigurður fjallaði um þá óvissu sem er um framhald sérhæfðs rannsóknastarfs í nautgriparækt hér á landi. Greinin sjálf þarf að blanda sér í þessa umræðu til að takast á við þessa stöðu.
Fjallaði um að búnaðargjaldið, áætlun vegna ársins 2015 gerir ráð fyrir um 501 milljóna króna heildargjaldi. Nautgriparæktin borgar þar af 200-220 milljónir, tekjur af LK af búnaðargjaldi er um 58 milljónir króna á ári. Stjórn hefur ályktað að skipa starfshóp um framtíðarskipan fjármögnunar félagsstarfsins og tillögum verði skilað næsta haust.
3. Ávörp gesta
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ræddi núverandi stöðu og þá miklu aukningu sem hefur orðið í sölu mjólkurvara, einkum á fituríkum vörum. Það eru gjörólikir tímar frá því núverandi kerfi var sett upp og þess tíma sem nú er. Það er þörf á endurnýjun á aðstöðu, þörf á auknum rannsóknum og aukinnar nýliðunar í greininni. Auk þess hefur ekki tekist að uppfylla þarfir íslenskra neytenda og erlendra gesta hvað varðar íslenskt nautakjöt. Á næstu dögum verður lagt fram frumvarp um innflutning á holdanautasæði. Í júní 2014 var gengið frá samningi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um úttekt á núverandi fyrirkomulagi mjólkurframleiðslunnar. Þá var reiknað með að niðurstöðum úttektar yrði skilað síðla árs 2014. Skýrslan hefur enn ekki borist og sagði ráðherra þetta forkastanleg vinnubrögð, vonandi er þó skýrslan að koma í ráðuneytið.
Sigurgeir Sindri formaður BÍ ræddi nokkur mál sem Búnaðarþing tók fyrir í byrjun mars síðastliðinn, meðal annars um innra starf Búnaðarþings og mögulegt brottfall búnaðargjalds. Aðalmál þingsins var þó ályktun um rammasamning um stuðning við íslenskan landbúnað.
Egill Sigurðsson formaður MS og Auðhumlu ræddi búvörusamning og hvað tekur við eftir árið 2016. Vakti athygli á mikilvægi tollverndar, ræddi síðan fyrirkomulag afurðasölu og mjólkurvinnslu til framtíðar.
4. Umræður
Hallur Pálsson þakkaði skýrslur stjórnar. Hafði áhyggjur af auknum kröfum vegna aðbúnaðar gripa, sérstaklega ákvæðin um básafjósin.
Eiríkur Egilsson sagði ánægjulegt að sjá sölumálin í góðum farvegi. Hins vegar er afkoman ekki í samræmi við söluna. Beingreiðslur hafa skerst umtalsvert, frá því viðmiðið var 105 milljónir lítra verðlagsárið 2005/2006 og síðan núna þegar greiðslumarkið er 140 milljónir lítrar. Bændur hafa tekið á sig miklar skerðingar á afurðaverði í kjölfar fjármálahrunsins og breytingar á núgildandi samningi. Eiríkur gagnrýndi að starfshópur, sem skipaður hafði verið til að meta reynslu af framkvæmd samningsins, hefði ekki skilað enn af sér skýrslu. Jafnframt vakti Eiríkur athygli á því að ekki er starfandi verðlagsnefnd, slíkt er óásættanlegt. Frá áramótum 2013 hafa heildargreiðslur mjólkur þ.e. beinar greiðslur, lækkað um 7 kr/l um leið og eftirspurnin eftir vörunni eykst. Árið 2002 tók nýr verðlagsgrundvöllur gildi fyrir kúabú,. Samkvæmt þeim grundvelli vantar nú, 13 árum síðar um ca. 30% af tekjum grundvallarbúsins. Margir bændur fóru út í miklar fjárfestinga fyrir hrun og unnu áætlanir um fjárfestingarnar með tilliti ákveðinnar öryggismarka, oft um 10%. Það liggur í augum uppi að 30% tekjufall gerir mörgum erfitt fyrir. Meginmarkmið samnings hvers tíma er að uppfylla þarfir markaðarins um mjólk og mjólkurvörur á innlendan markað. Hefur áhyggjur af því að slíkt verði erfitt þar sem greinin er ekki samkeppnisfær um fólk, fjármagn og land. Ungt fólk er ekki tilbúið að leggja á sig þá miklu vinnu og bindingu sem kúabúskapur felur í sér nema því aðeins að afkoman sé betri í greininni en á öðrum starfsvettvangi. Fjallaði loks um opinbera verðlagningu og þau viðhorf stjórnar LK að hverfa frá opinberri verðlagningu til bænda en áfram verði opinbert verð á heildsölustigi, hver eru rökin fyrir þessari tillögu ?
Pétur Diðriksson ræddi sölumál mjólkurframleiðslunnar og eins hversu fáir framleiðendur standa undir framleiðsluaukninginni. Hann sagðist hafa áhyggjur af þeim stóra hópi sem ekki hefur tekið þátt framleiðsluaukningunni. Spurning hversu mörg bú muni fara í endurnýjun á aðstöðu og auka framleiðsluna í ljósi kostnaðar.
Sveinbjörn Sigurðsson ræddi kvótakerfið og fjármögnunarkostnaðinn í framleiðslunni. Spurning hvernig greininni tekst til varðandi endurnýjun.
Valgerður Kristjánsdóttir hvatti til jákvæðni í umræðunni og sagði að miklir möguleikar væru núverandi stöðu.
Þórólfur Ómar Óskarsson ræddi mun á orðum einstakra ráðherra varðandi tollamálin. Aukin framleiðsla, sem forysta LK hvatti til á liðnu ári, kallar líka á aukna vinnu bænda án þess að gert sé ráð fyrir auknu endurgjaldi vegna hennar. Hann lýsti yfir framboði sínu til stjórnar LK með hliðsjón af að viðhorf nýliðunar fái aukið vægi innan stjórnar LK. Hann kynnti sjálfan sig, er bóndi í Grænuhlíð í Eyjafirði og menntaður í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri með áherslu á markaðsmál.
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ræddi mun á viðhorfum manna innan greinarinnar til stöðunnar og framtíðar. Gleðilegt væri að sjá ungt fólk koma inn í greinina og vilja takast á við starf í atvinnugreininni. Taldi að ekki væri stór munur á viðhorfum einstakra ráðherra um tollamálin í núverandi ríkisstjórn.
Fundi frestað um kl. 12.30 og framhaldið á Bitruhálsi 1 síðar um daginn, að loknu fagþingi nautgriparæktarinnar.
Bóel Anna Þórisdóttir ræddi stofnun Nautgriparæktarmiðstöðvarinnar og spurði um samstarf þess fyrirtækis við RML. Ræddi einnig gjaldtöku þeirrar starfsemi (RML) t.d. varðandi ýmis smáviðvik varðandi vinnu við skýrsluhaldið.
Helgi Eyleifur Þorvaldsson óskaði eftir taka til máls um markaðssetningu, sem fundarstjórar samþykktu. Nefndi ágæt erindi fyrr í dag á fagþingi Nautgriparæktarinnar. Við erum ekki að fara að keppa í verðum við nágrannalöndin, þurfum að keppa á forsendum t.d. Austuríkismanna. Er persónulega ekki hræddur við innflutning. Við höfum gæðin. Verðum að trúa sjálf á vöruna, sérstaða okkar getur m.a. falist í íslensku kúakyni og annarri sérstöðu, sbr. markaðsetningu ferðaþjónustunnar síðustu misseri.
Eiríkur Egilsson spurði um hækkunarþörfina, er búið að taka tillit til samdráttarins í beingreiðslurm pr/lítra?
Pétur Guðmundsson spurði Snorra Sigurðsson um afkomuna í Danmörku eftir bústærð.
Sveinbjörn Sigurðsson spurði um hvort ekki ætti að taka umræðu um hvað við viljum sjá í næsta samningi.
Laufey Bjarnadóttir velti fyrir sér þeirri framleiðsluaukningu sem hefur átt sér stað síðustu misseri og hvernig hún skiptist milli hópsins, sumir eiga fullt í fangi með að ná núverandi greiðslumarki, sá hópur er að hluta einnig að horfa á aðbúnaðaregluverkið. Sum þeirra búa sem eru nú í framleiðslu munu ekki halda áfram í mörg ár enn. Er ekki þörf að skilgreina framleiðsluhóp kúabænda?
Gagnrýndi slælegan undirbúning aðalfundarins að koma koma gögnum til aðalfundarfulltrúa.
Sigmundur H. Sigmundsson ræddi að aukinn áhugi væri hjá ungu fólki að hefja búskap. Staðan er víða sú að einstaka bændur munu ekki ná að framleiða upp í eigið greiðslumark. Nefndi að umræða meðal kúabænda væri allt of mikið í þá veru að forystan væri ekki að standa sig nægilega vel í hagsmunagæslu bænda. Gagnrýndi einnig slök vinnubrögð hjá RML og taldi hægt væri að skipta þeirri starfsemi út og fá þá vinnu unna annarsstaðar. Spurning hvort ekki eigi að fella kvótamarkaðinn niður og viðskipti eigi sér stað beint milli manna, bæði með framleiðslurétt og gripi.
Jóhanna Hreinsdóttir gagnrýndi vinnubrögð stjórnar við að koma fundargögnum til aðalfundarfulltrúa. Sem nefndarformaður hafði hún ekki fengið nægilegan tíma til undirbúnings.
Valgerður Kristjánsdóttir þakkaði erindi Snædísar Önnu Þórhallsdóttur, nemanda við LBHÍ á fagþingi nautgriparæktarinnar sem haldið var fyrr í dag. Tók undir með Sveinbirni varðandi undirbúning að nýjum samningi og leggja fram við ráðuneyti, síðan yrði samið út frá því.
Gústaf Jökull Ólafsson hrósaði LK fyrir veffræðsluna og það framtak er til fyrirmyndar. Síðan er það framleiðslurétturinn, keypti kvóta á sínum tíma í samræmi við framleiðslugetu fjóssins. Nefndi dæmi um takmarkanir á flutningi lífdýra, hefur lagt í mikinn kostnað vegna þessa til að reyna að ná núverandi greiðslumarki búsins. Sagði að töfin sem Sigmundur hafi orðið fyrir varðandi vinnu af RML, gæti vel stafað af því að hann hafi verið á sama tíma verið að vinna með viðkomandi starfsmanni hjá RML.
Samúel Unnstein Eyjólfsson ræddi fram komnar tillögur til aðalfundarins, m.a. um samningsgrundvöll fyrir komandi samning. Eigum við eingöngu að miða við óbreyttan stuðning, fóru læknar þessa leið og aðrir kjarahópar? Sú framleiðsluaukning sem búin hafa tekið á sig, hefur kostað sitt í formi aukinnar vinnu. Eins hefur heyrst veruleg gagnrýni hjá bændum á 100% framleiðsluskyldu.
Jóhannes Torfason nefndi að á síðustu ráðstefnu NÖK sem var haldin í Danmörku á liðnu sumri, hafi verið lagt fram yfirlit um þróun í fjölda kúabúa síðustu ára á Norðurlöndunum, þar er svipuð þróun í gangi milli landa, búin stækka og þeim fækkar. Hins vegar var líka lagt fram yfirlit um þróun afurðamagns, þar hefur átt sér stað allt önnur þróun og Ísland setið eftir. Hver eru meginverkefnin í mjólkurframleiðslunni og í úrvinnslunni? Í fyrsta lagi erum við alltaf að takast á við „markaðinn“ sem eru kannske 2-3 smásöluaðilar, í öðru lagi að takast á við viðsemjendur í gegnum verðlagsnefnd, í þriðja lagi fjölmiðlar og loks nú síðast sú stofnun sem heitir Samkeppniseftirlitið.
Þurfum að stefna að því að ná sem bestum samningi í viðræðum við ríkisvaldið. Það er gaman að upplifa það núna að mega framleiða eins mikið aðstaðan leyfir í hverju fjósi. Það er mikil breyting frá því sem áður var.
Snorri Sigurðsson svaraði Pétri í Hvammi, 180 – 200 kýr er fjölskyldueining í Danmörku, þau bú geta verið með tiltölulega góða afkomu ef þau eru lítið skuldsett. Afkoma „stóru“ búanna er oft erfið ef skuldir eru miklar en þá kemur einnig til bústjórnin sem breytist með ráðningu á meira vinnuafli. Það er lögð geysimikil vinna í að leita leiða til lækkunar kostnaðar bæði í Danmörku og nágrannalöndum eins og Hollandi. Bústjórnin á stærri einingum felst fyrst og fremst í því að bæta nýtingu vinnuaflsins og vinnuskipulagið á búunum.
Jón Þorsteinn Gunnarsson spurði um afkomutölur kúabænda, vantar upplýsingar um það á fundinn.
Sigurður Loftsson sagði að 40 kr munur væri á afkomutölum verðlagsgrundvallar eins og hann var skilgreindur í byrjun aldarinnar og þess sem nú er, eins og Eiríkur benti á. Megum ekki gleyma því að við höfum þurft að takast á við óbeina samkeppni erlendis frá, þ.e. þar hafa kúabændur náð að lækka kostnað sinn á síðustu árum og áratugum. Taldi að það væri rétt hjá Sveinbirni að núverandi framleiðslustaða og sala gæti auðveldað nýliðun í greininni. Erfitt er að takast á við verðlagningu nautakjöts með opinberri stýringu. Hins vegar er það athyglisvert að verð sé að hækka út á markaðnum við aukinn innflutning t.d. á nautakjöti.
Svaraði Þórólfi á þann hátt að við mátum það svo í fyrra að hvetja menn að fara þessa leið, hins vegar er sú leið vandmeðfarin en við töldum hana nauðsynlega, þarna er markaðurinn á hverjum tíma sem ræður – og hann spyr ekki um sanngirni.
Varðandi spurningu um Nautastöðina þá er það mál búið að vera á borði stjórnar LK allt starfsárið. Eftir síðustu bréfaskrif, m.a. bréf sem kom í gær hefur stjórn LK ákveðið málið verði rætt í starfsnefnd aðalfundarins.
Varðandi búnaðargjaldið þá er samþykkt aðalfundar LK frá fyrra ári í fullu gildi og Búnaðarþingið síðasta tók upp málið á sömu nótum og LK, ef eitthvað af búnaðargjaldinu yrði haldið áfram, þá yrði það búgreinaskipt.
Hann fagnaði áhuga Helga á markaðsmálum greinarinnar, markaðssvæðin eru sjálfsagt miserfið, tók dæmi af markaðssetningu á skyri í Bandaríkjunum, þar hefur sú aðferð markaðsetningar sem Helgi nefndi ekki náð fótfestu en mögulega er þá að líta í aðrar áttir.
Auðvitað væri æskilegt að fundargögn kæmu fyrr til aðalfundafulltrúa. Varðandi störf stjórnar þurfa aðalfulltrúar að láta betur í sér heyra hvaða verkefni eigi að hafa forgang, alltaf unnið eftir ályktunum aðalfundar hvers árs. Við þurfum þó ávallt að vinna þannig að koma saman sem ein heild, ef óánægja er í hópnum þarf það hins vegar að koma fram, hvort sem rætt væri beint við einstaka stjórnarmenn eða t.d. á fulltrúafundum eða aðalfundi.
Varðandi kröfugerð í næstu samningum þá liggur fyrir tillaga frá stjórn LK og sú tillaga verður rædd í starfsnefnd.
5. Niðurstöður kjörbréfanefndar
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ kynnti niðurstöður kjörbréfanefndar sem eru eftirfarandi:
Mjólkursamlag Kjalarnesþings
Jóhanna Hreinsdóttir, Káraneskoti
Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi
Jón Gíslason, Lundi
Laufey Bjarnadóttir, Stakkhamri
Pétur Diðriksson, Helgavatni
Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
Hallur Pálsson, Naustum
Gústaf Jökull Ólafsson, Miðjanesi – varamaður
Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum
Sigmundur H. Sigmundsson, Látrum
Nautgriparæktarfélag Vestur-Húnavatnssýslu
Valgerður Kristjánsdóttir, Mýrum 3
Guðrún Eik Skúladóttir, Tannstaðabakka
Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu
Linda B. Ævarsdóttir, Steinnýjarstöðum
Jóhannes Torfason, Torfalæk.
Félag kúabænda í Skagafirði
Róbert Örn Jónsson, Réttarholti
Sævar Einarsson, Hamri
Bessi Freyr Vésteinsson, Hofstaðaseli
Félag eyfirskra kúabænda
Aðalsteinn Hallgrímsson, Garði
Tryggvi Jóhannsson, Hvassafelli -varamaður
Hermann Gunnarsson, Klauf
Þórólfur Ómar Óskarsson, Grænuhlíð
Félag Suður-þingeyskra kúabænda
Steinþór Heiðarsson, Ytri-Tungu
Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum
Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar
Halldóra Andrésdóttir, Grænalæk
Félag nautgripabænda á Héraði og fjörðum
Halldór Sigurðsson, Hjartarstöðum
Björgvin Rúnar Gunnarsson, Núpi
Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu
Eiríkur Egilsson, Seljavöllum
Félag kúabænda á Suðurlandi
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti
Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti
Pétur Guðmundsson, Hvammi
Ásmundur Lárusson, Norðurgarði
Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddsstöðum
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði – varamaður
Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð
6. Nefndarstörf
Að loknum umræðum hófust nefndarstörf en alls bárust rúmlega 40 tillögur til aðalfundarins frá aðildarfélögunum og stjórn LK auk tillögu frá stjórn um breytingar á samþykktum LK.
Starfsnefndir fundarins voru þrjár:
Starfsnefnd 1. Formaður Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti, ritari: Elín Heiða Valsdóttir Úthlíð.
Starfsnefnd 2. Formaður Elín Bjarnveig Sveinsdóttir Egilsstaðakoti, ritari: Jón Gíslason Lundi.
Starfsnefnd 3. Formaður. Aðalsteinn Hallgrímsson Garði, ritari: Steinþór Heiðarsson Ytri-Tungu.
Nefndir störfuðu frá kl 19 til kl 20 á fimmtudag og frá kl. 8 fram til kl 12 á föstudag.
Fundi frestað og þáðu fundarmenn og makar kvöldverð í boði MS.
Fundi fram haldið kl. 13 á föstudag á Grand Hótel.
7. Afgreiðsla mála
Starfsnefnd 2
Elín Bjarnveig Sveinsdóttir fylgdi tillögunum úr hlaði
1. Endurskoðun búfræðináms
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, fagnar yfirstandandi endurskoðun búfræðinámsins. Jafnframt hvetur fundurinn til þess að leitað sé leiða til að tengja búfræðinámið betur við framhaldsskólakerfið, t.d. með þróun búfræðiáfanga sem boðið verði upp á í almennum framhaldsskólum.
Tillagan samþykkt samhljóða.
2. Fóðurleiðbeiningar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, beinir því til RML að setja aukinn kraft og metnað í fóðurleiðbeiningar til bænda, bæði í ljósi þeirra tækifæra sem eru í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu og til að standast samkeppni í sölu fóðurleiðbeininga.
Tillagan samþykkt samhljóða.
3. Viðurkenning til kúabænda
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, leggur til að Landssamband kúabænda veiti árlega viðurkenningu því kúabúi sem þykir skara framúrskarandi á sem flestum sviðum s.s. hárri nyt, háum verðefnamælingum, framleiðslu á framúrskarandi nautakjöti, þátttöku í ræktunar- og félagsstarfi og ásýnd býlis.
Tillagan samþykkt samhljóða.
4. Samráðsvettvangur um aðbúnað og velferð nautgripa.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, felur stjórn að leita eftir samstarfi við Matvælastofnun, búnaðarsamböndin og RML um að gera úttekt á umfangi og kostnaði vegna nauðsynlegra endurbóta á fjósum hérlendis, í samræmi við ákvæði reglugerðar 1065/2014 um velferð nautgripa. Úttektinni verði lokið eigi síðar en 1. janúar 2017. Jafnframt skorar fundurinn á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fresta gildistöku 14.gr. framangreindrar reglugerðar hvað varðar stærðarmörk bása í básafjósum til 31. desember 2018.
Tillagan samþykkt samhljóða.
5. Dýralæknaþjónusta
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, skorar á landbúnaðarráðherra að tryggja nauðsynlega, almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr um land allt í samræmi við 1. grein reglugerðar um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum. Núverandi ástand er ólíðandi og algerlega á skjön við þær skyldur sem bændum eru lagðar á herðar með lögum um dýravelferð.
Tillagan samþykkt samhljóða.
6. Dýralæknamál
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, minnir á fyrri samþykktir varðandi það að löggjöf og reglum um afhendingu dýralyfja verði breytt í þá átt að kúabændur hafi möguleika á að gera þjónustusamninga við dýralækna, sem feli það í sér að forvörnum sé meira sinnt á kúabúunum og kúabændur fái að eiga ákveðin lyf til að hefja meðhöndlun á veikum gripum í samráði við sinn dýralækni. Bendir fundurinn á að aðgengi að lyfjum getur verið dýravelferðarmál enda sýnir reynslan að dýralæknar eru ekki ávallt til staðar þegar á þarf að halda.
Tillagan samþykkt samhljóða.
7. Rannsóknir í nautgriparækt
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, felur stjórn LK að leita allra færra leiða til að efla fagþekkingu í nautgriparækt og viðhalda nauðsynlegri rannsókna- og tilraunastarfsemi.
Greinargerð
Nútíma nautgriparækt byggist í vaxandi mæli á fagþekkingu sem nauðsynleg er til að takast á við breytilegar framleiðsluaðstæður og breytingar á neyslumynstri. Nú hagar svo til að verulegur skortur er á sérfræðiþekkingu í stoðkerfi mjólkurframleiðslunnar, sem m.a. lýsir sér í því nauðsynlegar tilraunir og rannsóknarverkefni eru ekki unnin og enginn tilraunastjóri er starfandi við tilraunabúið á Stóra Ármóti. Við því verður að bregðast.
Tillagan samþykkt samhljóða.
8. Staða nautgriparæktar innan LBHÍ
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, harmar þá deyfð sem virðist ríkja innan LBHÍ varðandi rannsóknir og kennslu í nautgriparækt. Jafnframt lýsir fundurinn undrun sinni á að LBHÍ skuli hafa gefist upp við að gefa út almenna kennslubók í nautgriparækt sem verið hafði í undirbúningi í mörg ár og þegar hafði verið styrkt fjárhagslega af Framleiðnisjóði. Felur fundurinn stjórn LK að gera LBHÍ grein fyrir vonbrigðum sínum vegna þessa.
Tillagan samþykkt samhljóða.
9. Ræktunarstarf og kynbætur
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, beinir því til Fagráðs í nautgriparækt að setja meiri metnað í ræktunarstarfið með róttækum breytingum, svo sem:
· Nýta mælanlegar upplýsingar um mjaltagæði (t.d.mismjaltir eða ekki) og mjaltahraða til notkunar í ræktunarstarfinu.
· Breyta mati á skapgerð kúa þannig að það fangi sem best erfðamun þess eiginleika.
· Hæð gripa verði mæld og tekin inn í kynbótamatið.
· Lýsing á nautum og dætrahópum verði gerð skiljanlegri og byggi eftir því sem hægt er á mælanlegum upplýsingum.
· Kannaður verði kostnaður við kyngreiningu sæðis við íslenskar aðstæður.
· Áherslur í kynbótaeinkunn verði endurskoðaðar.
Erfðaeðli kúastofnsins hefur mikil áhrif á afkomu kúabænda, svo og á vinnu þeirra. Ljóst er að smæð íslenska kúastofnsins veldur því óhjákvæmilega að erfðaframfarir í honum eru verulega minni en í stærri stofnum. Það er þeim mun tilfinnanlegra sem bústærð eykst og hagræðingarkröfur aukast. Því er nauðsynlegt að ræktunarstarfið sé svo markvisst sem mögulegt er.
Tillagan samþykkt samhljóða.
10. Upplýsingar um úrval nauta í kútum sæðingamanna
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, beinir því til þeirra sem sjá um sæðingar í landinu, að komið verði upp þeirri reglu að bændur geti alltaf séð úr hvaða reyndum nautum sæði er að finna hjá hverjum sæðingamanni. Hægt væri að hafa upplýsingarnar í Huppunni, senda tölvupóst eða á heimasíðu.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson benti á að tillagan þyrfti að ná til ungnauta.
Jón Gíslason vildi halda sig við upphaflegu tillöguna vegna þess að ekki ætti að velja ungnautin af bóndanum.
Laufey Bjarnadóttir vildi halda ungnautum inni til að bóndinn gæti séð hvort skyldleiki væri of mikill til að nota einstök naut.
Breytingatillaga lögð fram um að fella burt orðið „reyndum“.
Breytingatillagan samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, beinir því til þeirra sem sjá um sæðingar í landinu, að komið verði upp þeirri reglu að bændur geti alltaf séð úr hvaða nautum sæði er að finna hjá hverjum sæðingamanni. Hægt væri að hafa upplýsingarnar í Huppunni, senda tölvupóst eða á heimasíðu.
Tillagan þannig samþykkt samhljóða.
11. Nautakjötsframleiðsla og holdanautastofnar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu nautakjötsframleiðslunnar í landinu og ítrekar ályktanir fyrri aðalfunda um það efni. Afar brýnt er að öllum mögulegum leiðum verði beitt til að skjóta styrkari stoðum undir þessa grein íslensks landbúnaðar og henni gert fært að mæta þeim tækifærum sem vaxandi eftirspurn skapar. Fundurinn fagnar áformum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra fram til þinglegrar meðferðar og væntir þess að það verði afgreitt á yfirstandandi þingi . Jafnframt væntir fundurinn þess að við gerð reglna um notkun á innfluttu holdanautasæði tekið fullt tillit til niðurstaðna áhættumats Veterinærinstituttet í Noregi, varðandi þær kvaðir sem lagðar verði á bú sem nota slíkt sæði.
Greinargerð
Innflutningur á nautgripakjöti var ríflega 1.000 tonn árið 2014, að andvirði rúmlega 900 milljóna kr. Jafnframt benda athuganir LK á þróun nautakjötsmarkaðar til þess, að þrátt fyrir að allir fæddir nautkálfar yrðu settir á til kjötframleiðslu og slátrun mjólkurkúa næði fyrra jafnvægi, dygði það ekki til að mæta vaxandi eftirspurn eftir nautgripakjöti. Því er afar brýnt að hraða svo sem kostur er öllum aðgerðum sem mega verða til að efla innlenda nautakjötsframleiðslu. Þar eru bein tengsl holdanautabænda við öflugt kynbótastarf einn mikilvægasti þátturinn.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Starfsnefnd 3
Aðalsteinn Hallgrímsson formaður nefndarinnar fylgdi tillögunum úr hlaði.
1. Verðlagning mjólkur
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, lýsir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp varðandi verðlagningu á mjólk og mjólkurafurðum. Verðlagning er í höndum Verðlagsnefndar búvöru en hún hefur ekki starfað síðan í júní 2014 þótt hennar bíði brýn verkefni. Fundurinn skorar á ráðherra landbúnaðarmála að höggva á hnútinn sem allra fyrst.
Hermann Gunnarsson sagðist sakna þess að hafa ekki með í tillögunni ákvæði um að benda á Umboðsmann Alþingis.
Aðalsteinn Hallgrímsson sagði frá umræðum í nefndinni um málið, eftir umræðu í nefndinni var talið vænlegra að gefa fulltrúm okkar meira andrými til að vinna áfram að málinu.
Sigurður Loftsson sagði það alveg rétt að málið væri ekki í réttum farvegi. Við hins vegar þurfum í framgöngu okkar að taka mið af því umhverfi sem greinin starfar í og meta hlutina í samhengi allra þátta. Auðvitað horfði málið allt öðruvísi við ef verðbreytingar væru meiri á aðföngum. Hef trú að málinu geti lokið farsællega, því sé eðlilegt að samþykkja tillöguna óbreytta.
Pétur Diðriksson lýsti sig sammála skoðun formanns á málsmeðferðinni.
Guðrún Sigurjónsdóttir tók undir orð formanns.
Tillagan samþykkt samhljóða.
2. Áherslur og samningsmarkmið búvörusamninga. Jóhannes Jónsson mælti fyrir tillögunni.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, tekur undir þær áherslur sem lagðar eru upp í ályktun Búnaðarþings 2015 vegna gerðar nýrra búvörusamninga. Fundurinn leggur áherslu á að þegar í stað verði hafnar viðræður við ríkisvaldið um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu til að eyða þeirri óvissu sem uppi er í greininni. Þar verði horft til eftirfarandi markmiða:
Að stefnt verði að samningi sem rammi inn starfsumhverfi greinarinnar til lengri tíma, að lágmarki 10 ára, þannig að bændur sjái sér fært að framkvæma og fjárfesta í greininni.
Að tryggð verði staða nautgriparæktarinnar sem eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar er keppt geti við aðrar atvinnugreinar og aðra valkosti um fólk, fjármagn og land.
Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, aukinni samkeppnishæfni og bættum kjörum bænda.
Að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda.
Að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.
Að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu í samræmi við auknar kröfur um aðbúnað og velferð gripa.
Að áhersla verði áfram lögð á heilnæmi afurða og kröfur til dýravelferðar í nautgriparækt.
Að tryggja öruggt framboð nautgripaafurða fyrir neytendur á hagstæðu verði.
Að skapa aðstæður til að nýta sóknarfæri á erlendum mörkuðum.
Að viðhaldið verði jákvæðri ímynd greinarinnar og afurða hennar.
Að tryggð verði staða lífrænnar framleiðslu nautgripaafurða og henni skapað ekki síðra starfsumhverfi en gerist í nálægum löndum.
Að takmarka eða banna innflutning dýraafurða sem eru framleiddar við lakari aðstæður og kröfur um aðbúnað, fóðrun og hirðingu en gerðar eru til innlendrar framleiðslu.
Til að framangreindum markmiðum verði náð, er lögð áhersla á eftirfarandi leiðir:
Tollaumgjörð:
Samið verði um tollvernd til að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu, hún verði í upphafi samnings ákveðin út frá breytilegri stöðu einstakra vöruflokka og tryggt að hún haldi verðgildi sínu.
Samningar um gagnkvæma tollkvóta komi því aðeins til greina, að tekið sé tillit til smæðar hins íslenska markaðar og umfangs innlendrar framleiðslu.
Verðlagning og úrvinnsla:
Á gildistíma nýs samnings verði horfið frá núverandi kvótakerfi og sama verð gildi fyrir alla innlagða mjólk.
Opinberri verðlagningu til bænda verði hætt, en opinber verðlagning verði áfram til staðar á vinnslu og/eða heildsölustigi, með það markmið að auka fjölbreytni, en tryggja jafnframt hagsmuni neytenda og bænda.
Tryggt verði með búvörulögum jafnt aðgengi bænda að markaði og þeim gert mögulegt að sameinast áfram í einu innvigtunar- og söfnunarfyrirtæki.
Samspil búvöru- og samkeppnislaga sé tryggt, þannig að bændum verði heimilt að koma sameinaðir fram gagnvart markaði. Þannig verði gert mögulegt að tryggja eðlilegt framboð mjólkurafurða, lágmarka kostnað við vinnslu, viðhalda eðlilegri birgðastýringu innanlands og hámarka afkomu af útflutningi.
Skýrðar verði þær leikreglur sem gilda eiga um úrvinnslu og sölu heima á búum kúabænda.
Stuðningskerfi:
Núverandi upphæðir stuðningsgreiðslna verði auknar og allir liðir þeirra verðtryggðir. Meginþungi þeirra verði áfram í formi framleiðslutengdra beingreiðslna og stuðli þannig að aukinni hagkvæmni framleiðslunnar, sanngjörnu vöruverði til neytenda og treysti tekjur bænda.
Beingreiðslur verði óbreyttar að umfangi frá því sem nú er og útfærðar með þeim hætti að þær tryggi jafnt og öruggt framboð mjólkur til vinnslu.
Gripagreiðslur verði áfram með svipuðum hætti, þær stuðli m.a. að fjölbreytni í búskaparháttum og styðji við áherslur um líffræðilegan fjölbreytileika.
Gert verði ráð fyrir auknum stuðningi ríkisins við eflingu þróunar- og kynbótastarfs í greininni.
Sótt verði á um aukin framlög sem stuðli að bættum aðbúnaði og velferð gripa í samræmi við auknar kröfur hins opinbera. Þar verði jafnframt gert ráð fyrir eðlilegri endurnýjun og nýliðun innan greinarinnar, bæði í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu.
Við samningsgerðina verði lögð áhersla á að bændum verði gefin eðlileg aðlögun að breyttu fyrirkomulagi á samningstímanum.
Jón Gíslason ræddi tillöguna og velti fyrir sér hvað er átt við með auknum gripagreiðslum. Finnst að vanta í tillöguna t.d. varðandi afkomu greinarinnar, stöðu greinarinnar og núverandi skuldsetningu greinarinnar.
Bessi Vésteinsson sagði að hann saknaði meira vægi inn í nautakjötsframleiðsluna, mjólkurframleiðendum mun fækka en vill sjá að aukinn stuðning við nautakjötsframleiðsluna, meðal annars með því að nýta þær jarðir áfram sem fara úr mjólkurframleiðslunni. Við þurfum að berjast fyrir meiri stuðningi við nautakjötsframleiðsluna.
Halldór Sigurðsson ræddi tillöguna, kvaðst vera tiltöllega sáttur en þó ákveðin atriði mætti lagfæra t.d. varðandi lífræna framleiðslu. Vill fá nánari upplýsingar um verðlagningarmálin skv. tillögunni. Þyrfti að fá fram meiri skýrleika í orðalag.
Þórólfur Ómar Óskarsson sagðist sammála orðum Bessa varðandi nautakjötsframleiðsluna. Þyrfti að auka greiðslur út á kjötið. Lagði jafnframt til að fella út ákveðna málsgrein um heilnæmi afurða.
Eiríkur Egilsson sagðist ekki vera sáttur við að í tillögunni verði fallið frá kvótakerfi, eðlilegra að segja endurskoðað, eins með verðlagningarmálin ekki séð nægileg rök fyrir að afnema opinbera verðlagningu til bænda.
Bóel Anna Þórisdóttir velti fyrir sér með opinbera verðlagningu annars vegar og hins vegar framleiðslutengdar beingreiðslur, hvernig það er hugsað. Er hugsað til þess að fá styrki til að byrja að búa. Tekur undir orð fyrri fundarmanna um afkomuna.
Jóhannes Torfason var einn nefndarmanna, meginmarkmið er tollverndin, koma sameiginlega fram á markaði og afskipti samkeppniseftirlits verði lágmörkuð. Sagði jafnframt frá því að á fulltrúafundi Auðhumlu í haust kom í ljós greinilegur vilji til að halda í núverandi form beingreiðslna frekar en annarra forma eins og út á land.
Sigurður Loftsson þakkaði umræðuna um þessa mikilvægu tillögu. Við þurfum að gera ráð fyrir að kjötframleiðslan fái aukinn stuðning, sömuleiðs þær kröfur sem gerðar eru um aðbúnað. Varðandi líffræðilega fjölbreytileika má líta á gripagreiðslurnar sem slíkar greiðslur þar sem t.d. holdakýr fá tvöfaldar greiðslur. Varðandi opinberu verðlagninguna þá þurfa menn að hafa í huga að ef á greiða eitt verð á mjólk og ekki kvótakerfi þá er ekki þörf á opinberri verðlagningu á framleiðendahliðina.
Bessi Vésteinsson lagði fram breytingatillögu um að nautkjötframleiðslan njóti ríkistuðnings til jafns við aðrar búgreinar sem njóta ríkisstuðnings.
Sigurður Loftsson lagði fram breytingatillögu við tillögu Bessa.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson ræddi tillöguna, m.a. varðandi úrvinnsluþáttinn, þ.e. þar sem talað er um eitt fyrirtæki.
Eiríkur Egilsson lagði fram breytingatillögu um að á gildistíma nýs samnings verði núverandi kvótakerfi endurskoðað og eins að opinber verðlagning verði bæði á framleiðenda – og vinnslustigi. Lagði jafnframt til að nafnakall verði um þessar tillögur.
Jóhannes Jónsson lagði til breytingu á yfirskrift tillögunnar þannig að nafnið tæki bæði til mjólkur- og nautakjötsframleiðslunnar. Sagði að eðlilegt væri að greiða atkvæði um tillögu Eiríks. Ljóst væri að ekki næðist samstaða í nefndinni um þau atriði.
Jóhann Nikulásson sagði að ráðherra landbúnaðarmála hefði kallaði eftir því í ræðu á Búnaðarþingi að fá skýr skilaboð frá bændum um þessi mál. Þessar breytingatillögur Eiríks gera það ekki.
Sigurður Loftsson lagði áherslu á menn þyrftu að skoða þessar tvær breytingatillögur í samhengi.
Þá var gengið til atkvæða um breytingartillögur:
a. Samþykkt samhljóða breyting í inngangi upphaflegu tillögunnar, tekið út ….um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu… og breytt í …. um starfsskilyrði nautgriparæktar…
b. Í kaflanum um verðlagningu og úrvinnsla þar sem upphaflegur texti tillögunnar hljóðar svo: …..Á gildistíma nýs samnings verði horfið frá núverandi kvótakerfi og sama verð gildi fyrir alla innlagða mjólk…..
Breytingatillagan hljóðar þannig: … Á gildistíma nýs samnings verði núverandi kvótakerfi endurskoðað og sama verð gildi fyrir alla innlagða mjólk…..
Óskað var eftir nafnakalli við atkvæðagreiðslu þessarar tillögu.
Já sögðu:Hallur Pálsson, Guðrún Eik Skúladóttir, Valgerður Kristjánsdóttir, Linda B. Ævarsdóttir, Hermann Ingi Gunnarsson, Halldóra Andrésdóttir, Halldór Sigurðsson, Eiríkur Egilsson.
Nei sögðu:Jóhanna Hreinsdóttir, Jón Gíslason, Laufey Bjarnadóttir, Pétur Diðriksson, Gústaf Jökull Ólafsson, Sigmundur H. Sigmundsson, Jóhannes Torfason, Róbert Örn Jónsson, Bessi Freyr Vésteinsson, Sævar Einarsson, Aðalsteinn Hallgrímsson, Þórólfur Ómar Óskarsson, Tryggvi Jóhannsson, Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Steinþór Heiðarsson, Björgvin Gunnarsson, Valdimar Guðjónsson, Ásmundur Lárusson, Pétur B. Guðmundsson, Jórunn Svavarsdóttir, Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, Elín Heiða Valsdóttir, Bóel Anna Þórisdóttir, Borghildur Kristinsdóttir.
Einn greiddi ekki atkvæði:Samúel Unnsteinn Eyjólfsson.
Breytingatillagan því felld með 24 atkvæðum gegn 8 atkvæðum, einn greiddi ekki atkvæði.
c. Í sama kafla tillögunnar um verðlagningu og úrvinnslu þar sem upphaflegur texti tillögunnar hljóðar svo: …..Opinberri verðlagningu til bænda verði hætt, en opinber verðlagning verði áfram til staðar á vinnslu og/eða heildsölustigi….
Breytingatilllagan hljóðar þannig: …..Ekki verði fallið frá opinberri verðlagningu á mjólkurafurðum…..
Óskað var eftir nafnakalli við atkvæðagreiðslu þessarar tillögu.
Já sögðu: Björgvin Gunnarsson, Eiríkur Egilsson.
Nei sögðu: Jóhanna Hreinsdóttir, Jón Gíslason, Laufey Bjarnadóttir, Pétur Diðriksson, Hallur Pálsson, Gústaf Jökull Ólafsson, Sigmundur H. Sigmundsson, Guðrún Eik Skúladóttir, Valgerður Kristjánsdóttir, Jóhannes Torfason, Linda B. Ævarsdóttir, Róbert Örn Jónsson, Bessi Freyr Vésteinsson, Sævar Einarsson, Aðalsteinn Hallgrímsson, Þórólfur Ómar Óskarsson, Hermann Ingi Gunnarsson, Tryggvi Jóhannsson, Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Steinþór Heiðarsson, Halldóra Andrésdóttir, Halldór Sigurðsson, Valdimar Guðjónsson, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Ásmundur Lárusson, Pétur B. Guðmundsson, Jórunn Svavarsdóttir, Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, Elín Heiða Valsdóttir, Bóel Anna Þórisdóttir, Borghildur Kristinsdóttir.
Breytingatillagan því felld með 31 atkvæði gegn 2 atkvæðum.
d. Lögð fram eftirfarandi viðbótarmálgrein í tillöguna þar sem fjallað er um Stuðningskerfi:
……Sótt verði á um aukin framlög svo nautakjöt njóti stuðnings….
Viðbótarmálgreinin samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri bar þá tillöguna upp í heild sinni með samþykktri orðalagsbreytingu og viðbótamálsgrein um nautakjötið og tillagan þannig samþykkt samhljóða.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.- 13. mars 2015, tekur undir þær áherslur sem lagðar eru upp í ályktun Búnaðarþings 2015 vegna gerðar nýrra búvörusamninga. Fundurinn leggur áherslu á að þegar í stað verði hafnar viðræður við ríkisvaldið um starfsskilyrði nautgriparæktar til að eyða þeirri óvissu sem uppi er í greininni. Þar verði horft til eftirfarandi markmiða:
Að stefnt verði að samningi sem rammi inn starfsumhverfi greinarinnar til lengri tíma, að lágmarki 10 ára, þannig að bændur sjái sér fært að framkvæma og fjárfesta í greininni.
Að tryggð verði staða nautgriparæktarinnar sem eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar er keppt geti við aðrar atvinnugreinar og aðra valkosti um fólk, fjármagn og land.
Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, aukinni samkeppnishæfni og bættum kjörum bænda.
Að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda.
Að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.
Að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu í samræmi við auknar kröfur um aðbúnað og velferð gripa.
Að áhersla verði áfram lögð á heilnæmi afurða og kröfur til dýravelferðar í nautgriparækt.
Að tryggja öruggt framboð nautgripaafurða fyrir neytendur á hagstæðu verði.
Að skapa aðstæður til að nýta sóknarfæri á erlendum mörkuðum.
Að viðhaldið verði jákvæðri ímynd greinarinnar og afurða hennar.
Að tryggð verði staða lífrænnar framleiðslu nautgripaafurða og henni skapað ekki síðra starfsumhverfi en gerist í nálægum löndum.
Að takmarka eða banna innflutning dýraafurða sem eru framleiddar við lakari aðstæður og kröfur um aðbúnað, fóðrun og hirðingu en gerðar eru til innlendrar framleiðslu.
Til að framangreindum markmiðum verði náð, er lögð áhersla á eftirfarandi leiðir:
Tollaumgjörð:
Samið verði um tollvernd til að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu, hún verði í upphafi samnings ákveðin út frá breytilegri stöðu einstakra vöruflokka og tryggt að hún haldi verðgildi sínu.
Samningar um gagnkvæma tollkvóta komi því aðeins til greina, að tekið sé tillit til smæðar hins íslenska markaðar og umfangs innlendrar framleiðslu.
Verðlagning og úrvinnsla:
Á gildistíma nýs samnings verði horfið frá núverandi kvótakerfi og sama verð gildi fyrir alla innlagða mjólk.
Opinberri verðlagningu til bænda verði hætt, en opinber verðlagning verði áfram til staðar á vinnslu og/eða heildsölustigi, með það markmið að auka fjölbreytni, en tryggja jafnframt hagsmuni neytenda og bænda.
Tryggt verði með búvörulögum jafnt aðgengi bænda að markaði og þeim gert mögulegt að sameinast áfram í einu innvigtunar- og söfnunarfyrirtæki.
Samspil búvöru- og samkeppnislaga sé tryggt, þannig að bændum verði heimilt að koma sameinaðir fram gagnvart markaði. Þannig verði gert mögulegt að tryggja eðlilegt framboð mjólkurafurða, lágmarka kostnað við vinnslu, viðhalda eðlilegri birgðastýringu innanlands og hámarka afkomu af útflutningi.
Skýrðar verði þær leikreglur sem gilda eiga um úrvinnslu og sölu heima á búum kúabænda.
Stuðningskerfi:
Núverandi upphæðir stuðningsgreiðslna verði auknar og allir liðir þeirra verðtryggðir. Meginþungi þeirra verði áfram í formi framleiðslutengdra beingreiðslna og stuðli þannig að aukinni hagkvæmni framleiðslunnar, sanngjörnu vöruverði til neytenda og treysti tekjur bænda.
Beingreiðslur verði óbreyttar að umfangi frá því sem nú er og útfærðar með þeim hætti að þær tryggi jafnt og öruggt framboð mjólkur til vinnslu.
Gripagreiðslur verði áfram með svipuðum hætti, þær stuðli m.a. að fjölbreytni í búskaparháttum og styðji við áherslur um líffræðilegan fjölbreytileika.
Gert verði ráð fyrir auknum stuðningi ríkisins við eflingu þróunar- og kynbótastarfs í greininni.
Sótt verði á um aukin framlög sem stuðli að bættum aðbúnaði og velferð gripa í samræmi við auknar kröfur hins opinbera. Þar verði jafnframt gert ráð fyrir eðlilegri endurnýjun og nýliðun innan greinarinnar, bæði í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu.
Sótt verði á um aukin framlög svo nautkjöt njóti stuðnings.
Við samningsgerðina verði lögð áhersla á að bændum verði gefin eðlileg aðlögun að breyttu fyrirkomulagi á samningstímanum.
3. Uppfylling á þörfum markaðarins
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, hvetur bændur til að fullnægja þörfum innanlandsmarkaðar fyrir mjólk og nautakjöt til að koma í veg fyrir aukinn innflutning á þessum vörum með áhættu á minnkandi umfangi íslenskrar landbúnaðarframleiðslu.
Tillagan samþykkt samhljóða.
4. Fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, hvetur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að gera reglugerð 190/2011 óvirka árið 2015 og gefa viðskipti með greiðslumark frjáls.
Greinargerð
Eftirspurn greiðslumarks hefur nær alveg horfið á undanförnum mánuðum, í kjölfar mikillar aukningar á greiðslumarki og aukinnar framleiðsluskyldu greiðslumarkshafa. Þá hefur verð lækkað um ríflega helming á nokkrum misserum. Ekki er að sjá að breytingar verði í þessum efnum á næstunni. Vaxandi áhugi er á því meðal bænda að færa búrekstur sinn milli jarða, til að nýta betri aðstöðu og auka möguleika á framþróun í rekstri. Núverandi fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta er, eins og nú háttar, þeim bændum fjötur um fót. Mikilvægt er að þær reglur sem gilda, í þessu efni sem öðrum, hindri ekki framþróun greinarinnar.
Hermann Ingi Gunnarsson velti fyrir sér hvað á að gera eftir árið 2015, ætlum við að gera kvótann óvirkan eftir 2015? Annað hvort höldum við okkar striki með kvótamarkaðinn eða fellum hann alveg út.
Sigurður Loftsson sagði að kvótamarkaðurinn væri settur á með reglugerðarákvæðum, Sigurður sagðist að á sínum tíma hefði hann verið mikill talsmaður kvótamarkaðar, hins vegar eru núna allt aðrar framleiðslu- og söluaðstæður. Hugsanlega er þessi markaður orðinn óþarfur til framtíðar.
Hermann Ingi Gunnarsson sagði mikið framboð núna en lítil eftirspurn. Vill fá svar um hvað gerist eftir 2016.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson taldi að halda ætti kvótamarkaðnum áfram út samningstímann.
Guðrún Eik Skúladóttir finnst kvótamarkaður eigi að halda áfram, spurning um undanþáguákvæði um flutning milli jarða frekar en taka hann alveg af.
Sveinbjörn Þór Sigurðsson sagðist ekki styðja þessa tillögu og vill halda markaðnum áfram til loka samnings.
Laufey Bjarnadóttir sagðist vera sammála orðum Sveinbjörns, fyrir tíma kvótamarkaðar var þetta komið út í algjöra vitleyslu, varðandi viðskipti milli jarða – þá geta menn selt og keypt á markaðnum.
Eiríkur Egilsson taldi að verð á markaðnum endurspeglast í framboði og eftirspurn. Getum við fundið einhverja millileið núna til að það geti orðið sátt um málið á fundinum?
Þórólfur Ómar Óskarsson vill falla frá þessari tillögu en heimilað verði að bændur geti flutt kvóta milli jarða.
Valgerður Kristjándóttir kvaðst sammála um að viðhalda þessu fyrirkomulagi áfram.
Sigmundur H. Sigmundsson sagðist vera sammála að halda í tillöguna, töluvert af bændum sem fylla ekki sinn kvóta núna geta þá t.d. látið nágranna kaupa af sér.
Jóhann Nikulásson sagðist hafa verið talsmaður þess að setja á stofn kvótamarkað á sínum tíma. Þurfum að hafa í huga að ekki má lengur afskrifa greiðslumarkskaup eins og áður var. Margir sem geta ekki uppfyllt greiðslumark sitt vilja geta selt hann frekar beint til nágranna sinna eða auglýsa hann beint.
Sigurður Loftsson sagðist ekki vita hvað gerist eftir lok samningstímans. Við þær aðstæður sem nú eru, verður framboðið mikið, fyrst og fremst frá bændum sem ná ekki að fylla sitt greiðslumark.
Þórólfur Ómar Óskarsson sagðist ekki hafa séð nein rök til þess enn að afnema kvótamarkaðinn. Leggur fram breytingatillögu um að fjölga viðskiptadögum kvótamarkaðar og lagt verði til að beita undanþáguákvæði vegna viðskipta milli jarða
Fundarstjóri frestaði afgreiðslu tillögu 4 til að nefndin geti skoðað málið áfram.
Að loknu funda- og kaffihléi var fundi framhaldið.
Fundarstjóri las breytingatillögu frá Þórólfi. Hún er eftirfarandi:
„Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015 ályktar að viðskiptadögum á kvótamarkaði verði fjölgað í 6 á ári en jafnframt verði reglugerð breytt til að bændur geti flutt eigin kvóta milli eigin lögbýla.“
Bóel Anna Þórisdóttir ræddi tillöguna og velti fyrir sér þegar bóndi vill selja bæði kvóta og gripi en halda í jörðina og búa þar áfram.
Sigmundur H. Sigmundsson ræddi breytingatillöguna, vísaði til þess takmarkaðs magns sem hefur verið á markaði síðustu markaðsdaga, að hans mati þýðir lítið að fjölga dögum.
Breytingatillagan samþykkt með 18 atkvæðum gegn 11.
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 12.- 13. mars 2015 ályktar að viðskiptadögum á kvótamarkaði verði fjölgað í 6 á ári en jafnframt verði reglugerð breytt til að bændur geti flutt eigin kvóta milli eigin lögbýla.
Fundarstjóri úrskurðaði að upphaflega tillagan komi því ekki til afgreiðslu.
5. Beingreiðslur og gæðastýringargreiðslur
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015 krefst þess að fallið verði frá áformum um að verkefni Búnaðarstofu heyri undir Matvælastofnun. Þess í stað verði hún sjálfstæð stofnun sem heyri undir ráðuneyti atvinnumála.
Tillagan samþykkt samhljóða.
6. Hagtölusöfnun nautgriparæktarinnar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, átelur harðlega seinagang Hagstofu Íslands við úrvinnslu á niðurstöðum búreikninga. Áætluð skil á niðurstöðum fyrir árið 2013 eru í lok maí 2015. Að mati fundarins er óviðunandi með öllu að nýjustu upplýsingar um afkomu kúabænda séu eins og hálfs árs gamlar er þær liggja fyrir. Aðalfundur felur stjórn LK að leita samstarfs við bókhaldsskrifstofur búnaðarsambandanna og RML um gerð samantektar á afkomu kúabænda, sem liggi fyrir í maí ár hvert fyrir næstliðið bókhaldsár.
Tillagan samþykkt samhljóða.
7. Nýting búnaðargjalds í þágu einstakra búgreina
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, fer fram á að RML skili greinargerð um ráðstöfun búnaðargjalds. Í greinargerðinni komi fram hverjar tekjur félagsins eru af búnaðargjaldi frá einstökum búgreinum og tilsvarandi ráðstöfun þess í þágu einstakra búgreina. Greinargerðin verði birt á heimasíðu RML eigi síðar en 1. september 2015.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Starfsnefnd 1
Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti fylgdi tillögum 1 og 2 úr hlaði
1. Samþykktabreytingar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015 samþykkir eftirfarandi breytingar á 10.gr. í samþykktum félagsins.
Greinin verði svohljóðandi; ,, mál sem á að taka til afgreiðslu á aðalfundi LK skuli hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund“ en ekki 7 dögum eins og nú er.
Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einn fulltrúi sat hjá.
2. Aðalfundargögn
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, beinir því til stjórnar LK að gögn fyrir aðalfundarfulltrúa berist þeim tímanlega svo þeir geti kynnt sér málefnin fyrir aðalfund.
Hallur Pálson var framsögumaður með tillögu 3.
3. Ljósleiðaravæðing
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, fagnar ákvörðun stjórnvalda um lagningu ljósleiðara um hinar dreifðu byggðir landsins.
Hermann Ingi Gunnarsson taldi að það þyrfti að leggja mun meiri pening í þennan málaflokk en þegar er ákveðið.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Sigmundur H. Sigmundssonvar framsögumaður með tillögu 4.
4. Vinnueftirlitið
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.og 13. mars 2015, hvetur Vinnueftirlitið til að sinna nauðsynlegu eftirliti með búvélum. Mjög brýnt er að úr því verði bætt, svo tryggja megi sem best öryggi þeirra sem vinna við landbúnað.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Valgerður Kristjánsdóttir var framsögumaður tillögu 5.
5. Neytendamerkingar nautgripakjöts
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík dagana 12. og 13. mars 2015 ítrekar nauðsyn þess að bæta neytendamerkingar fyrir íslenskt nautgripakjöt.
Skýrar og auðsæjar upprunamerkingar í verslunum eru sjálfsögð krafa fyrir íslenska neytendur og framleiðendur.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Þórólfur Ómar Óskarsson var framsögumaður tillögum 6 og 7.
6. Flutningur nautgripa milli varnarhólfa.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, hvetur Matvælastofnun til að endurskoða verklag varðandi flutning á nautgripum milli varnarhólfa. Í þeim efnum verði eingöngu horft til garnaveikistöðu á því búi sem flytja skal gripi frá.
Greinargerð
Í kjölfar hinnar gríðarmiklu aukningar á eftirspurn eftir nautgripaafurðum og aukinnar framleiðsluskyldu mjólkurframleiðenda, hafa viðskipti með lifandi gripi aukist mjög. Bændum í sk. „hreinum“ varnarhólfum er þar verulega þrengri stakkur skorinn en bændum á öðrum landssvæðum m.t.t. möguleika á viðskiptum með gripi, sökum þess hve fá nautgripabú eru í hverju varnarhólfi þar sem garnaveiki hefur ekki orðið vart. Hyggist þeir kaupa gripi utan síns hólfs, leggur það verulega íþyngjandi kvaðir á herðar seljanda m.t.t. sýnatöku og kostnaðar. Einnig eru umtalsverð brögð að því að prófin sem notuð eru gefi fölsk jákvæð svör, sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir seljendur gripa. Í skýrslu starfshóps frá 2008 um áhættugreiningu vegna garnaveiki í nautgripum á Íslandi kom fram, að tjón nautgripabænda vegna garnaveiki hefði nánast ekkert verið undanfarna áratugi. Aftur á móti eru dæmi um að varnaraðgerðir vegna garnaveiki hafi valdið einstaklingum umtalsverðu fjárhagstjóni. Núverandi fyrirkomulag er ótækt frá sjónarhóli nautgriparæktarinnar og er hvatt til að það verði tekið til endurskoðunar í samræmi við tillögur framangreinds starfshóps.
Tillagan samþykkt samhljóða.
7. Geymslurými fyrir búfjáráburð.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, skorar á umhverfisráðherra að framlengja um 10 ár bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 804/1999, sem mælir fyrir um frestun á gildistöku ákvæðis 6. greinar sömu reglugerðar varðandi 6 mánaða geymslurými fyrir búfjáráburð. Auk þess verði básafjós sem hafa starfsleyfi samkvæmt undanþáguákvæði reglugerðar nr. 1065/2014 um velferð nautgripa að fullu undanþegin kröfu um 6 mánaða geymslurými fram til 31. desember 2034.
Greinargerð
Framangreint bráðabirgðaákvæði var framlengt um fimm ár árið 2010. Ástæðan fyrir framlengingunni var sú mikla óvissa um efnahagslega stöðu fjölmargra kúabúa í kjölfar efnahagsáfallsins 2008, sem gerði þeim ókleyft að fara í frekari framkvæmdir. Einnig voru væntingar um að nýting á hauggasi (metani) myndu breyta forsendum fyrir þörf á geymslurými. Þær hafa ekki gengið eftir. Sökum þess hversu langan tíma tók að fá niðurstöðu um úrlausn skuldamála hefur svigrúmið sem fékkst með framlengingu bráðabirgðaákvæðisins heldur ekki nýst sem skyldi. Við þetta bætist síðan ákvæði reglugerðar um velferð nautgripa sem bannar notkun hefðbundinna básafjósa eftir 31. desember 2034. Með því gerbreytast forsendur fyrir endurbótum á þeim fjósum. Fundurinn leggur til að lagt verði mat á geymslurými mykju á hérlendum kúabúum og gerðar verði áætlanir um úrbætur þar sem þær eiga við og teljast forsvaranlegar. Jafnframt verði leitað hagkvæmustu tæknilausna varðandi geymslu á búfjáráburði.
Sveinbjörn Þór Sigurðsson sagðist ekki leggja fram breytingatillögu. Hins vegar er þetta tvíbent tillaga þar sem þarna er um að ræða dýrmæt verðmæti að ræða sem felst í búfjáráburðinum.
Eiríkur Egilsson sagðist vera efnislega sammála Sveinbirni og lagði fram tillögu að frestur yrði 5 ár ekki 10 ár eins og upphaflega tilagan gengur út á.
Gústaf Jökull Ólafsson fannst þessi tillaga ekki eðlileg, þarna er farið fram á frestun á framkvæmd löggjafar í allt að 34 ár. Finnst eðlilegra að menn taki á þessum málum.
Sigurður Loftsson finnst eðlilegt að skoða málið út frá ákvæðum í aðbúnaðarreglugerð. Hins vegar er rétt að sum þeirra nýlegu fjósa hafa ekki náð að ganga frá hauggeymslumálum sínum m.a. vegna afleiðinga efnahagsáfallsins 2008.
Jón Gíslason sagði frá því að á kennslubúinu á Hvanneyri er til geymslurými til 6 mánuða en síðan er honum dreift á hálfsmánaðarfresti. Þetta skiptir máli fyrir ásýndina, það skiptir líka máli hvort rými er til geymslu í hálfan mánuð eða til þriggja mánuða.
Aðalsteinn Hallgrímsson nefndi að möguleikar eru á að draga úr lyktaráhrifum með notkun sérstakra efna til íblöndunar.
Breytingatillagan borin upp sem gekk út að framlengja frest um úrbætur um fimm ár.
Felld með 10 atkvæðum gegn 8.
Upphaflega tillagan samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Jóhanna Hreinsdóttir var framsögumaður tillögu 8.
8. Fjármögnun og rekstur LK til framtíðar.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.og 13. mars 2015, felur stjórn að koma á fót starfshópi, í samstarfi við aðildarfélög, sem hafi það hlutverk að móta tillögur um framtíðarfjármögnun samtaka kúabænda og nauðsynlegar breytingar á samþykktum, í kjölfar afnáms innheimtu búnaðargjalds. Niðurstöður hópsins liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2015 og verði afgreiddar á fulltrúafundi eigi síðar en 1. nóvember 2015.
Tillagan samþykkt samhljóða
Pétur Diðrikssonvar framsögumaður tillögu 9
9. Nautastöðin
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12. og 13. mars 2015, telur ekki grundvöll til frekari viðræðna við BÍ að svo komnu, um kaup á Nautastöðinni á þeim forsendum sem fyrir liggja.
Fundurinn lýsir fullum áhuga á að vinna áfram að málinu til að ná fram þeim markmiðum sem upphaflega lágu til grundvallar.
Sigurður Loftsson taldi að forsendur hefðu breyst með afgreiðslu stjórnar BÍ á málinu. Hefur talið frá upphafi máls að kúabændur sjálfir ættu að eiga meirihluta í Nautastöðinni. Hins vegar með þessari tillögu sem liggur fyrir aðalfundi er ekki verið að loka neinum dyrum fyrir framhaldi máls.
Tillagan samþykkt samhljóða.
10. Reikningar LK
Baldur Helgi framkvæmdarstjóri fór yfir niðurstöður ársreiknings ársins 2014, tekjur voru 59,8 milljónir króna en gjöld rúmar 46,4 milljónir króna, fjármunatekjur 1,1 milljón króna. Afkoma samtakanna jákvæð um 14,5 milljónir króna.
Ársreikningur samþykktur samhljóða.
11. Launakjör stjórnar og fjárhagsáætlun
Lagt til að laun stjórnarmanna fylgi launavísitölu, þannig að laun breytist hinn 1. apríl ár hvert til samræmis við breytingar á launavísitölu. Miða skal breytinguna við nýjustu launavísitölu.
Lagt er til að styrkir til aðildarfélaga verði 1 milljón króna í fjárhagsáætlun LK fyrir árið 2015. Einnig verði gert ráð fyrir kostnaði vegna kynningarstarfs, m.a. vegna 30 ára afmælis samtakanna á árinu 2016 og þátttöku í verkefninu ,,Bændur segja allt gott“. Fundurinn leggur áherslu á að leitað verði leiða til þess að auka tekjur LK t.d. með því að sækja styrki til fyrirtækja, selja auglýsingar á heimasíðu samtakanna o.fl.
Fjárhagsáætlun lögð fram með 62,5 milljóna króna tekjum og gjöld verði 50.150.000 krónur og því rekstraafgangur upp á 12.350.000 krónur.
Hermann Ingi Gunnarsson lagði fram spurningar um launakjör stjórnar, þyrfti að vinna meiri sundurliðun. Varðandi aðalfund, þá er reiknað með lækkun milli ára en hækkun á gjöldum vegna heimasíðu.
Baldur Helgisagði í liðnum launakjör stjórnar væri öll laun, bæði stjórnar og framkvæmdarstjóra.
Tillagan samþykkt samhljóða.
8. Kosningar
Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar um Sigurð Loftsson sem formann LK.
Gengið var til skriflegrar atkvæðagreiðslu. Úrslit urðu eftirfarandi:
Sigurður Loftsson 22 atkvæði
Þórólfur Ómar Óskarsson 4 atkvæði
Aðrir færri atkvæði.
Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar um fjóra stjórnarmenn LK. Nefndin lagði til að núverandi stjórnarmenn yrðu endurkjörnir.
Þórólfur Ómar Óskarsson tilkynnti að hann byði sig fram til kjörs í stjórn LK.
Úrslit urðu eftirfarandi í skriflegri atkvæðagreiðslu:
Þórólfur Ómar Óskarsson 25 atkvæði
Guðný Helga Björnsdóttir 24 atkvæði
Jóhann Nikulásson 21 atkvæði
Trausti Þórisson 20
Næstur á eftir var Jóhann Gísli Jóhannsson með 18 atkvæði og aðrir fengu færri atkvæði.
Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar að tveimur varamönnum í stjórn LK þeim, Jóhönnu Hreinsdóttur og Laufey Bjarnadóttur.
Jóhanna Hreinsdóttir tók til máls og óskaði eftir því að vera ekki í kjöri þar sem hún einbeitti sér nú að starfi innan stjórnar Auðhumlu.
Eftirtaldar hlutu kosningu:
Laufey Bjarnadóttir 27 atkvæði
Bóel Anna Þórisdóttir 11 atkvæði
Næstur á eftir þeim var Jóhann Gísli Jóhannsson með 8 atkvæði og aðrir með færri atkvæði.
Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar að skoðunarmönnum reikninga
Aðalmenn:
Pétur Diðriksson
Borghildur Kristinsdóttir
Varamaður
Valdimar Ó. Sigmarsson
Voru þeir kosnir með lófaklappi.
Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar að 5 fulltrúum á Búnaðarþing:
Formaður Sigurður Loftsson er sjálfkjörinn
Þórólfur Ómar Óskarsson, Trausti Þórisson, Guðný Helga Björnsdóttir og Jóhann Nikulásson.
Eftirtaldir hlutu kosningu:
Fulltrúar á Búnaðarþing.
Sigurður Loftsson formaður LK (sjálfkjörinn)
Þórólfur Ómar Óskarsson 25 atkvæði
Trausti Þórisson 20 atkvæði
Guðný Helga Björnsdóttir 20 atkvæði
Jóhann Nikulásson 17 atkvæði
Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu uppstillingarnefndar að 5 varamönnum á Búnaðarþing í þessari röð:
1. Laufey Bjarnadóttir
2. Halldóra Andrésdóttir
3. Samúel U. Eyjólfsson
4. Anna S Jónsdóttir
5. Ásmundur Lárusson
Voru varamenn kosnir með lófaklappi.
9. Önnur mál.
Hermann Ingi Gunnarsson kynnti viðbótartillögu við tillögu um ljósleiðara sem áður var samþykkt á fundinum.
Fundarstjóri bar undir fundarmenn hvort fundurinn leyfði þessa málsmeðferð. Fundarmenn samþykktu slíkt. Viðbótartillagan borin upp og samþykkt samhljóða. Viðbótartillagan hljóðar þannig;…. og hvetur ríkisstjórnina til að setja enn meiri fjármuni í verkefnið til að flýta framkvæmd þess…… Tillagan þá svohljóðandi:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, fagnar ákvörðun stjórnvalda um lagningu ljósleiðara um hinar dreifðu byggðir landsins og hvetur ríkistjórnina til að setja enn meiri fjármuni í verkefnið til að flýta framkvæmd þess.
Jóhann Gísli Jóhannsson þakkaði fyrir árin í stjórn og óskaði nýrri stjórn heilla í störfum sínum.
Þórólfur Ómar Óskarsson þakkaði traustið sem aðalfundarfulltrúar sýndu sér. Stórt verkefni framundan væri ímyndunarmál stéttarinnar inn á við.
Sigurður Loftsson tilkynnti breytingu á dagskrá en reiknað hafði verið að halda aðalfund Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands strax í kjölfar aðalfundar LK en í ljósi breyttra aðstæðna yrði þeim fundi frestað.
10. Fundarslit
Sigurður Loftsson þakkaði Jóhanni Gísla fyrir samstarfið í stjórn á liðnum árum og jafnframt fagnaði nýjum stjórnamanni, þakkaði starfsmönnum fundarins fyrir þeirra vinnu og sleit síðan fundi kl. 18.50
Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð