Beint í efni

Aðalfundur 2013

23.03.2013

1. Fundarsetning

 

Sigurður Loftsson formaður LK setti fund kl. 10:00 og bauð fólk velkomið til starfa. Kynnti tillögu  að fundarstjórum, þau Elínu Stefánsdóttur og Jóhannes Torfason og var það samþykkt og tóku þau við stjórn fundarins. Jóhannes kynnti tillögu að fundarritara aðalfundar, Guðfinnu Hörpu Árnadóttur og skrifstofustjóra fundarins, Snorra Sigurðssyni. Þau kynntu tillögu að kjörbréfanefnd, þau Valdimar Guðjónsson, Laufeyju Bjarnadóttur og Jóhannes Jónsson.

 

2.            Skýrsla stjórnar – Sigurður Loftsson formaður LK

Sigurður hóf mál sitt á að minnast þess að þau fjögur ár sem hann hefur verið í starfi hafi verið mikil umbrotaár, ekki síst í þjóðlífinu en lífið haldi samt áfram sinn vanagang með keimlíkum verkefnum frá ári til árs. Hann fór svo yfir rysjótt veðurfar ársins sem einkenndist af þurru sumri og köflóttum vetri sem hófst snemma með miklum fjárskaðahvelli norðanlands í byrjun september.

 

Þrátt fyrir þetta veðurfar var innvigtun mjólkur á árinu 125 milljónir L sem er 1,6% aukning frá fyrra ári og sala á fitugrunni var 114 milljónir L sem er 2,4% aukning og sala á próteingrunni varð 115,5 milljónir L og jókst um 1,6%. Þetta var ánægjulegt eftir samdrátt áranna 2010 og 2011. Nú er svo komið að sala á fitugrunni er litlu minni en á próteingrunni. Þessi söluaukning gaf tilefni til að hækka greiðslumark ársins 2013 og var það ákveðið 116 milljónir L. Útflutningur á próteingrunni varð 13,5 milljónir L, langmest af undanrennudufti. Þó var flutt út nokkuð af smjöri í stórpakkningum og skyri á Finnlandsmarkað fyrst og fremst. Sigurður velti upp til íhugunar hvort greinin sé tilbúin í markaðsátak erlendis og kynnti spár um mikinn vöxt í eftirspurn og stíganda í verði mjólkurafurða á heimsmarkaði.

 

Næst fjallaði Sigurður um samningagerð nýs búvörusamnings en hún hófst að loknu Búnaðarþingi og aðalfundi LK 2012 og lauk síðla sumars það ár. Skrifað var undir nýja búvörusamninga og búnaðarlagasamning 28. september. Þá voru allir samningar framlengdir um 2 ár og vatnshallinn var tekinn af samningnum en skerðingar urðu á heildarfjárhæðum og breytingar á framkvæmd verðbóta. Samningsaðilar urðu sammála um að hefja stefnumótun um samkeppnishæfni og hagkvæmni í greininni til að treysta afkomu hennar til lengri tíma og gera breytingar á kvótakerfi þannig að hann eigngerist minna. Sigurður sagði að LK leggi áherslu á aðlögunartíma að breytingum sem stefnumótunin kann að hafa í för með sér. Hann vitnaði einnig í skýrslu RANNÍS um „Stöðu og þróunarhorfur í nautgriparækt á Íslandi“ frá 2001 og sagði hana vera gott hjálpartæki í vinnunni framundan og kvaðst telja mikilvægt að vinna þessa vinnu hratt en örugglega. Sigurður sagði mjög dýrmætt að ná að framlengja búvörusamning en harmaði hversu þátttaka í almennri atvæðagreiðslu var dræm eða 36%.

 

Næst ræddi Sigurður um lágmarksverð mjólkur, aðfangahækkanir og verðlagsgrundvöllinn. Í máli hans kom fram að lágmarksverð mjólkur til bænda hækkaði 1. júlí  sl. um 2,8 kr eða 3,6% í 80,43 kr./L. Vinnslu- og dreifingarkostnaður hækkaði á sama tíma um 4,4%. Aðföng hafa einnig hækkað í verði og kjarnfóðrið og áburðurinn eru stórir liðir sem hafa einnig hækkað hlutfallslega hvað mest. Þrátt fyrir það eru vísbendingar um batnandi afkomu sagði Sigurður en enn glíma þó margir við þungan rekstur og ekki síður erfiða skuldastöðu auk óvissu vegna biðlána sem gerir mörgum erfitt um vik. Sigurður sagði það mikilvægt að eyða þessarri óvissu sem fyrst.  

 

Sigurður fjallaði næst um sölu nautakjöts sem hefur verið viðvarandi góð, aukning hefur verið í eftirspurn og ræður nú framboð sláturgripa sölumagni. Innlendur markaður hefur stækkaður um 10% á tveimur árum og mikilvægt að nýta þessi tækifæri í íslenskum sveitum. Innflutningur var 197 tonn á síðasta ári. Skilaverð til bænda hefur farið hækkandi og var orðin 15% hækkun á UNIA frá því í janúar 2011 til ársloka 2012. Sigurður lýsti þó áhyggjum af greininni vegna minni nautkálfaásetnings undanfarin ár, eflaust vegna lélegs heyfengs á sumum svæðum, sem mun hafa áhrif til samdráttar í innlendri framleiðslu sem mun hafa áhrif til aukins innflutnings. Greindi hann frá undirbúningsvinnu við aðgerðir til styrktar nautakjötsframleiðslunnar og sagði frá starfi tveggja starfshópa Atvinnuvegaráðuneytisins þar um.

 

Sigurður ræddi kynbótastarfið, hann sagði afgerandi og athyglisverða niðurstöðu viðhorfskönnunar meðal kúabænda gefa skýr skilaboð um að ekki sé vilji fyrir að nota innblöndun erlends erfðaefnis í íslenska kúastofninn og því ljóst að það verði ekki gert á vettvangi sameiginlegs kynbótastarfs á meðan svo er. Hann nefndi auk þessarar niðurstöðu aðrar niðurstöður könnunarinnar í samhengi við niðurstöður greinar Ágústar Sigurðssonar og Jóns Viðars Jónmundssonar um árangur ræktunarstarfsins. Niðurstöður athugunarinnar sem greinin fjallar um bendir til þess að kynbótakerfið afkasti um 70% þeirra erfðaframfara sem það gæti gert ef allir bændur tækju fullan þátt með því að halda ættfærslum fullkomnum og nota eingöngu sæðinganaut. Á sama tíma nota tæp 60% bænda sem svara könnuninni heimanaut á kvígur. Sigurður minnti á að kynbótastarfið er félagslegt á Íslandi og hvatti til samstöðu bænda til árangurs.

 

Sigurður tæpti næst á málefnum sæðingastarfsseminnar út frá viðhorfskönnun meðal kúabænda og ályktun Búnaðarþings. Nefndi skýrslu starfshóps um kosti og galla þess að sameina starfssemina á landinu öllu. Sagði nauðsynlegt að ganga fram af yfirvegun við framvinnu þessarra mála vegna ólíkra aðstæðna hringinn í kringum landið.

 

Sigurður ræddi umræðu á haustdögum um umgengni og aðbúnaður nautgripa en hún varð mikil í kjölfar afturköllunar mjólkursöluleyfa á tveimur búum. Sagði hann gæðastjórnunarkerfi sem kynnt var á síðasta aðalfundi enn í vinnslu og mikilvægt m.a. í ljósi þessarar umræðu að vel takist að innleiða slíkt kerfi hér á landi. Í framhaldinu nefndi hann mál fyrirtækisins Gæðakokka sem bauð kjötlausar kjötbökur og sagði framkomu sem þeirra óþolandi. Sigurður sagði að nausynlegt sé að gera kröfur einnig til þeirra sem vinna úr afurðunum sérstaklega í ljósi þess hvað ímynd og traust neytenda skiptir miklu máli.

 

Sigurður tæpti á stofnun nýs ráðgjafafyrirtækis í landbúnaði sem nefnist Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins ehf. sem sameinar ráðgjafastarf BÍ og búnaðarsambandanna undir einn hatt. Sigurður óskaði starfsmönnum og stjórnendum velfarnaðar í starfi og sagði miklu skipta að vel takist til og að raunverulegur greiðsluvilji verði látinn móta þjónustuna.

 

Sigurður kynnt í lok ræðu sinnar miklar breytingar hjá BÍ, þakkaði fráfarandi formanni samtakanna Haraldi Benediktssyni fyrir gott samstarf við LK og árnaði formanni Sindra Sigurgeirssyni heilla í starfi. Hann fagnaði því að ný stjórn sé skipuð konum að meirihluta en ræddi að mikið starf sé framundan, treysta þurfi innviði BÍ og sagðist telja mikilvægt að samtökin verði regnhlífasamtök búgreinanna og tryggi hámarksárangur fyrir lágmarkskostnað með góðri nýtingu mannafla.

 

Hann þakkaði ánægjuleg samskipti á árinu og meðstjórnendum sínum og starfsmönnum sambandsins gott samstarf.

 

3.             Afhending heiðursviðurkenningar

Sigurður Loftsson afhenti Magnúsi B. Jónssyni heiðursviðurkenningu Landssambands kúabænda 2013.

 

Magnús er bændum landsins að góðu kunnur enda starfað í þágu bænda í áratugi sem bæði skólastjóri á Hvanneyri og sem ráðunautur. Magnús lauk prófi úr Framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri vorið 1963 og í kjölfarið réðst hann til starfa hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Sumarið 1964 hélt hann til Noregs í framhaldsnám og kom svo til baka árið 1970 og hóf þá þegar störf á ný hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Magnús var ráðinn skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri árið 1972 og gegndi því starfi til ársins 1984, og tók þá að sinna fagi sínu á ný, bæði nautgriparæktinni en einnig loðdýraræktinni. Árið 1992 tók hann aftur við skólastjórn og varð síðan rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri frá árinu 2000. Því starfi gengdi hann til ársloka 2004. Eftir það kastaði hann sér á fullu í málefni nautgriparæktarinnar sem Landsráðunautur Bændasamtaka Íslands og því starfi gegndi hann fram á síðasta ár er hann lét af störfum. Einbeitni og áhugi, yfirburðaþekking á greininni, einstök gripa- og manngleggni, löngun til að vita meira og spyrja óhikað, mikil starfsorka og næmur skilningur hafa einkennt hans starfsferil. Magnús varð sjötugur á síðasta ári en hefur ekki dregið sig frá greininni og enn er mikils vænt af honum.

 

Magnús þakkaði viðurkenninguna, sagðist taka við henni með mikilli gleði enda kýr verið hans „ær og kýr“ alla ævi en sagði við það tækifæri viðurkenninguna ekki vera hans eins heldur nefndi frábæra lærifeður, öfluga samverkamenn í stéttinni og síðast en ekki síst frábært og atorkusamt kynbótastarf bændanna sjálfra.

 

4.            Ávörp gesta

Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands þakkaði fyrir að vera boðinn á fundinn. Sindri fjallaði um að Búnaðarþing hefði falið Bændasamtökunum fjölmörg verkefni á næstu misserum. Nefndi hann þar fyrst mikilvæg verkefni sem tengjast innviðum samfélaga á landsbyggðinni s.s. samgöngumálum, orkumálum og samskiptamálum sem tryggja að búseta í dreifbýli sé raunhæfur valkostur. Næst nefndi hann átak tengt starfsumhverfi bænda, heilsuvernd og  öryggismálum og verkefni í undirbúningi sem nefnist Íslenski landbúnaðarklasinn og fjallar um ímyndar- og kynningarmál.  Sindri nefndi einnig veigamikla vinnu við endurskoðun félagskerfis bænda en Guðný Helga Björnsdóttir, Einar Ófeigur Björnsson og Elías Blöndal Guðjónsson munu leiða þá vinnu og er ætlað að skila tillögum á Búnaðarþingi 2014. Markmið vinnunnar sagði Sindri vera að einfalda kerfið, tryggja þáttöku bænda og þétta raðirnar milli búgreinasambanda og BÍ.

Af öðrum verkefnum nefndi hann áhættumat vegna innflutnings hrás kjöts og í framhaldinu svar við fyrirspurn EFTA þar sem áframhaldandi bann á innflutningi hrás kjöts til Íslands verður rökstutt. Einnig gat hann um áframhaldandi baráttu Samtaka verslunarinnar fyrir afnámi tollverndar og þar verði mikil vinna af hálfu Bændasamtakanna. Að lokum þakkaði hann LK fyrir gott samstarf og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi ekki síst í tengslum við kynningarverkefnið „Bændur segja allt gott“.

 

Egill Sigurðsson stjórnarformaður Auðhumlu og MS flutti kveðju stjórnar og starfsmanna Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar, nefndi að snertifletirnir milli LK og fyrrgreindra séu margir og þakkar gott samstarf. Næst nefndi hann að ánægjulegt væri að tókst að framlengja búvörusamninga á liðnu ári og fagnaði því að markvisst sé stefnt að aukinni vinnu hjá BÍ og LK varðandi tollverndina enda rýrni hún ár frá ári sem geti haft gríðarmikil neikvæð áhrif á skilaverð til bænda. Breytingar á fyrirkomulagi tollverndar og hlutfallsleg aukin tollvernd telur hann mikilvægasta málefnið sem barist fyrir á þessum tíma. Því næst ræddi hann að sú jákvæða ímynd sem íslenskur landbúnaður hefur sé mikilvæg, hennar fjöregg. Nefndi að sátt væri um mjólkurframleiðsluna og  gæði hennar og þær aðstæður sem íslenskar afurðir verða til í bæði hérlendis og erlendis. Hann brýndi fundarmenn á því að væri undir kúabændum sjálfum komið að koma í veg fyrir að það kastist rýrð á þessa ímynd. Að lokum þakkaði hann fyrir góð samskipti við stjórn LK og sérstaklega formann hennar og sagði Magnús B. Jónsson vel að viðurkenningunni kominn og þakkaði honum einnig góð samskipti persónulega og við greinina.

 

Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir fagstjóri búfjárræktar hjá Ráðfjafarmiðstöð landbúnaðarinsþakkaði fyrir að fá að koma á fundinn og kvað það sanna ánægju. Hún fjallaði um þær miklu breytingar sem hafa orðið frá 1. janúar 2013 þegar Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins var stofnuð að frumkvæði bænda með það að markmiði að skapa öllum bændum jafnan aðgang að öflugri og faglegri ráðgjöf óháð búsetu eða búgrein. Hún sagði ráðgjafa RML muni leggja sig fram um að veita kúabændum heilsteypta þjónustu í takt við þarfir og framtíðarsýn greinarinnar og þeirra sem hana stunda.

 

Bjarni R. Brynjólfsson skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði þakkaði boðið og skilaði sérstaklega kveðjum framkvæmdastjóra, Guðna Ágústssonar en einnig þakkaði hann gott samstarf fyrir hönd mjólkureftirlitsmanna og annarra starfsmanna SAM. Hann tók til umræðu verkefni Snorra Sigurðssonar og LK um leiðbeiningar um góða búskaparhætti og skoraði á fundinn að skoða vel mjólkurgæðamálin í því samhengi, taldi mikilvægt að gæðakerfi og skráningar séu góðar. Næst ræddi hann framlengingu búvörusamninga og taldi þann tíma sem bættist við samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu þurfi að nýta vel til greiningar á reynslu af samningnum þannig að hægt sé að móta næstu skref í ljósi hennar. Víða í nágrannalöndunum kvað hann kvótakerfi vera að leggjast af í mjólkurframleiðslu en aðlögun sé hafin að öðrum styrkjakerfum en Norðmenn, Kanadabúar og Ísraelsmenn haldi aftur á móti áfram með kvótakerfi svo fordæmin séu til staðar og því mögulegt að skoða reynslu þessarra þjóða í samhengi við okkar. Óskaði fundinum góðs starfs. 

 

5.             Erindi

 

Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal kúabænda

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK

Baldur fór í gegnum niðurstöður viðhorfskönnunar sem LK lét gera 2013. Könnunin var gerð á neti og í síma og náði til allra greiðslumarkshafa. Svarhlutfall var 61%. Fyrst kynnti hann niðurstöður nokkrurra flokkunarspurninga en ekki reyndist mikill munur í þátttöku milli landssvæða en hún jókst eftir því sem búin urðu stærri. 

 

Næst kynnti hann niðurstöður framleiðslu- og fjárhagstengdra spurninga. Niðurstöður þeirra sýndu að 62% stefna að aukinni framleiðslu og aukningin sem þeir sjá fyrir sér er samtals að magni samtals um 25-30 milljón lítrar. Mjög margir stefna að fjárfestingum við uppbyggingu á uppeldisaðstöðu fyrir geldneyti en færri að öðrum fjárfestingum. Um 70% vilja miða framleiðsluna við innanlandsmarkað fyrst og fremst en nýta einungis eftir föngum erlenda markaði. Mikil áhersla er á að bæta nýtingu fastafjármuna og vinnuafls og efla ráðgjöf um bætta nýtingu aðfanga til að styrkja stöðu íslenskrar mjólkurframleiðslu. Margir vilja leggja áherslu á að minnka kostnað við kvótakerfið. Einnig vilja 60% takmarka bústærð í mjólkurframleiðslu. Samandregin niðurstaða af spurningum sem eiga við kvótakerfið og verðlagningu mjólkur benda þó til þess að bændur séu að jafnaði nokkuð ánægðir með kvótakerfið og fyrirkomulag á greiðslum eins og það er.

 

Því næst fór hann yfir niðurstöður spurninga tengdra kynbótum og sæðingastarfi. Rétt tæp 60% vilja nýta allar færar leiðir við framræktun íslenska stofnsins án innblöndunar en stuðningur við innblöndun eykst eftir því sem búin stækka. Um 57% vilja halda sama fyrirkomulagi varðandi rekstur á nautasæðingum og nú er en afstaða er nokkuð mismunandi milli landshluta. Sterk afstaða (72%) bænda er gagnvart því að nautastöðin verði áfram rekin á vegum BÍ. Þeir sem reka stærstu búin vilja aftur á móti að kúabændur yfirtaki þennan rekstur. Spurningar um notkun heimanauta leiddu í ljós að 59% nota heimanaut á kvígur, mest á minnstu búunum. Ástæðan er fyrst og fremst þægindi. Einnig var spurt um kyngreint sæði, svörin eru mjög dreifð jafnt á svarmöguleikana en eru breytileg eftir bústærðum og mikið meiri áhersla hjá þeim bændum sem reka stærstu búin. Langflestir myndu nota þetta til þess að fá fleiri kvígur til mjólkurframleiðslu.

 

Að síðustu kynnti hann spurningar varðandi breytingar á inngreiðslum á Búnaðargjaldi, flestir vilja óbreyttar eða hækkaðar greiðslur til bjargráðasjóðs og leiðbeiningaþjónustu og óbreyttar til hagsmunagæslu. Reynist óheimilt að innheimta búnaðargjald eru bændur ekki tilbúnir að greiða nema innan við 30.000 kr. ári til hagsmunagæslu.

 

Fundi frestað vegna hádegishlés

 

Dýravelferð og eftirlit

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir MAST

Sigurborg hóf sitt mál á að þakka gott boð á fundinn og kynna sjálfa sig og sinn náms- og starfsferil. Því næst kynnti hún framtíðarsýn sína en hún er sú að íslensk dýr og íslensk framleiðsla hafi sama sess og svissnesk úr hvað gæði varðar. Það telur hún ekki eins manns verk að ná fram og byggir fyrst og fremst á góðu upplýsingaflæði allt frá dýraeigendum og almenningi og upp stigann í gegnum dýralækna og Keldur, frjótækna, ráðunauta, þjónustuaðila bænda, mjólkurbílstjóra, náttúrufræðistofur til héraðsdýralækna þaðan áfram til sérgreinadýralækna og til yfirdýralæknis. Hlutverk héraðsdýralækna sagði hún vera að hafa yfirsýn allra dýra innan hvers héraðs, stjórna eftirliti, fylgja því eftur og þvinga, en aðra þarf til að framkvæma eftirlit (búfjáreftirlitsmenn, eftirlitsdýralæknar). Ennfremur sagði hún héraðsdýralækna vera tengla MAST við þjónustuaðila og dýraeigendur.

 

Næst ræddi hún að lögin og reglugerðirnar sem er verið að setja núna séu lágmarkskröfur en leiðbeiningar útgefnar af búgreinunum sjálfum verði ráðgefandi um það hvernig við viljum hafa hlutina, sbr. verkefni LK varðandi leiðbeiningar um góða búskaparhætti sem hún vildi frekar nefna fyrirmyndarbúskap. Í því samhengi kynnti hún frammistöðuflokkun fyrirtækja og búa sem verður þannig að þau verða flokkuð í þrjá flokka, þau sem þurfa mikið eftirlit, lítið eftirlit og meðaleftirlit en að lágmarki verður farið inn á hvert bú annað hvert ár.

 

Næst kynnti hún vaktsvæði dýralæknaþjónustu og starfssvæði héraðsdýralækna. Starfssvæðin sagði hún bundin í lög og því erfitt fyrir MAST að breyta því þrátt fyrir að kvartanir hafi borist vegna þessa og þrátt fyrir að þá skoðun hennar sjálfrar að svæðin séu of stór.

Hún kynnti því næst fyrir áheyrendum ábendingasíðu á heimasíðu Matvælastofnunar þar sem má senda inn ábendingar bæði með nafni og án nafns hvort heldur sem um starfshætti MAST eða um búskaparhætti sem ekki eru í lagi.

 

Því næst fjallaði hún um smithættu með hráu kjöti og ræddi nauðsyn þess að gera nákvæmt áhættumat vegna þessarrar hættu en það kvað hún vera í undirbúningi.

 

Í lok kynningarinnar sýndi hún mynd af kú sem var mjög holdlítil og óskaði eftir samstöðu greinarinnar um að slíkt líðist ekki.

 

Að lokinni framsögu Sigurborgar bar Samúel U. Eyjólfsson fram fyrirspurn til hennar varðandi síðustu myndina og bað Sigurborgu að ræða þá staðreynd að í fjósi getur einn veikur gripur litið út eins og sá sem hún sýndi mynd af án þess að það væri óeðlilegt eða endurspeglaði umhirðu á búinu og til þess þurfi að taka tillit. Sagði almennan vilja bænda að ekki finnist full fjós af lélegum gripum.

 

Sigurborgtók undir það og sagði ávallt tekið tillit til ástandsins í fjósinu í heild. 

 

Leiðbeiningar um góða búskaparhætti

Snorri Sigurðsson, ráðunautur mjólkurgæðamála Videncenter for Landbrug

Snorri sagði frá vinnu við leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Hann starfar í Danmörku við leiðbeiningar varðandi húsvist og mjólkurgæði, starfssvæðið er Miðausturhluti Jótlands og það eru 450 kúabú á hans svæði. Í kynningu Snorra kom fram að verkefnið góðir búskaparhættir snýst um góða ímynd. Verkefnið er að búa til leiðbeiningar sem varða leiðina varðandi kröfur til aðstöðu, aðbúnaðar, umhverfis, dýravelferðar og vinnulags við framleiðslu á mjólk. Kynntar voru hugmyndir að verkefninu á Aðalfundi LK 2012 og þá var miðað við að ná til smit- og slysavarna, umhirðu, mjólkureftirlits, útivistar gripa og frágangs og umhverfis í og við mjólkurhús en var kúrsinum breytt þannig að tekið verði tillit til allra þátta búskaparins. Leiðbeiningar um góða búskaparhætti verða skriflegar lýsingar á kröfum búgreinar og afuðastöðva til framleiðsluhátta og geta orðið grunnur að úttektarkerfi t.d. á vegum afurðastöðvar eða samtaka afurðastöðva.

 

Snorri sagði frá gæðastjórnunarkerfi Arla en Arla er leiðandi á þessu sviði í Norður-Evrópu með sambærilegt gæðastjórnunarkerfi í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi og í undirbúningi í Bretlandi. Gæðastjórnunarkerfið er samvinnuverkefni margra afurðastöðva og bænda og byggir á því að skapa öruggt framleiðsluumhverfi mjólkur í gegnum fjóra meginþætti, innihald mjólkur, matvælaöryggi, dýravelferð og umhverfismál. Lykilatriði er að kerfið lýsi skýrt hvaða kröfur eru gerðar og hvaða afleiðingar brot á reglum hefur. Kerfið tryggir rekjanleika allra aðfanga ef koma upp gæðavandamál og gerðar eru kröfur um fóður og vatnsöryggi, aðbúnað og ástand skepna, virkni tæknibúnaðar og góð vinnubrögð. Eftirlit með að kröfur séu uppfylltar er unnið af ráðunautum sem eru sérmenntaðir í húsvist og mjólkurgæðum. Eftirlitið er um leið opinber fjósaskoðun og hafa  afurðastöðvarnar umboð sambærilegra stofnana Matvælastofnunar til að sinna eftirlitinu. Næst sýndi  Snorri dæmi um úttektareyðublöð og fór yfir viðbrögð afurðastöðvarinnar við því að bóndi uppfylli ekki kröfur gæðastjórnunarkerfisins innan tilskilins frests. Þá fær hann boð um lokun búsins, afurðastöðin hættir að sækja mjólk á búið og viðskiptasamningi er sagt upp. Arla er með meira en 90% af innvigtun og hefur kaupskyldu en það má setja viðskiptakröfur sem ganga lengra en landslög eða reglugerðir og getur því fyrirtækið neitað að taka við mjólkinni. Bændur geta snúið sér annað, þótt erfitt sé en það er þá til erlendra aðila.

 

Sigurborg Daðadóttir spurði hvort fyrirtækið geti neitað að taka við mjólkinni.Snorri svaraði játandi, Arla hefur farið þessa leið og hafa dómstólar dæmt það réttmætt.

 

Valgerður Kristjánsdóttir spurði hvaða orsakir eru algengastar þegar búum er lokað, hvort búin eiga  eitthvað sameiginlegt eða hvort það séu fjölbreyttar ástæður fyrir lokunum búa. Snorri svaraði því þannig að það sé langoftast vanhirða á skepnum sem veldur lokun bús, að aðbúnaði sé ábótavant, skítugir gripir og klepraðir eða óklipptar klaufir. 

 

6.            Niðurstöður kjörbréfanefndar

Formaður kjörbréfanefndar, Valdimar Guðjónsson,  kynnti eftirtalda fulltrúa til setu á aðalfundinum:

 

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Jóhanna Hreinsdóttir                   Káraneskoti

Björgvin Helgason                         Eystra-Súlunesi

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi

Jón Gíslason                                     Lundi

Laufey Bjarnadóttir                       Stakkhamri

Pétur Diðriksson                            Helgavatni

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð

Hallur Pálsson                                 Nausti

Hörður Grímsson                           Tindum

Félag kúabænda í Ísafjarðasýslum

Sigmundur H. Sigmundsson     Látrum

Nautgriparæktarfélag V-Húnavatnssýslu

Valgerður Kristjánsdóttir           Mýrum

Pétur Sigurvaldason                     Neðri-Torfustöðum

Félag kúabænda í A-Húnavatnssýslu

Jóhannes Torfason                        Torfalæk

Linda B Ævarsdóttir                      Steinnýjarstöðum         

Félag kúabænda í Skagafirði

Valdimar Sigmarsson                   Sólheimum

Guðrún Lárusdóttir                       Keldudal

Sævar Einarsson                             Hamri

Bessi Freyr Vésteinsson             Hofsstaðaseli

Félag eyfirskra kúabænda

Aðalsteinn Hallgrímsson            Garði

Elín Stefánsdóttir                          Fellshlíð

Helga Hallgrímsdóttir                  Hvammi

Jóhannes Jónsson                         Espihóli

Tryggvi Jóhannsson                      Hvassafelli

Félag þingeyskra kúabænda

Marteinn Sigurðsson (varam.)Kvíabóli

Steinþór Heiðarsson                    Ytri-Tungu

Vantaði einn fulltrúa

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar

Margrét Sigtryggsdóttir              Háteigi

Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum

Halldór Sigurðsson                       Hjartarstöðum

Björgvin Gunnarsson                   Núpi

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Bjarni Ingvar Bergsson                                Viðborðsseli    

Félag kúabænda á Suðurlandi

Elín B Sveinsdóttir                        Egilsstaðakoti

Valdimar Guðjónsson                  Gaulverjabæ

Bóel Anna Þórisdóttir                  Móeiðarhvoli

Ásmundur Lárusson                     Norðurgarði

Pétur Guðmundsson                    Hvammi

Ólafur Helgason                             Hraunkoti

Jórunn Svavarsdóttir                    Drumboddsstöðum

Sævar Einarsson                             Stíflu

Guðbjörg Jónsdóttir                     Læk

Samúel U Eyjólfsson                    Bryðjuholti

Borghildur Kristinsdóttir (varam.) Skarði

Ásbjörn Sæmundsson (varam.)               Bjólu

 

7.             Almennar umræður

Valgerður Kristjánsdóttir á Mýrum

Gerði MAST að umræðuefni og ræddi annars vegar lög og reglugerðir um vaktsvæði dýralækna. Spurði hver hefði komið að þessum lögum og reglugerðum og velti því upp hvort ekki eigi að endurskoða þessa svæðaskiptingu í ljósi kvartana að henni lútandi. Hins vegar harmaði hún mjög myndbirtingar í fjölmiðlum frá búum sem hafa misst mjólkursöluleyfi, segir nauðsynlegt að taka á þessum þessum málum en telur það betra á annan hátt. Kveðst ekki skilja niðurstöður könnunar þar sem menn vilja setja stærðartakmarkanir á bú.

 

Sigmundur H. Sigmundsson á Látrum

Tók fyrst til umræðu breytingar síðustu missera á sölumagni á verðefnum í mjólkinni og nefndi að í Evrópu er verið að byrja að taka upp flokkun þar sem er tekið til mjólkursykursmagns í mjólkinni líka. Spurði hvort þetta kalli ekki á breytingar í verðlagsmálunum hér heima. Næst tók hann fyrir misvísandi niðurstöður viðhorfskönnunarinnar og nefndi t.d. að margir vilji stækka við sig en ekki vinna markvisst að útflutningi, bara taka af nágrannanum. Hann telur mjög algengt að jafnvel nýleg fjós hafi ekki nægilega geldneytaaðstöðu og finnst ekki skrítið að bændur horfi helst til þess í framkvæmdum. Varðandi notkun á heimanautum finnst honum skrítið að bændur beri við sig þægindum því honum finnst nautið óþægilegra en sæðingamaðurinn. Næst tók hann til umræðu kostnað við hagmunagæslu og hvað bændur eru tilbúnir að greiða af þeim kostnaði, hann hefur grun um að bændum finnist LK ekki standa undir því sem þeir fá nú þegar til sín. Næst beindi hann fyrirspurn til Baldurs Helga um ásetningsfjölda nautkálfa og hvernig það stendur undir eftirspurn eftir nautakjöti. Sigmundur tók undir orð Valgerðar varðandi myndbirtingar í fjölmiðlum í málum þar sem aðbúnaði er ábótavant, minnir á að myndirnar lifa lengi.

 

Laufey Bjarnadóttir á Stakkhamri

Þakkaði fyrir erindin og sérstaklega erindi Snorra varðandi fyrirmyndarbúskapinn. Laufey gagnrýndi viðhorfskönnunina og kvað bæði spurningar og svarmöguleika illa unna. Las upp úr könnuninni og svörum bænda til stuðnings. Fannst vera vikið undan því að spyrja beint að því hvort jafna eigi sæðingakostnað yfir allt landið og fannst spurningum um kyngreint nautasæði ofaukið sérstaklega í ljósi þess að plássið hefði mátt nýta fyrir gagnlegri spurningar. Taldi að spurningakönnunin litaðist af áhugamálum stjórnar- og starfsmanna.

 

Halldór Sigurðsson á Hjartarstöðum

Þakkaði fyrir framsöguerindi og góða skýrslu stjórnar. Ræddi lélega þátttöku í kosningu um búvörusamning. Ræddi viðhorfskönnunina, fannst hún flókin og niðurstöðurnar ruglingslegar. Nefndi að efla þurfi stéttarvitund og félagsvitund kúabænda. Að hans mati vilja bændur greiða sem minnst til stéttarfélags okkar en telur jafnframt að greiðsluvilji sé árangurstengdur. Honum finnst framtíðarsýn Sigurborgar spennandi og væri sómi að því að tækist að innleiða þetta í okkar landi. Gæðakerfi Snorra þarf að virka, þarf að skila sér. Tók undir með Sigmundi og Valgerði varðandi myndbirtingar við athugasemdir á búum.

 

Sigurborg Daðadóttir svaraði fyrirspurnum sem beint hafði verið til hennar og um vaktsvæði segir hún stærð þeirra sömuleiðis áhyggjuefni fyrir sig sem yfirdýralækni en sagðist ekki geta haft áhrif á þetta nema með dyggum stuðningi bænda og annarra dýraeigenda. Jafnframt kom fram hjá henni að MAST er heimilt að birta eftirlitsniðurstöður strax en því var breytt eftir að MAST var gagnrýnd fyrir að birta seint niðurstöður úr eftirliti með áburði. Varðandi gagnrýni á myndbirtingar voru myndir afhentar að beiðni fjölmiðla og MAST var óheimilt að neita afhendingunni, hún sagðist sjálf fylgjandi myndbirtingunni vegna þess að hún aðhyllist opna stjórnsýslu. Hvatti fyrirmyndarbændur til að bjóða fjölmiðlum inn á sín bú til að sýna hvernig hlutirnir eru hjá langflestum.

 

Valdimar Guðjónsson í Gaulverjabæ

Ræddi kjör kúabænda og áhrif veðurfars á afkomu og kostnað búa. Kjarnfóðurkostnaður hefur aukist mjög mikið og tekur orðið verulega í. Næst ræddi hann niðurstöður viðhorfskönnunar sem bendir til að meirihluti kúabænda sé á móti innblöndun í kúastofninn og hvetur til þess að menn slái í klárinn og beiti sér í kynbótum á íslenska kúastofninum. Tæpti á sæðingamálum og skýrri afstöðu Sunnlendinga varðandi óbreytt fyrirkomulag á sæðingastarfsemi í landinu. Í lokin ræddi hann tollvernd og hvatti til þess að taka umræðuna öflugt um hana og hafa í huga að afnám kvótakerfis í Evrópu mun eflaust valda umbrotum á mjólkurmörkuðum Evrópu og ef til vill hafa áhrif á útflutningsmöguleika frá Íslandi. Hvatti til þess að halda útflutningi vakandi og reyna að auka hann þó ekki með stórsókn.

 

 Kaffihlé

 

Samúel U Eyjólfsson í Bryðjuholti

Hrósaði stjórninni fyrir að ganga frá búvörusamningi en saknaði samráðs við bændur fram að undirskrift hans. Ræddi málefni sæðinganna og hvatti til þess að ekki yrði farið í breytingar á fyrirkomulagi þeirra að svo komnu máli.

 

Valgerður Kristjánsdóttir á Mýrum

Ræddi á ný myndbirtingar MAST og segist ósammála yfirdýralækni, hún hvatti stjórnina til að reyna að fá fréttamenn inn á fyrirmyndarbú. Taldi nauðsynlegt að hækka mjólkurverð á móti aðfangahækkunum. Velti upp spurningunni hvað gerum við 2016 þegar búvörusamningurinn rennur út og hvatti til þess að byrja vinnu strax við að svara þeirri spurningu.

 

Jóhannes Torfason á Torfalæk

Ræddi fyrst þær miklu breytingar sem hafa orðið á 30 árum. Sagði aukna framleiðslugetu vera til staðar hvort sem flutt er inn nýtt kúakyn eða ekki og vel möguleg óska aukningin sem kom fram í könnuninni. Sagði greinina vera í klemmu í útflutningi vegna fyrirkomulagsins á stuðningi við hana og tollvernd, telur ekki mögulegt að auka útflutning án þess að setja stuðning og tollvernd í uppnám. Vitnaði í erindi sem hann flutti 2001 og sagðist enn telja eins og þá að það hefði verið betri leið að halda útflutningsbótum heldur en að nýta framleiðslustjórnun því þá hefði landbúnaðurinn verið betur rekinn. Hrósaði stjórninni fyrir þolinmæði að bíða 2 ár eftir skýrslu um nautakjötsframleiðslu og vonaðist eftir hraðari vinnu hjá nýjum vinnuhóp. Gagnrýndi viðhorfskönnun, taldi hana flókna og spurningar illa orðaðar. Taldi hana samt ágæta stöðutöku. Sagði ekki rétt að útflutningi sé illa sinnt hjá MS en 1-2 starfmenn vinna að útflutningsmálum alltaf en sagði málaflokkinn mjög erfiðan.

 

Pétur Diðriksson á Helgavatni

Ræddi fyrst verðlagsmálin og markaðsmálin. Sagðist telja mikilvægt að vinna að breytingum á tollvernd, sagði mjólkurframleiðslu í öllum heiminum vera tollverndaða en nú svo komið að tollverndin er ekki nægileg til að vernda íslenska framleiðslu en það verður að halda í hana. Telur ekki hægt að hækka verð til bænda nema eiga á hættu að fá innflutning á móti. Telur hættulegt að missa markaðshlutdeild því erfitt eða ómögulegt sé að ná henni til baka. Varðandi nautakjötsframleiðsla telur Pétur nauðsynlegt að meta hvort sé meiri áhætta að flytja inn sæði eða hrátt kjöt þar sem það sé óhjákvæmilegt að innflutningur á fersku hráu kjöti verði að raunveruleika ef framboð og eftirspurn mætast ekki á nautakjötsmarkaði. Að lokum ræddi hann að skv. viðhorfskönnuninni vill stórt hlutfall kúabænda auka framleiðslu í lokuðu kerfi og þá staðreynd að það þýðir að aðrir þurfa að hætta.

 

Guðrún Sigurjónsdóttir á Glitstöðum

Ræddi að skv. stefnumótun greinarinnar skal stefnt að lækkun kostnaðar og velti fram spurningum um hvaða leiðir séu færar til að gera það, spurði m.a. hvort bændur geti lært hver af öðrum. Minnti á að rekstrarsamanburðarsíða í HUPPU var að verða tilbúin á Aðalfundi 2012 en hefur ekki enn verið opnuð til notkunar. Hún sagðist hvetja bændur til að sýna kynbótastarfinu áhuga og metnað og nefndi því til stuðnings að hátt hlutfall nautkálfa sem er hafnað, er hafnað vegna mikillar skyldleikaræktunar. Hvatti viðstadda til að hjálpast að við að vekja áhuga bænda á félagsstarfi.

 

Bessi Freyr Vésteinsson í Hofsstaðaseli

Fagnaði þeirri umræðu sem er í gangi varðandi nautakjötsframleiðslu og sagðist sjá mikil tækifæri í henni. Taldi bráðnauðsynlegt að uppfæra erfðaefni. Nefndi einnig að nauðsynlegt verkefni er að stórefla ráðgjöf varðandi greinina (fóðrun, aðbúnað, rekstur) og hafa milligöngu um skipulega miðlun gripa milli bænda og hvatti til frekari vinnu varðandi málefni nautakjötsframleiðenda.

 

Guðrún Lárusdóttir í Keldudal

Hvatti fundarmenn til að kynna sér vel niðurstöður skýrslu um sæðingamál. Nefndi að reksturinn á sæðingunum er það eina sem er eftir á mörgum minni búnaðarsamböndum og telur það dýrt fyrir greinina. Óskaði eftir því að Snorri mátaði íslensk kúabú inn í danska gæðastjórnunarkerfið.

 

Jón Gíslason á Lundi

Jón kvaðst hugsi yfir rýrnun tollverndarinnar sem er fyrirsjáanlegt að rýrnar áfram ár frá ári. Hann telur að kúabændur þurfi að berjast fyrir að fá þessu fyrirkomulagi breytt áður en það endar í því að það þarf að lækka verð til bænda til að mæta þessarri rýrnun. Nefndi að kúabændur hér þurfi að auki að keppa við erlendar kynbætur sem eru kannski í sumum löndum tvöfalt hraðari en hér. Ræddi verðlag á mjólk. Að lokum sagðist hann ósammála því sem áður var komið fram um myndbirtingar þar sem eru aðbúnaðarvandamál, telur það hvetjandi til að stíga skref til að taka til í okkar ranni.

 

Steinþór Heiðarsson í Ytri-Tungu

Fór nokkrum orðum um viðhorfskönnunina og fannst hún gott framtak og hældi stjórninni fyrir að framkvæma hana. Taldi hana gott veganesti og vísbendingu um hug kúabænda. Sagði að ýmislegt mætti finna að uppsetningu spurninganna en eðlilegt að niðurstöður séu að einhverju leyti í mótsögn. Hann áréttaði að hann teldi nauðsynlegt að bæta árangur kynbótastarfs, því það eigi ekki að líða það til lengdar að í kynbótastarfinu sé keyrt á 70% afköstum og telur að ætti að umbuna fólki fyrir að nota ekki heimanaut.

 

Snorri Sigurðson svaraði framkomnum spurningum

Hann sagðist telja að farsælasta leiðin sé að bera uppi gæðakerfið af búgreinafélaginu og SAM og þau gætu svo framselt það afurðastöðinni. Telur þetta skýra og vel færa leið. Nefndi að í upphafi var langur aðlögunarfrestur (3 ár) í Danmörku og að í dag eru búin tekin út á 3ja ára fresti en það sé vöktun á sláturgripum og mjólk og það kemur þá aukaúttekt ef einhverju er ábótavant þar. Hann nefndi myndbirtingu, sagðist aldrei hafa séð slíkt í Danmörku þó sé verið að loka búum þar en úttektargögn þar eru meðhöndluð sem trúnaðargögn mili úttektaraðila og bónda. Telur nauðsynlegt að gera framleiðslukröfur. Muninn á kúabúum hér og í Danmörku er að kerfið er búið að vera lengi í gangi í þar og því er búið að hreinsa upp mikið af vandamálum.

 

Baldur Helgi Benjamínsson svaraði framkomnum spurningum

Hann sagði nautaásetningur hafa verið 4% minni 2012 en 2011 og þá 2% minni en árið á undan, á sama tíma og eftirspurnin hefur aukist um rúmlega 10%. Þessu bili verður því miður ekki mætt nema með innflutningi. Telur mikil tækifæri í nautakjötsframleiðslu og betra að skilja eftir peninginn hér heima.

 

Sigurður Loftsson svaraði framkomnum spurningum  

Þakkaði góðar umræður. Varðandi breytingar á sölumagni verðefna hefur það verið rætt hjá SAM að gera breytingar á greiðslum en verður ekki tekið fyrir í verðlagsnefnd nema það komi frá greininni. Hann sagði hækkunarþörfina á mjólk til bænda skv. verðlagsgrundvelli frá 1.júní til 1.des 1,43%. Þróun verðlagsgrundvallarbúsins og hækkana á mjólkurverði sagði hann vera þá að hækkanaþörf er ekki mætt en það hefur sæmilega tekist að verja kostnaðarliðina aðra en launin. Hann telur að því hafi verið náð sem var möguleiki að ná en áréttar það sem áður hafði komið fram að tollverndin sé farin að hafa mikil áhrif á möguleika verðlagsnefndarinnar. Sagði ákvarðanir um verðbreytingar ekki verða fyrr en með vorinu og enn of snemmt að spá fyrir um það hvernig þær verða. Ræddi gagnrýni á viðhorfskönnun. Sagði spurningar í samræmi við það sem hefur verið rætt á vettvangi LK og kvaðst telja það skipta miklu máli að taka þessa stöðu en svo má meta hvernig hún verði notuð til framtíðar. Sagðist ánægður með könnunina. Ræddi búvörusamninga og sagði ástæðuna fyrir því að ekki var farið með þetta út í félögin vera annars vegar að bjartsýnin var ekki mikil og málin voru unnin mikið í samhengi við önnur á trúnaðarstigi og unnin hratt. Markmiði var að niðurstaðan yrði hagfelld. Stjórnarmenn ýttu á eftir skýrslu um nautakjötsframleiðsluna og sagði hann ekki þýða að fárast yfir því hvað þetta tók langan tíma en fullvissaði um leið fundarmenn um að nýr starfshópur muni vinna hratt og vel. Sigurður sagði rekstrarsamanburðarsíðu eða lykiltölukerfi tilbúið en sagði eiga eftir að prufukeyra það og sagðist ekki kunna skýringar á því að það er ekki komið í notkun, nefndi að ef til vill vantaði þrýsting frá bændum. Að lokum talaði hann um hagsmunagæslu og nauðsyn þess að koma störfum stjórnarinnar betur á framfæri því að það virðist ekki vera metið að verðleikum.

 

8.            Starfsnefndir

Fundarstjóri kynnti formenn þriggja starfsnefnda en áður var búið að skipa í starfsnefndir.

Starfsnefnd 1, Guðrún Lárusdóttir formaður

Í nefndinni sátu auk hennar Jón Gíslason (ritari), Björgvin Helgason, Hallur Pálsson, Linda B. Ævarsdóttir, Tryggvi Jóhannsson, Björgvin Gunnarsson, Bjarni Ingvar Bergsson, Elín B. Sveinsdóttir, Pétur Guðmundsson, Sævar Einarsson Stíflu og Borghildur Kristinsdóttir. Með þeim störfuðu Trausti Þórisson, stjórnarmaður LK og Jóhann Gísli Jóhannsson, stjórnarmaður LK.

Starfsnefnd 2, Jóhanna Hreinsdóttir formaður

Í nefndinni sátu auk hennar Steinþór Heiðarsson (ritari), Laufey Bjarnadóttir, Hörður Grímsson, Pétur Sigurvaldason, Valdimar Sigmarsson, Helga Hallgrímsdóttir, Aðalsteinn Hallgrímsson, Marteinn Sigurðsson, Halldór Sigurðsson, Valdimar Guðjónsson, Bóel Anna Þórisdóttir, Ólafur Helgason og Guðbjörg Jónsdóttir. Með þeim starfaði Guðný Helga Björnsdóttir, stjórnarmaður LK.

Starfsnefnd 3, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson formaður

Í nefndinni sátu auk hans Jórunn Svavarsdóttir (ritari), Pétur Diðriksson, Sigmundur H. Sigmundsson, Valgerður Kristjánsdóttir, Jóhannes Torfason, Sævar Einarsson Hamri, Bessi Freyr Vésteinsson, Elín Stefánsdóttir, Jóhannes Jónsson, Margrét Sigtryggsdóttir og Ásmundur Lárusson. Með þeim störfuðu Jóhann Nikulásson, stjórnarmaður LK og Guðrún Sigurjónsdóttir, búnaðarþingsfulltrúi LK.

 

Að svo mæltu var fundi frestað kl. 15:40 og nefndarfundir hófust um kl. 16 föstudaginn 22. mars og stóðu með hléum þar til fundur hófst að nýju kl. 13 laugardaginn 23.mars með afgreiðslu tillagna.

 

9.            Afgreiðsla tillagna starfsnefnda

 

Tillögur frá starfsnefnd 1

Guðrún Lárusdóttir formaður nefndarinnar kynnti  tillögur starfsnefndar 1 ásamt fleiri nefndarmönnum.

 

1.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, hvetur umhverfisyfirvöld á Íslandi til að vera stöðugt á verði gagnvart mengandi starfsemi í grennd við landbúnaðarsvæði og tryggi jafnframt að vöktunaraðilar séu ekki fjárhagslega háðir þeirri starfsemi sem þeir eiga að vakta. Jafnframt leitist skipulagsyfirvöld á hverjum stað við að staðsetja nýja mengandi starfsemi sem fjærst helstu landbúnaðarsvæðum.

 

Samþykkt samhljóða.

 

2.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, undirstrikar nauðsyn þess að ímynd íslensks landbúnaðar sé góð og kúabændum til sóma. Góðir búskaparhættir og snyrtimennska eru mikilvæg til að tryggja velferð dýra og þar með byggja upp traust og velvilja í garð framleiðslunnar. Velferð búfjár á að vera hverjum bónda metnaðarmál auk þess að vera krafa neytenda. Þá geta umgengni og vinnubrögð haft bein áhrif á gæði og hreinleika afurðanna. Því fagnar aðalfundurinn þeirri vinnu sem unnin hefur verið við undirbúning útkomu handbókar með „leiðbeiningum um góða framleiðsluhætti“. Fundurinn hvetur til samstarfs LK,  afurðastöðva og Matvælastofnunar sem byggi á leiðbeiningunum og miði að því að skapa skilvirkt kerfi með fáum eftirlitsaðilum.

 

Samþykkt samhljóða.

 

3.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, tekur undir ályktanir Búnaðarþings 2013 varðandi öryggi og heilsuvernd við landbúnaðarstörf. Fundurinn hvetur til samstarfs LK., BÍ og Landbúnaðarháskólans um að efna til átaks í öryggismálum í landbúnaði í samstarfi við Vinnueftirlitið og tryggingarfélög.

 

Samþykkt samhljóða.

 

Einnig hafði nefndin til umfjöllunar ársreikning Landssambandsins, tillögu um þóknun stjórnarmanna og fjárhagsáætlun en var afgreiðslu þeirra liða frestað þar til lokið var umfjöllun um  mál annarra starfsnefnda.

 

Tillögur frá starfsnefnd 2

Jóhanna Hreinsdóttir formaður nefndarinnar kynnti tillögur starfsnefndar 2.

 

4.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, telur brýnt að nú þegar verði hafist handa við að leysa úr vanda þeirra svæða þar sem rekstur sæðingastarfseminnar er erfiðastur með aukinni samvinnu og sameiningu rekstrareininga. Jafnframt verði komið á fót samræmdri, notkunarhvetjandi gjaldskrá fyrir landið allt. 

 

Umræður urðu nokkrar um tillöguna.

Samúel U Eyjólfsson óskaði eftir upplýsingum um hver ræður, hver stjórnar þessu fyrirkomulagi.

 

Guðrún Sigurjónsdóttir spurði nefndina hvort hún hafi skoðað aðra möguleika til að hvetja bændur til þátttöku og þá hverjar.

 

Jón Gíslason óskaði eftir upplýsingum um hvað það þýðir að komið verði á samræmdri gjaldskrá og hvað þýðir notkunarhvetjandi gjaldskrá? Gjaldskrá á Vesturlandi eins í Borgarfirði og á Vestfjörðum en mikill munur á notkun þar á milli.

 

Sigmundur H. Sigmundsson sagði vegalengdina mikla til hans og kannski til hagsbóta fyrir rekstur sæðingstöðvarinnar að hann notaði þær ekki, hann hefur samt notað sæðingar eins mikið og hann hefur getað. Hvatti til þess að gefa kost á að bændur sæði sjálfir sínar kýr.

 

Guðbjörg Jónsdóttir sagði augljóst hver ræður, það eru rekstraraðilar stöðvanna, fundurinn getur aðeins sent tilmæli til eigenda fyrirtækjanna sem reka sæðingarnar. Varðandi notkunarhvatningu benti hún á næstu tillögu nefndarinnar og taldi fast gjald á hverja kú og kvígu skv. forðagæsluskýrslum vera líklegustu leiðina að notkunarhvetjandi gjaldskrá.

 

Jóhanna Hreinsdóttir sagði það hafa komið fram í nefndarstörfum að það verði erfitt fyrir mörg minni búnaðarsambandanna að reka sæðingarar eftir breytingar. Benti á að nú þegar sé eitt bú á Vesturlandi þar sem bóndi sæðir sjálfur og það gangi vel.

 

Baldur Helgi Benjamínsson benti á breytingar sem voru gerðar 2011 á útdeilingu fjármuna búnaðarlagasamnings þegar teknir voru frá fjármunir til að ráða og þjálfa sæðingamenn. Þar sagði hann vera til staðar fjármuni sem eru til reiðu til þjálfunar bænda á þessu sviði.

 

Halldór Sigurðsson sagði átök í nefndinni fyrst, áður en nefndarmenn kynntu sér hvernig aðstæður eru hjá öðrum. Hann sagði búnaðarsamböndin og rekstaraðila sæðinganna stjórna breytingum sem eru framundan en ljóst að á sumum svæðum þörf á hjálp til að reka starfssemina. Hann taldi frjálsa samninga einu leiðina til að komast áfram í þessum málum og hvatti til að fundarmenn samþykktu tillöguna.

 

Samþykkt samhljóða.

 

5.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, skorar á fagráð í nautgriparækt að nýta allar leiðir til að auka framfarir í stofninum og efla  kynbótastarfið með áherslu á eftirtalin atriði:

a) efla ráðgjöf um frjósemi

b) hraða gerð pörunarforrits í Huppu

c) athuga hvort taka beri fituprósentuna inn í kynbótamatið þar sem sala mjólkurvara á fitugrunni fer vaxandi

d) koma upplýsingum um hvaða ungnaut eru í notkun á einstökum svæðum hverju sinni inn á vefsíður á borð við naut.is og www.nautaskra.net

e) gera ætternisupplýsingar fyrir aðkeypta gripi aðgengilegar í Huppu

f) kanna kosti þess að nota gæðastýringargreiðslur til að auka þátttöku kúabænda í kynbótastarfinu

g) tryggja að öll sæðinganaut komist í notkun á öllum svæðum landsins

 

Guðrún Lárusdóttir hrósaði tillögunni en er ekki sammála því að fituhlutfall sé tekið inn og lagði til breytingartillögu um að liður c falli út.

Breytingartillagan var felld með 12 atkvæðum á móti 9.

 

Samþykkt með öllum atkvæðum utan eins.

 

6.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, beinir því til stjórnar LK að komið verði á fót hugmyndabanka um lokaverkefni frá LbhÍ sem styrkhæf eru frá fagráði í nautgriparækt. Þannig gætu þeir sem það vilja sent inn tillögur að verkefnum, sem líkleg væru til að nýtast greininni með beinum hætti en Fagráð síðan valið úr þeim tillögum og sett inn í hugmyndabankann.

 

Samþykkt samhljóða.

 

7.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, lýsir enn á ný yfir miklum áhyggjum af ótryggri dýralæknaþjónustu á vissum landsvæðum. Fundurinn skorar á stjórnvöld að endurskoða vaktsvæði dýralækna þar sem fyrir liggur að sum þeirra eru alltof víðfeðm til að einn vaktlæknir geti sinnt þeim þannig að skilyrði um dýravelferð verði uppfyllt.

 

Samþykkt samljóða.

 

8.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, krefst þess að starfshópur sem ætlað er að fara yfir löggjöf og reglur um afhendingu dýralyfja verði skipaður hið fyrsta og að starfshópurinn vinni hratt og vel. Mjög brýnt er að kúabændur hafi möguleika á að gera þjónustusamninga við dýralækna, sem feli það í sér að forvörnum sé meira sinnt á kúabúunum og kúabændur fái að eiga ákveðin lyf til að hefja meðhöndlun á veikum gripum í samráði við sinn dýralækni.

 

Samþykkt samljóða.

 

Tillögur frá Starfsnefnd 3

Samúel Eyjólfsson kynnti tillögur nefndarinnar ásamt fleiri nefndarmönnum.

 

9.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, áréttar tillögu um nautakjötsframleiðslu frá síðasta aðalfundi. Fundurinn vekur athygli á brýnni nauðsyn þess að flytja inn nýtt erfðaefni til að bæta holdanautastofninn í landinu eigi á annað borð að stunda holdanautarækt hér á landi. Í því sambandi bendir fundurinn á að í nýútkominni skýrslu um holdanautarækt kemur fram að ef stunda eigi kjötframleiðslu í einhverjum mæli af holdagripum hér á landi þurfi að koma til innflutningur á erfðaefni úr holdakynjum. Fundurinn leggur til að þegar verði hafist handa við eftirfarandi:

•         Kanna hvernig standa ætti að innflutningi þannig að hann yrði ásættanlegur með tilliti til smitvarna en þó hóflega kostnaðarsamur.

•         Áætla ábata og kostnað við innflutning svo hægt sé að meta hvort hann er yfir höfuð skynsamlegur.

•         Gera áætlun um framtíðarskipulag ræktunar holdanautastofnsins, m.a. áætla hversu títt þurfi að flytja inn erfðaefni í framtíðinni.

·         Gert verði átak til að efla fagmennsku í greininni, s.s. með skýrsluhaldi og öflugri leiðbeiningaþjónustu til að ná betri arðsemi út úr greininni.

 

Samþykkt samhljóða.

 

10.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, felur LK að gera úttekt á hver áhrifin voru af því að taka af heimild til niðurfærslu á kaupum á greiðslumarki í mjólk.

Greinargerð:

Fyrir rúmum tveimur árum tóku stjórnvöld þá ákvörðun að afnema heimild til að afskrifa kostnað við kaup á greiðslumarki í mjólk án nokkurs samráðs við mjólkurframleiðendur og án undangenginnar umræðu um áhrif þessara aðgerða á mjólkurframleiðslu á Íslandi. Kaup á greiðslumarki er mjög stór kostnaðarliður í mjólkurframleiðslu og allar aðgerðir sem hafa áhrif á hvernig sá kostnaður leggst á mjólkurframleiðsluna getur haft mjög mikil áhrif hvernig greinin þróast og samkeppnistaða hennar á markaði verður.

 

Jón Gíslason gerir tillögu um að breyta „hvetur LK til að skoða hvort unnt sé að gera úttekt á“ í „felur LK að gera úttekt“. Nefndin samþykkir það og tillagan borin upp svo breytt.

 

Samþykkt samhljóða.

 

11.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, hvetur

stjórn Landssambands kúabænda að beita sér fyrir lækkun kostnaðar sem fylgir því að senda inn kauptilboð í greiðslumark mjólkur.

 

Samþykkt samhljóða.

 

12.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, lýsir þungum áhyggjum af versnandi afkomu kúabænda vegna mikilla verðhækkana á aðföngum s.s. kjarnfóðri. Auk þess sem niðurfelling á mótframlagi ríkisins í Lífeyrissjóð bænda hefur skert launakjör kúabænda. Fundurinn beinir því til stjórnar LK að hún leiti allra leiða til að bæta kjör kúabænda.

 

Samþykkt samhljóða.

 

13.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, hvetur stjórn LK til að fylgja því eftir við stjórnvöld að tollar á innfluttum mjólkurafurðum fylgi verðlagsþróun. Verðtollur hefur verið óbreyttur síðan WTO samningar voru undirritaðir 1995.

 

Samþykkt samhljóða.

 

14.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, fordæmir  vinnubrögð þeirra matvælafyrirtækja sem hafa stundað vörusvik, sem er mikill trúnaðarbrestur og áfall í því framleiðsluferli að koma góðum afurðum kúabænda til neytenda. Athygli er vakin á að kúabændur bíða skaða af þessu máli eins og neytendur en framkoma sem þessi kemur niður á sölu afurða kúabænda og jákvæðri ímynd. 

 

Steinþór hvetur til þess að orðið fórnarlamb sé ekki notað heldur frekar sé talað um að bíða skaða af.

Borið upp sem breytingartillaga og hún samþykkt samhljóða.

Valdimar Guðjónsson hnykkir á því að þetta hafi skapað mjög neikvæða umræðu gagnvart bændum.

 

Samþykkt samhljóða.

 

15.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, felur stjórn LK til að fara vandlega yfir “Frumvarp til laga um breyting á jarðalögum nr. 81/ 2004”, og að gefa umsögn um málið.

 

Fram komu tillögur um orðalagsbreytingar.

 

Samþykkt samhljóða að þeim lokið.

 

16.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, skorar á stjórnvöld að jafna flutnings- og dreifingarkostnað rafmagns á landsvísu að því marki sem raforkulög heimila. Minnir fundurinn á markmið raforkulaga sem er að „stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu“. Þá er mikilvægt að hraða endurnýjun á raflínukerfinu í dreifbýli og lagningu þriggja fasa rafmagns.

 

Samþykkt samhljóða.

 

17.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, mótmælir harðlega ákvörðun ríkisvaldsins að leggja arðgreiðslukröfu á RARIK og Orkubú Vestfjarða sem veldur verulegri hækkun á raforkuverði í dreifbýli. Skorar fundurinn á Alþingi að falla frá kröfu um arð á hendur RARIK og Orkubús Vestfjarða.

 

Samþykkt samhljóða.

 

18.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, lýsir áhyggjum af því lága skilaverði sem verið hefur á mjólk umfram greiðslumark og skorar á stjórnir Auðhumlu svf. og Mjólkursamsölunnar ehf. að auka til muna áherslu á markaðssetningu mjólkurafurða á erlendum vettvangi, í þeim tilgangi að hækka skilaverð til framleiðenda.

 

Greinargerð

Aðalfundur LK fagnar þeim árangri sem M.S. hefur náð í öflun sérleyfistekna fyrir framleiðslu á skyri erlendis, en bendir á að hagsmunir eigenda eru til lengri tíma litið betur tryggðir með útflutningi eigin afurða. Á aðalfundi alþjóðasamtaka mjólkuriðnaðarins sem fram fór í Höfðaborg síðastliðið haust, kom fram að gríðarleg aukning er í sölu mjólkurafurða á heimsvísu, eða um 20 milljónir tonna mjólkur á ári. Það er sem nemur allri árlegri mjólkurframleiðslu Nýja Sjálands, sem er leiðandi aðili í viðskiptum með mjólkurafurðir á heimsvísu. Þetta er sem samsvarar 170-faldri mjólkurframleiðslu á Íslandi. Samkvæmt nýlegri spá FAO mun smjörverð hækka um 30% fram til ársins 2021, frá meðalverði síðasta áratugar. Einnig má benda á að heimsmarkaðsverð mjólkurafurða hefur hækkað um fjórðung á síðustu vikum og hefur ekki verið hærra í fimm ár. Þá er það staðreynd að stór hluti af mjólkurframleiðslu heimsins fer nú fram á svæðum þar sem ferskvatn er af skornum skammti. Ísland er hins vegar eitt ríkasta land heimsins af ferskvatni og í þeirri stöðu hljóta að felast tækifæri í útflutningi mjólkurafurða ef vel er á málum haldið.

Ef stækka á markað fyrir íslenskar mjólkurafurðir, þarf það að vera sameiginlegt verkefni framleiðenda og mjólkuriðnaðarins. Í ljósi þess er eðlilegt að það skilaverð sem útflutningurinn gefur, sé skipt hlutfallslega eftir þeim kostnaði sem til fellur við framleiðslu og vinnslu.

 

Samþykkt samhljóða.

 

19.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, leggur ríka áherslu á að unnið verði af krafti að aukningu tollkvóta inn á markaði í Evrópu.

 

Greinargerð

Afar góður árangur hefur náðst í útflutningi á skyri til Finnlands síðustu misseri og nam heildar útflutningur þangað á síðasta ári 395 tonnum, að verðmæti rúmar 170 milljónir kr. samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Sá tollkvóti sem Íslandi er úthlutað inn á markaði í Evrópu er hinsvegar einungis 380 tonn. Skilaverðið fyrir útflutt skyr innan kvóta er um 430 kr/kg og á það að geta staðið undir áþekku verði og núgildandi afurðastöðvaverð. Aftur á móti skilar útflutningur utan kvóta nær engu upp í hráefniskostnað. Því er afar brýnt að tollkvótinn verði aukinn svo sinna megi þessum vaxandi markaði sem skyldi. Jafnframt bendir fundurinn á að leggja þurfi ríkari áherslu á markaðssetningu afurða úr mysupróteini.

 

Samþykkt samhljóða.

 

20.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, telur afar mikilvægt að komið verði upp aðstöðu til kynningar á íslenskum nautgripaafurðum á þeim stöðum þar sem erlendir ferðamenn koma til landsins.

 

Greinargerð

Árlega koma til landsins um 700.000 ferðamenn og felast gríðarlega miklir möguleikar í að kynna íslenskar nautgripaafurðir fyrir þeim. Slíkar kynningar geta einnig leitt af sér aukin tækifæri í útflutningi nautgripaafurða. Aðalfundurinn lýsir ánægju sinni með það framtak MS að gefa farþegum í millilandaflugi skyr. Mikilvægt er að standa fyrir þessháttar kynningum og það verði gert í samstarfi kúabænda, afurðastöðva og rekstraraðila flugstöðva og hafna þar sem erlendir ferðamenn fara um.

 

Samþykkt samhljóða.

 

21.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, ítrekar fyrri ályktanir um lánamál kúabænda og átelur enn sem fyrr seinagang við lausnir á skuldamálum þeirra. Fundurinn telur afar mikilvægt að horfa til framtíðar og ljúka úrvinnslu mála sem tengjast efnahagshruninu 2008 svo endurreisn geti hafist af krafti. Nauðsynlegt er að þegar verði samið um afdrif biðlána þannig að ljúka megi fjárhagslegri endurskipulagningu kúabúanna og framtíðarlausnir verði sniðnar eftir breytilegum þörfum mismunandi rekstrareininga, án tillits til bústærðar. Skilmálar fjármálagjörninga verði hafðir skýrir, skerði ekki réttindi sem kunna að skapast við síðari tíma úrskurði og/eða dóma og að fjárhagsleg endurskipulagning geti staðið til lengri tíma. Þegar verði lokið við endurútreikning gengistryggðra lána, bæði höfuðstóls og vaxta, þannig að óvissu verði eytt um fjárhagsstöðu viðkomandi kúabúa.

 

Þá leggur fundurinn ríka áherslu á að mótaðar verði aðgerðir til leiðréttingar á verðtryggðum lánum með sanngirnissjónarmið að leiðarljósi og þannig komið til móts við almenning og kúabændur sem sýndu ráðdeild og skynsemi við ákvarðanatöku á árunum fyrir hrun.

 

Samþykkt samhljóða.

 

Þrjár af þeim tillögum sem aðildarfélög sendu til fundarins komu ekki frá nefndum til afgreiðslu og kusu fulltrúar þeirra aðildarfélaga að fylgja þeim tillögum ekki frekar eftir.

 

10.        Afgreiðsla reikninga, tillaga um launamál  og fjárhagsáætlun

Baldur Helgi Benjamínsson fór yfir rekstrar- og efnahagsreikning liðins árs en reikningarnir voru í fundargögnum. Tekjur voru samtals 50,7 milljónir kr. og gjöld voru samtals 51,1 milljón og tap fyrir fjármagnsliði 426.274 kr. Að teknu tillit til fjármagsliða var Landssamband kúabænda rekið með hagnaði sem nam 635.725 kr.

 

Reikningar samþykktir samhljóða.

 

Baldur Helgi Benjamínsson kynnti tillögu um þóknun stjórnarmanna. Laun stjórnarmanna hækki úr 50.000 kr. í 52.611 kr. í samræmi við hækkun á launavísitölu og sömuleiðis laun stjórnarformanns úr 238.000 í 250.000 kr. á mánuði. Fyrir fundi greiðast dagpeningar skv. ferðakostnaðarnefnd ríkisins.

 

Samþykkt samhljóða.

 

Baldur Helgi Benjamínsson kynnti fjárhagsáætlun, reiknað með tekjum upp á 54,15 milljónir króna og gjöldum 53,8 milljónir króna og að hagnaður verði því 310.000 krónur utan við fjármagsliði en 2,3 milljónir að teknu tilliti til þeirra.

 

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

 

11.         Kosningar

Formaður uppstillingarnefndar Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu nefndarinnar að formanni og tilnefndi Sigurð Loftsson. Gengið var til skriflegra kosninga og fór kjör til formanns LK þannig að Sigurður Loftsson var kjörinn formaður félagssins með 34 atkvæðum, Guðný H Björnsdóttir hlaut 2 atkvæði, Laufey Bjarnadóttir 2 atkvæði og einn seðill var ógildur.

 

Formaður uppstillingarnefndar Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu nefndarinnar að stjórn og tilnefnir Guðnýju Helgu Björnsdóttur, Jóhann Gísla Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausta Þórisson. Gengið var til skriflegra kosninga og hlutu kosningu Guðný Helga Björnsdóttir með 36 atkvæði, Jóhann Gísli Jóhannsson með 36 atkvæði, Jóhann Nikulásson með 30 atkvæði og Trausti Þórisson með 34 atkvæði. Aðrir hlutu færri atkvæði.

 

Formaður uppstillingarnefndar Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu nefndarinnar að varamönnum stjórnar og tilnefndi Jóhönnu Hreinsdóttur og Guðrúnu Lárusdóttur. Gengið var til skriflegra kosninga og fékk Jóhanna Hreinsdóttir 27 atkvæði og Guðrún Lárusdóttir 25 atkvæði.

 

Formaður uppstillinganefndar Valdimar Guðjónsson kynnti tillögu nefndarinnar að skoðunarmönnum reikninga. Katrín Birna Viðarsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa sem skoðunarmaður reikninga. Nefndin gerði því tillögu að aðalskoðunarmönnum Pétri Diðrikssyni og Elínu B Sveinsdóttur og varamanni þeirra Valdimar Sigmarssyni.

Tillagan var samþykkt með lófataki.

 

12.        Önnur mál

Jón Gíslason lagði fram eftirfarandi tillögu til afgreiðslu fundarins.

 

22.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars 2013, skorar á Bændasamtök Íslands og fagráð í nautgriparækt að taka nú þegar upp nýjar og betri aðferðir við mat á geðslagi kúa. Lengi hefur verið viðurkennt að þær aðferðir sem notaðar eru í dag skila litlum árangri og ákveðnar hugmyndir um nýjar aðferðir við matið liggja fyrir. Allur dráttur á sjálfsögðum breytingum rýrir tiltrú manna á ræktunarstarfinu og skaðar búgreinina.

 

Sigmundur H. Sigmundsson tók undir tillöguna og fagnaði henni.

 

Samþykkt samhljóða.

 

Jóhannes Torfason færði LK þakkir fyrir hönd fundarmanna fyrir kvöldverð gærkvöldsins.

 

Jóhann Gísli Jóhannsson þakkaði LK fyrir að koma með aðalfund sinn austur í Egilsstaði, þakkaði fundarmönnum komuna og sagðist vonast til þess að fundarmenn og gestir hefðu notið verunnar.

 

Sigurður Loftsson þakkaði að lokum starfsmönnum fundarins og fundarmönnum og sleit fundi kl. 16:05.

 

 

 

 

Guðfinna Harpa Árnadóttir ritaði fundargerð.