Beint í efni

Aðalfundur 2011

26.03.2011

Aðalfundur Landssambands kúabænda 2011. Hótel KEA Akureyri, 25. og 26. mars.

 

1. Fundarsetning

Sigurður Loftsson formaður LK setti fund, minntist stofnunar LK fyrir 25 árum og flutti fundinum kveðju formanns danskra kúabænda. Formaður tilnefndi þau Katrínu Birnu Viðarsdóttur og Sigurgeir Hreinsson fundarstjóra og tóku þau við stjórn fundarins.

 

Fundarstjórar tilnefndu Ingvar Björnsson fundarritara og lögðu fram tillögu um Magnús Sigurðsson, Hnjúki, Guðrúnu Sigurjónsdóttur Glitstöðum og Þóri Jónsson, Selalæk í kjörbréfa- og uppstillingarnefnd.

 

2. Skýrsla stjórnar –Sigurður Loftsson formaður LK

Formaður rifjaði upp stöðu kúabænda við stofnun LK þann 4. apríl 1986. Við stofnun félagsins blasti margháttaður vandi við kúbændum sem átti rót í umframframleiðslu fyrri ára og tekjuskerðingu vegna minnkandi útflutningsbóta. Á fyrstu árum félagsins tók umhverfi mjólkurframleiðslunnar miklum breytingum og á haustdögum 1992 var skrifað undir búvörusamning sem byggði á því greiðslumarkskerfi sem enn er við lýði.

 

Formaður taldi liðið ár hafa verið fremur hagfellt kúbændum hvað varðaði tíðarfar og náttúruleg skilyrði. Þá gekk markaðssetning afurða vel, mjólkurafurðir héldu sínum hlut og aukning varð í sölu nautakjöts. Formaður gerði að umtalsefni störf verðlagsnefndar sem í janúar 2011 rauf tveggja ára verðstöðnun á afurðarstöðvaverði til bænda. Ræddi hann þær óánægjuraddir sem fram hefðu komið hjá mörgum kúabændum með hækkunina sem var nokkru undir mældri hækkunarþörf samkvæmt verðlagsgrundvelli mjólkur. Taldi hann brýnt að komast úr þeirri stöðu sem störf nefndarinnar væru í og að nauðsynlegt væri að ná fljótt fram þeim aðfangahækkunum sem dunið hefðu yfir síðustu mánuði.

 

Sigurði varð tíðrætt um samskipti stjórnar LK við stjórnvöld á árinu. Ekki var staðið við fyrirheit um að styrkja lagagrundvöll greiðslumarkskerfisins sem veikir stöðu verðlagningarfyrirkomulagsins. Taldi formaður það mjög bagalegt að réttaróvissa ríkti um Búvörulög og meðan svo stæði væri grundvöllur mjólkurframleiðslunnar í hættu. Þá taldi hann samskipti við ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegsmála varðandi kvótamarkað hafa verið erfið þar sem tillögum kúabænda um fjölgun markaðsdaga hafi ekki verið sinnt. Einnig kom fram að skerðing á framlögum ríkisvaldsins til bænda frá samningum væri orðin veruleg frá árinu 2009 og hefðu bændur tekið þær skerðingar á sig með því fororði að ekki yrði hróflað frekar við framleiðsluumhverfi mjólkurframleiðslunnar. Þau fyrirheit hefði ráðherra þegar rofið með afnámi niðurfærslu vegna greiðslumarkskaupa og hugmyndum um breytingu á ráðstöfun á ónýttu greiðslumarki.

 

Ein helst ógnun við starfsöryggi kúabænda um þessar munir er aðildarumsókn stjórnvalda að ESB. Gera má ráð fyrir að markaðssamdráttur íslenskra mjólkurafurða verði 40-50% og ekkert bendir til þess að stuðningskerfi sambandsins muni vega svo nokkru nemi á móti þeim neikvæðu áhrifum.

 

Hægt hefur gengið að útfæra úrræði fyrir skulduga bændur en LK hefur fylgst með þróun mála og reynt að þrýsta á úrlausn.  Það er krafa LK að þessum málum verði hraðað og samræmis gætt á milli skuldara.

 

Fram kom í máli Sigurðar að megin verkefni fundarins væri að vinna úr stefnumörkunardrögum sem fyrir fundinum lægju. Þar væru um að ræða vinnu sem rekja mætti aftur til aðalfundar 2007 þegar ákveðið var að endurnýja stefnumörkun kúabænda frá 2003. Á liðnu ári hefur verið unnið að gagnaöflun og úrvinnslu og hugmyndin er að eftir meðfarir fundarins birtist sú framtíðarsýn sem kúabændur hafa fyrir hönd greinarinnar fram til ársins 2021

 

Að lokum þakkaði formaður stjórn og framkvæmdastjóra gott samstarf á árinu og hvatti íslenska kúabændur til dáða og góðra verka.

 

3. Ávörp gesta og umræður

 

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslandsþakkaði samstarfið við LK á liðnu ári. Hann fjallaði um afstöðu BÍ til aðildarviðræðna við ESB. BÍ hefur dregið varnarlínur í ferlinu sem fela í sér lágmarksvarnir gagnvart aðildarumsókninni.

Í fyrsta lagi verði byggt á rétti Íslands til verndar heilsu manna og dýra. Markmiðið er að samið verði um undanþágur frá frjálsum innflutning dýra til landsins frá Evrópu. Frjáls innflutningur stangast m.a. á við skuldbindingar um verndun erfðastofna okkar. Tilgangurinn er að forðast sjúkdóma og meindýr sem ekki eru hér á landi en hafa gjarnan almenna útbreiðslu í Evrópu.

Í öðru lagi hafi íslensk stjórnvöld fullt frelsi til að styðja við landbúnað og úrvinnsluiðnað hér á landi. Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB á illa við á Íslandi vegna sérstöðu í framleiðslu og úrvinnslu íslenkra landbúnaðarafurða. Mikilvægt er að slíkur stuðningur sé án skilyrða. Komi til aðildar verði tekið fullt tillit til sérstöðu íslensks landbúnaðar og tryggt að ríkisstyrkir verði a.m.k. jafn miklir og fyrir aðild.

Í þriðja lagi verði áfram heimilt að leggja tolla á búvöru frá löndum ESB. Þarna valdi smæð og viðkvæmni íslenska matvörumarkaðarins því að nauðsynlegt sé að verja markaðinn sem sé viðkvæmur fyrir undirboðum. Einkum á þetta við um afurðir sem hafa mikið geymsluþol. Þannig getur evrópsk jaðarframleiðsla rutt út innlendri kjarnaframleiðslu. Þá meta Bændasamtökin stöðuna þannig að útflutningstækifæri frá Íslandi séu mjög takmörkuð.

Í fjórða lagi verði félagsleg staða og afkoma bænda tryggð. Tryggt verði að fjárfestingar sem lagt hafi verið í fáist bættar. Samtökum bænda verði tryggt sama fjármagn og nú.

Í fimmta lagi komi ekki til álita að skipta landinu uppí svæði með tilliti til landbúnaðar. Sérstakt tillit verður að taka til veðuraðstæðna og ríkra krafa til aðbúnaðar búfjár og vinnuverndar.

Í sjötta lagi verði staðfestur réttur til sjálfbærrar nýtingar hlunninda og eðlilegra varna gegn meindýrum og rándýrum. Aðild að ESB raski ekki hefðbundinni hlunnindanýtingu og aðgerðum gegn meindýrum.

Í sjöunda lagi að samningurinn raski ekki eignarréttarlegri stöðu bænda og landeigenda. Tryggt verði að erlent fjármagn, ótengt landbúnaði raski ekki aðstöðu til framleiðslu landbúnaðarafurða. Stjórnvöld hafi fullt svigrúm til að vernda landbúnaðarland.

 

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra óskaði samtökunum til hamingju með 25 ára afmælið og bar fundinum kveðju ráðherra. Gunnfríður lagði áherslu á mikilvægi mjólkurframleiðslunnar sem atvinnugreinar og þakkaði samstarf á liðnum árum.

 

Guðni Ágústsson, framkvæmdastjóri SAM óskaði félaginu til hamingju með störf sín og kvaðst sannfærður um að stofnum félagsskaparins hafi eflt stéttarvitund og samstöðu kúabænda. Þá taldi Guðni að landbúnaðurinn byggi við vinsældir og skilning á því matvælaöryggi sem hann veitir þjóðinni. Vopnum sérstöðunnar verði að halda á lofti því nú liggi líf og starf bóndans við vegna hugsanlegrar inngöngu í ESB. Guðni flutti kveðjur formanns SAM og óskaði kúabændum heilla.

 

Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Auðhumlu og MSflutti fundinum kveðjur stjórnar Auðhumlu og þakkaði samstarfið á liðnu ári. Þá óskaði hann samtökunum heilla á 25 ára afmælinu. Egill rakti verðlagningarmálin og lýsti þeirri skoðun sinni að iðnaðurinn ætti að halda sig til hlés varðandi hugsanlegar verðhækkanir í vor en beina þeim fremur til bænda. Taldi hann mikilvægt að hafa framtíðarsýn þrátt fyrir yfirvofandi ESB-umsókn. Mikilvægt væri að setja greininni markmið og ákvarða leiðir að þeim.

 

Þórir Jónsson. Þakkaði formanni skýrsluna og störf stjórnar. Þórir fjallaði um verðlagsmálin og velti því fyrir sér hvert svigrúmið væri til verðhækkana. Meta þyrfti verðþol vara og mikilvægt væri að verðhækkanir komi ekki í bakið á bændum á formi minni sölu.  Þá fjallaði hann um markaðssetningu mjólkurafurða og þá staðreynd að 15% af drykkjarvörumarkaði væri átappað vatn. Benti hann á möguleika þess að auka neyslu á mjólkurvörum á milli mála. Rakti hann að neysla á sælgæti og gosdrykkjum væri mikil hér á landi í samanburði við Noreg sem dæmi og mikilvægt að reyna að koma mjólkurvörum inn í staðinn.

 

Magnús Hannesson. Þakkaði stjórninni störfin á árinu. Ræddi hann verðlagsmál og starfssemi verðlagsnefndar. Taldi hann fundargerðir verðlagsnefndar koma seint fram og vera illfáanlegar. Rifjaði hann upp samkomulag sem gert var í nefndinni um að draga úr verðtilfærslum í mjókurvörum. Búið er að leiðrétta verðtilfærsluna að hluta en ekki að fullu.  Þá velti Magnús fyrir sér samanburði við mjólkurverð í Danmörku og þróun stuðnings við bændur þar. Benti hann á að taka þyrfti tillit til ávöxtunar eigin fjár við verðákvörðun á mjólkurvörum. Þá velti Magnús því fyrir sér hvernig laun bænda hafi þróast miðað við viðmiðunarstéttir. Magnús spurði um stefnu ráðuneytisins í verðlagningarmálum bænda í ljósi þess að ráðuneytið hefði oddamann í nefndinni. Þá var Magnús ósáttur við að stjórn LK stæði að ákvörðun um jafn litla hækkun til bænda. Að lokkum gagnrýndi Magnús fyrirkomulag stjórnarkjörs með uppstillingarnefnd og taldi að stjórnin gæti unnið með meiri þunga.

 

Gústaf Jökull Ólafsson. Þakkaði framsögu og rakti áhyggjur sínar af endurnýjun stéttarinnar. Taldi hann dæmigert að bændur mótmæli tillögum um ábúðarskyldu.  Of auðvelt væri að stofna lögbýli og það geri landeigendur til að komast í sjóði bænda. Taldi hann að skilyrðislaust yrði að vera ábúðarskylda á lögbýlum og að bændur væru bændum verstir í þessum málum eins og svo oft áður.

 

Pétur Diðriksson. Þakkaði stjórn fyrir starfið liðið ár.  Pétur tók undir varnarlínur BÍ varðandi ESB-umsóknina. Hann nefndi mikilvægi þess að bjóða stjórnmálaflokkum í heimsókn til Búnaðarþingsfulltrúa til að taka faglega umræðu um landbúnaðarmálin. Taldi hann málstaðinn svo góðan að auðvelt væri að útskýra sjónarmið landbúnaðarins fyrir stjórnmálamönnum. Nú þurfi að hefja umræðuna uppúr hinum pólitíska farvegi og taka hana á skynsemisnótum.  Bændur þurfi að vera íhaldssamir en um leið framsýnir. Þeir þurfi að hafa skýra framtíðarsýn og útskýra sín mál fyrir þjóðinni. Pétur ræddi kvótamarkaðinn og taldi hann að það væri verkefni bónda og fjármálastofnanna að komast að því hvaða verð viðkomandi bú gæti með réttu greitt fyrir kvóta miðað við rekstrarforsendur búsins. Þannig myndist rétt verð miðað við greiðslugetu og rekstur búsins.

 

Friðgeir Sigtryggsson velti því fyrir sér hvort vantaði skilgreiningu á félaginu og hvort félagið eigi að gæta hagsmuna fráfarandi bænda eða horfa meira til framtíðar. Taldi hann stjórnina tala máli fráfarandi bænda fremur en bænda framtíðarinnar.

 

Sigmundur Sigmundssonþakkaði framsögur. Ræddi hann kvótamarkaðinn og taldi hann hafa mistekist. Fannst honum undarlegt að hann þyrfti að gefa upp við banka hvað hann ætlaði að bjóða í kvóta óháð því hvort bankinn fjármagnaði kaupin. Taldi hann lágmark að uppboð á kvóta yrðu þrisvar á ári. Taldi hann mikilvægt að breyta jarðalögum þar sem mjög erfitt væri að hefja búskap miðað við núverandi stöðu. Ábúðarskylda væri þó ekki endilega besta lausnin.

 

Stefán Magnússon(almennur fundarmaður) tók undir með Pétri að gera þyrfti betur í því að koma sjónarmiðum landbúnaðarins á framfæri við þingmenn. Þarna þyrftu fleiri að leggjast á árar en stjórnir og formenn. Taldi Stefán að breyta þyrfti jarðalögum og skapa festu um landbúnað og landbúnaðarland og ábúð bænda á bændabýlum.

 

4. Erindi –Áhrif kynbóta á framleiðni íslenskra kúabúa

Daði Már Kristóferssonfjallaði um hagræn áhrif kynbóta. Líta má á kynbætur sem erfðafræðilegar tækniframfarir. Vandamálið er að skilja á milli kynbóta og almennra tækniframfara. Unnið var með gögn Hagþjónustu landbúnaðarins á tímabilinum 1997-2006 og gögn úr skýrsluhaldi BÍ. Niðurstaðan var sú að framleiðniaukning í mjólkurframleiðslu var að jafnaði 4% á ári á tímabilinu en sú aukning var að mestu leyti tilkomin vegna tækniframfara annarra en kynbóta. Aukning vegna kynbóta var að jafnaði um 0,2% á ári.  Þetta er minni framleiðniaukning vegna kynbóta en fyrri rannsóknir hafa sýnt. Í ljós kom að aukin framleiðni vegna kynbóta er háð fóðurstyrk –hærri fóðurstyrkur dregur fram erfðaframför í stofninum. Daði velti því upp hvort þessi þróun þjóni langtímahagsmunum stéttarinnar og hvort fylgja þurfi þessum kynbótum eftir með auknum gæðum fóðurs –betri grösum og meira korni.

 

Eiríkur Egilsson spurði hvort mjólkurverð (umframmjólkurverð) hefði haft áhrif á framleiðnina. Daði vísaði til samhengis kjarnfóðurgjafar og mjólkurverðs.

 

Baldur Helgi Benjamínsson spurði hvort til væru sambærileg gögn fyrir önnur lönd Daði taldi svo ekki vera en að nú væri unnið að sambærilegri vinnu i Noregi. Þá spurði Baldur hvort útreikningarnir hefðu verið yfirfærðir í krónur og aura. Daði sagði það ekki hafa verið hluta af rannsókninni en það væri vissulega athyglisvert rannsóknarefni.

 

Jón Gíslason spurði hvort sá grundvallarskilningur væri rangur að að kynbætur skili bestri niðurstöðu óháð aðstæðum. Daði taldi það augljóst þó því væri ekki haldið fram. –framleiðslukerfið ætti að hafa áhrif á kynbótakerfið. Jón spurði hvort framfarir í kynbótum séu almennt mestar þar sem stunduð er hámarksafurðastefna. Daði vildi meina að samræmi þyrfti að vera á milli framleiðslustefnunnar og kynbótastefnunnar.

 

Bóel Anna Þórisdóttir spurði hvort 0,2% framfarir væru viðunandi. Daði benti á að þetta væri umtalsvert þar sem þetta safnaðist upp á milli ára.

 

Ólafur Helgason spurði hvort við hefðum átt að rækta kýr sem nýttu fóðrið betur. Daði benti á að spurningin væri mikilvæg en að rannsóknin gæti ekki svarað því.

 

Gunnar Jónsson spurði hvort mælingin snéri ekki eingöngu að framleiðslueiginleikum en ekki skapgerð og öðrum slíkum þáttum. Daði staðfesti það.

 

5. Stefnumörkun kúabænda til 2021

Baldur Helgi Benjamínsson rakti að í kjölfar aðalfundar LK árið 2007 hafi verið ákveðið að fara í úttekt á framleiðslustjórnunarkerfinu.  Málið var kynnt á aðalfundi 2008 og haldið málþing um mjólkurframleiðsluna í febrúar 2008. Í kjölfarið var tekið upp samstarf við Auðhumlu og mótuð framtíðarsýn fyrir greinina til næsta áratugar.

 

Megin þungi stefnumörkunarinnar er mjólkurframleiðslan. Sett eru markmið um að lækka breytilegan kostnað búanna verulega og skapa skilyrði fyrir bættum rekstri. Á síðustu árum hefur kostnaður lækkað um 1,5% á ári en svigrúm er enn til staðar, einkum til bættrar nýtingar á fastafjármunum (fjósum og vélum). Markmiðið er að opinber stuðningur nýtist sem best og skerði ekki samkeppnisstöðu.  Mikilvægt er að tryggja aðgang að ræktunarlandi –þar er eignarhald ekki forsenda. Kúakynið og kynbætur er stór breyta í framleiðsluhagkvæmninni. Samkvæmt skýrslu LBHÍ yrði hægt að lækka framleiðslukostnað um 15% með nýju kúakyni eða með breytingum á kynbótum t.d. með því að taka upp blendingsræktun.

 

Varðandi úrvinnslu og markaðsmál þarf að líta til lagalegrar umgjarðar og innlends markaðar. Mjólkurneysla á markaði er 60% meiri en neysla í Evrópu. Neysla hefur færst frá ferskvöru yfir í birgðavöru sem dregur úr fjarlægðarvernd. Megnið af útflutningi er duft og smjör sem fer á heimsmarkað en 5% á formi skyrs til USA og Finnlands. Mikil samþjöppun hefur orðið á vinnslufyrirtækjum sem eru nú 2 en voru flest 17. Talið er að markaðurinn þoli 15-20% verðmun á innlendum og influttum vörum. 20% samkeppni þýðir 3,5 milljarða tekjutap. Heimavinnsla fer vaxandi og eykur fjölbreyttni á markaði.

 

Nautakjötsframleiðslan skilar um 10% af tekjum kúabænda. Samkeppni á kjötmarkaði hefur verið mikil. 7 sláturleyfishafar á markaðnum en sala beint frá býli fer vaxandi. Markmiðið er að nautakjötsframleiðslan verði sjálfstæð og arðbær búgrein með aukna markaðhlutdeild á innlendum markaði.  Mikilvægt er að taka upp nýtt kjötmat með markvissari flokkun.

 

Hópurinn skoðaði framkvæmd framleiðslustýringar og núverandi framleiðsluaðstöðu sem hefur gjörbreytst á fáum árum.  Fjölmörg tækifæri eru í stöðunni. Aukin þörf fyrir matvæli, veðurfar er hlýnandi, sjúkdómastaða er góð, nóg af landi og vatni og möguleikar í orkuvinnslu. Skoða þarf uppbyggingu og fjármögnun félagskerfisins. Stefnt er að því að menntunarstig kúabænda sé sambærilegt við menntun annara fagstétta og kúabændum gert kleyft að sækja sér símenntun. Stækkandi bú kalla á öfluga ráðgjöf og hún á að vera á einni hendi. Stefnt er að því að notendagjöld verði vaxandi hluti fjármögnunar ráðgjafarinnar.

 

6. Niðurstaða kjörbréfanefndar -Magnús Sigurðsson

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Jóhanna Hreinsdóttir              Káraneskoti

Magnús Hannesson                E-Leirárgörðum

 

Mjólkurbú Borgfirðinga

Guðrún Sigurjónsdóttir          Glitstöðum

Jón Gíslason                           Lundi

Laufey Bjarnadóttir               Stakkhamri

Pétur Diðriksson                    Helgavatni

 

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð

Bára  Sigurðardóttir               Lyngbrekku

Hallur Pálsson                        Nausti

Gústaf Jökull Ólafsson          Miðjunesi (varamaður)

 

Félag kúabænda í Ísafjarðasýslum

Sigmundur H. Sigmundsson  Látrum

 

Nautgriparæktarfélag V-Húnavatnssýslu

Valgerður Kristjánsdóttir       Mýrum 3

Pétur Sigurvaldason               Neðri-Torfustöðum

 

Félag kúabænda í A-Húnavatnssýslu

Brynjólfur Friðriksson            Austurhlíð

Magnús Sigurðsson                Hnjúki

 

Félag kúabænda í Skagafirði

Guðrún Lárusdóttir                Keldudal

Valdimar Sigmarsson             Sólheimum

Gunnar Sigurðsson                 Stóru-Ökrum

Þórarinn Leifsson                   Keldudal

 

Búgreinaráð BSE í nautgriparækt

Trausti Þórisson                      Hofsá

Sigurgeir Hreinsson                Hríshóli

Anna Jónsdóttir                     Svalbarði

Elín Margrét Stefánsdóttir     Fellshlíð

Bragi Konráðsson                  Lönguhlíð

 

Félag þingeyskra kúabænda

Friðgeir Sigtryggsson             Breiðumýri

Sif Jónsdóttir                         Laxamýri

Steinþór Heiðarsson               Ytri Tunga

 

Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum

Jóhann Gísli Jóhannsson        Breiðavaði

Gunnar Jónsson                      Egilsstöðum

 

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar

Jóhann Björgvin MarvinssonSvínabökkum

 

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Eiríkur Egilsson                      Seljavöllum

 

Félag kúabænda á Suðurlandi

Þórir Jónsson                          Selalæk

Samúel U. Eyjólfsson            Bryðjuholti

Elín B. Sveinsdóttir               Egilsstaðakoti

Katrín Birna Viðarsdóttir       Ásólfsskála

Ólafur Helgason                     Hraunkoti

Valdimar Guðjónsson             Gaulverjabæ

Jóhann Nikulásson                 Stóru-Hildisey (varamaður)

Guðbjörg Jónsdóttir               Læk

Elín Sveinsdóttir                    Egilsstaðakoti

Birkir A. Tómasson                Móeiðarhvoli

Bóel Anna Þórisdóttir                        Móeiðarhvoli

Ásmundur Lárusson               Norðurgarði

Björn Harðarson                     Holti

 

Almennar umræður –framhald

Einar Sigurðsson forstjóri MS svaraði vangaveltum um verðþol á markaði. Taldi hann erfitt að meta verðþol fyrr en á reyndi en það lægi þó fyrir að hægt væri að hækka neyslumjólk og viðbit. Neyslumjókin væri þó að gefa eftir í sölu. Ljóst væri einnig að erfiðara væri að koma út ostum og ostatilboð væru fleiri síðast liðið ár en fyrr. Þá væri aukin eftirspurn eftir ódýrari vöruflokkum og að aukið framboð og sala væri á kostnað dýrari vöruflokka.

 

Valgerður Kristjánsdóttir nefndi kvótamarkaðinn og þann kostnað sem fellur á bændur vegna bankaábyrgðar. Nefndi hún sem dæmi að hún hefði þurft að greiða sínum banka um 85.000 kr vegna boðs í kvóta. Þá vildi hún fá skýra kvittun um kvótakaupin frá MAST. Hún fagnaði mjólkurverðshækkunum.  Valgerður tók umræðu um nýtt kúakyn og taldi sig jákvæða fyrir slíkum innflutningi. Valgerður velti fyrir sér stöðu nautakjötsframleiðslunnar og að ekki væri nóg að leggja ríkar kröfur á frameiðendur um merkingar og rekjanleika ef því væri ekki fylgt eftir í slátrun og vinnslu.

 

Birkir A. Tómasson fjallaði um verðlagsmálin. Taldi hann bændur hafa sýnt sanngirni og brugðist við erfiðleikum í þjóðfélaginu. Taldi hann að ekki gæti ríkt sátt um kerfi sem ekki væri byggt á sanngirni.  Þá spurði hann Sigurð hvort hækkunarþörf væri núllstillt við síðustu mjólkurverðshækkun eða hvort tekið yrði tillit til uppsafnaðrar hækkunarþarfar. Birkir tók undir með Valgerði um gjaldtöku banka vegna ábyrgða á kvótakaupum. Taldi hann lítinn grundvöll fyrir kvótaviðskiptum nema hjá þeim sem gætu fjármagnað kvóta með eigin fé. Þá varaði hann við nýju kjötmati og taldi hættu á að það yrði til að lækka verð til bænda.

 

Eiríkur Egilsson tók umræðu um verðlagsmálin og benti á að smásalar hefðu notað tækifærið og aukið álagninguna um leið og bændur hækkuðu verð. Taldi hann farsælla að hækka sjaldnar og meira. Varaði hann einnig við því að tekið yrði upp kjötmatskerfi sem rýrði kjör bænda. Þá varaði hann við þeim málflutningi að hægt væri að draga verulega úr kostnaði -það væri tvíeggjað sverð.

 

Laufey Bjarnadóttir þakkaði skemmtileg erindi. Laufey taldi heimasíðuna þunga og erfiða fyrir þá sem ekki byggju við gott netsamband.  Gagnrýndi hún hversu seint efni barst fundarmönnum og benti á að mikilvægt væri að fundarmenn hefðu góðan tíma til að kynna sér málefni greinarinnar. Laufey taldi að ekki þyrfti flókið kjötmatskerfi þar sem neytendur gerðu ekki greinarmun á mismunandi flokkum nautakjöts.

 

Sigurgeir Hreinsson fagnaði góðum umræðum og þakkaði erindi. Sigurgeir ræddi stefnumörkun LK og hvort rétt væri að setja fram markmið um verulagar kostnaðarlækkanir. Hann hafnaði því að slík markmið hefðu áhrif á möguleika til mjólkurverðshækkana, það væri röng niðurstaða í núverandi verðlagningarkerfi. Kúabændur verði að vinna markvisst að því að bæta sína stöðu og ef það verði ekki gert dragist þeir afturúr. Þetta snúist um þá stöðu sem kúabændur verði í þegar þrýstingur á innflutning eykst. Hann ræddi um bankaábyrgð vegna kvótakaupa og taldi hana ekki vera íþyngjandi þar sem um fáa daga væri að ræða. Ræddi hann einstaklingsmerkingar og taldi þær grunninn að rekjanleika afurðanna og öryggi í kynbótastarfi. Sigurgeir tók umræðu um kjötmatið og taldi að það hefði hjálpað sauðfjárbændum mjög mikið í kynbótum. Sigurgeir taldi að nýtt kjötmat í nautakjötsframleiðslu myndi auka faglega vinnu í kjötvinnslu. Sigurgeir taldi bændur ekki hafa komið verr út úr kreppunni en margar aðrar stéttir, enginn fengi neitt nema að berjast. Sigurgeir taldi bændur hafa náð ágætum árangri í verðlagningarmálum miðað við aðstæður.

 

Sigmundur Sigmundsson benti á að einstaklingsmerkingarinnar hefðu sannað sitt ágæti þegar dioxínmengunin kom upp í Skutulsfirði. Þá hefði verið hægt að rekja allt kjöt sem komið var á markað.  Var hann jákvæður fyrir nýju kjötmati almennt og taldi það hafa skilað árangri í sauðfjárræktinni.

 

Gunnar Sigurðsson taldi gagn og sóknarfæri í nýju kjötmati í nautakjöti og benti á framfarir í sauðfjárræktinni. Gunnar tók umræðu um umframmjólk og hagkvæmni hennar. Gunnar spurði hvort eðlilegt væri að flytja út mjólk sem greitt væri fullt verð fyrir og efaðist um skynsemi þess að greiða hærra umframmjólkurverð fyrir ákveðið hlutfall greiðslumarks.  Benti Gunnar á að það væri á ábyrgð núverandi bænda að endurnýjun væri möguleg í greininni.  Taldi hann að hugsun bænda ætti að vera að beint að því að framleiða á sem hagkvæmastan hátt í stað þess að verja greiðslumarkskerfið út fyrir gröf og dauða.

 

Gunnar Jónsson þakkaði sitjandi stjórn störfin á árinu á erfiðum tímum. Gunnar tók til umræðu erindi Daða og taldi það alvarlegt að menn vissu ekki til hvers þeir hefðu kynbætt íslensku kúnna. Þarna væri einblínt á framleiðsluna en vaxandi vandamál væru skapgerðargallar. Þá væri júgurgerðin of oft verulega gölluð. Þá varaði Gunnar við notkun EUROP kerfisins því ekki væri um ræktunarstarf í nautakjötsframleiðslunni að ræða heldur mest hliðarafurð. Því gæti upptaka þess leitt til verðlækkunar fremur en framfara í kjötframleiðslunni. Þá taldi hann að burðareiginleikar væru að aukast í íslensku kúnni. Gunnar taldi að skoða þyrfti alvarlega blendingsræktun í kúastofninum til að lækka framleiðslukostnað.

 

Sif Jónsdóttir gerði að umtalsefni kynbótastarfið og benti á að athyglisvert væri að fá mynd af mæðrum í nautaskránna. Þá nefndi hún möguleika bænda til að gera erfðaskrá og ráðstafa þannig landi sínu til að tryggja notkun þess til landbúnaðarframleiðslu eftir sinn dag.

 

Gústaf Jökull Ólafsson gaf ekki mikið fyrir ræktunarstarfið. Hann hefur ekki sætt með nautum sem gefa skapalla og lítur svo á að þetta sé gegnumgangandi vandamál.

 

Guðný Helga Björnsdóttir ræddi kynbótastarfið og benti á takmarkanir stofnsins vegna stærðar hans. Þá benti hún á að erfitt er að kynbæta fyrir skapi því eiginleikinn væri flókinn og mælingin ónákvæm. Um væri að ræða huglægt mat sem bóndans. Guðný taldi að skoða yrði blendingsræktun alvarlega. Hún taldi liðið ár hafa verið erfitt sökum þungra samskipta við stjórnvöld.

 

Jóhann Nikulásson gerði að umræðuefni erindi Daða. Taldi hann mikilvægan punkt hafa komið fram hjá Daða að fóðuröflunin þyrfti að fylgja eftir kynbótum á gripum til mikilla afurða. Ræddi hann stefnumörkunina og mikilvægi þess að ná niður kostnaði. Jóhann ræddi nýliðun og rakti að hann hefði keypt bú fyrir 20 árum fyrir fimmfalda veltu búsins. Taldi hann sig ekki myndi fá hærra verð fyrir bú sitt í dag en næmi því hlutfalli. Hann taldi góða afkomu lykilinn að nýliðun.  Jóhann tók undir með Guðnýju um samskiptin við stjórnvöld einkum varðandi kvótamarkaðinn.

 

Sigurður Loftsson fór yfir umræður dagsins. Ræddi hann verðlagsmálin og þá ákvörðun sem hann stóð að í verðlagsnefnd. Rakti hann að einungis hefði verið tekið tillit til ákveðinna liða í verðlagsgrundvellinum og að leiðrétting annara liða komi til umræðu næst. Það verði síðan að koma í ljós hvað næðist fram. Þá benti hann á að skoða þyrfti verðlagninguna út frá verðþoli varanna. Taldi hann fundargerðir verðlagsnefndar rýr plögg sem ekki sýndu endilega anda nefndarinnar og þá umræðu sem þar færi fram. Svaraði hann því að geymdir fjármagnsliðir skv. samningnum væru ennþá geymdir og að mikil óvissa væri varðandi raunverulega skuldastöðu og fjármagnskostnað bænda. Ekki náðist samkomulag um hækkun vegna ávöxtunar á eigið fé. Sigurður ræddi verðtilfærslu á vörum og tók sem dæmi að mjólkurduft fengi verulega verðtilfærslu og ef hennar nyti ekki yrði mikill þrýstingur á innflutning.  Sigurður ræddi kvótamarkaðinn og taldi að reglugerð um kvótamarkað væri með þeim hætti að hugmyndin hafi verið eyðilögð. Sigurður gerði að umtalsefni nýliðun og hvort stefna stjórnarinnar væri hagsmunastefna fyrir fráfarandi bændur fremur en verðandi bændur. Varaði hann við miklum sviptingum á umhverfinu en taldi heillavænlegra að reynt yrði að sníða af vankanta núverandi kerfis.

 

7. Skipan í nefndir og nefndarstörf –hlé gert á fundi

Starfsnefnd 1 Guðbjörg Jónsdóttir formaður

Starfsnefnt 2 Valdimar Guðjónsson formaður

Starfsnefnd 3 Þórarinn Leifsson formaður

 

8. Afgreiðsla mála –fundi framhaldið

Starfsnefnd 3 –Þórarinn Leifsson

 

Tillaga 3.1 Aðildarumsókn að ESB:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 ítrekar andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu og lýsir fullum stuðningi við ályktun nýliðins Búnaðarþings vegna þessa. Ljóst er að komi til aðildar muni það hafa veruleg neikvæð áhrif á markaðsstöðu nautgriparæktarinnar og leiða af sér tekjuhrun hjá þeim bændum sem greinina stunda. Fundurinn hvetur Bændasamtök Íslands til að halda fast á hagsmunum íslenskra bænda og hvika hvergi frá þeim varnarlínum sem dregnar hafa verið upp vegna umsóknar stjórnvalda um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ályktun Búnaðarþings 2011 er svo hljóðandi:

 

„Aðild Íslands að ESB – afstaða BÍ

Búnaðarþing 2011 ítrekar andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu. Miklir atvinnuhagsmunir bændastéttarinnar eru í húfi og telur þingið þessum hagsmunum betur borgið utan þess. Hagsmunir og afkoma bænda tengjast ótvírætt hagsmunum íslenskra neytenda og byggðum landsins. Búnaðarþing telur að fæðuöryggi þjóðarinnar verði því aðeins tryggt að fullu með því að Ísland standi utan sambandsins.

Þrátt fyrir algjöra andstöðu Bændasamtakanna við aðild að Evrópusambandinu hafa þau frá upphafi dregið sérstakar varnarlínur sem þau telja að feli í sér lágmarkskröfur í yfirstandandi samningaviðræðum við Evrópusambandið. Bændasamtökin telja mikilvægt að hagsmunir íslensks landbúnaðar verði tryggðir, komi til aðildar og að hagsmunir bændastéttarinnar verði metnir í heild með hliðsjón af byggðasjónarmiðum, neytendamálum og fæðuöryggi. Þeim árangri er að mati Bændasamtakanna aðeins hægt að ná sé varnarlínum samtakanna fylgt. Bændasamtökunum er ljóst að markmið varnarlínanna falla misvel að grunnreglum Evrópusambandsins og erfitt getur verið að ná þeim fram. Bændasamtökin hafa margoft áður sett þessa afstöðu fram.
Til þess að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar er það afdráttarlaus krafa Bændasamtaka Íslands að stjórnvöld leiti aðstoðar óháðra sérfræðinga utan stofnana Evrópusambandsins. Í varnarlínum samtakanna kemur fram krafa um varanlegar undanþágur frá landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Varanlegar undanþágur þýða að mati Bændasamtakanna að viðeigandi ákvæði í aðildarsamningnum gangi framar ákvæðum samningsins um starfsemi Evrópusambandsins og gerðum settum samkvæmt honum. Tímabundnar undanþágur nægja ekki að mati Bændasamtakanna til þess að tryggja framtíðarhagsmuni íslensks landbúnaðar. Allar varnarlínurnar varða sameiginlega hagsmuni landbúnaðar á Íslandi til lengri tíma litið. Það kostar verulega rannsóknarvinnu og gagnaöflun að takast á hendur þetta verkefni af fullum krafti. Stjórnvöld þurfa að tryggja pólitískan stuðning og nauðsynlegar fjárveitingar til þeirrar vinnu.
Búnaðarþing 2011 leggur áherslu á eftirtalin atriði:

– Að varnarlínur Bændasamtakanna og greining á lagaumhverfi landbúnaðar í Evrópusambandinu liggja nú fyrir búnaðarþingi. Búnaðarþing felur stjórn Bændasamtaka Íslands að fullvinna þessi gögn. Þau verði síðan kynnt bændum og send aðildarfélögum.
– Að með varnarlínum Bændasamtakanna hafa bændur sett fram lágmarkskröfur í landbúnaðarmálum vegna hugsanlegs aðildarsamnings.
– Að stjórn Bændasamtakanna fylgi varnarlínunum eftir við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í því skyni að koma þeim á framfæri við ríkisstjórn.
– Að stjórnvöld kanni nú þegar afstöðu Evrópusambandsins til varnarlína Bændasamtakanna sé það ætlun þeirra að standa vörð um íslenskan landbúnað.
– Að Bændasamtökin taki ekki þátt í undirbúningi eða aðlögunarstarfi sem leiðir beint eða óbeint af yfirstandandi samningaferli s.s. vinnu við að útfæra sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins fyrir íslenskar aðstæður.
– Að allar umræður sem leiða af sér grundvallarbreytingar á ríkisstuðningi-, tolla- og stofnanaumhverfi íslensks landbúnaðar verði að bíða þar til yfirstandandi samningaferli lýkur.
– Að Bændasamtökin ræki áfram skyldur sínar gagnvart stjórnvöldum með því að veita upplýsingar og ráðgjöf um landbúnaðarmál.

 

Greinargerð – Varnarlínur BÍ
1. Áfram verði byggt á 13. grein EES-samningsins um rétt Íslands til verndar heilsu manna og dýra.

Meginatriði: Komi til aðildar verði innflutningsheimildir óbreyttar frá því sem þær verða þegar að lög nr. 143/2009 um innleiðingu á matvælalöggjöf ESB hafa öðlast gildi að fullu. Jafnframt verði heimilt að halda takmörkunum á plöntuinnflutningi óbreyttum. Íslenskum stjórnvöldum verði enn fremur heimilt að grípa til sérstakra aðgerða til að vernda og verja innlendu búfjárkynin Varanleg ákvæði þessa efnis verði hluti af aðildarsamningi.
2. Ísland og íslensk stjórnvöld hafi fullt frelsi frá reglum og stefnu ESB til að ríkisstyrkja landbúnað og innlendan úrvinnsluiðnað.
Meginatriði: Komi til aðildar verði fullt tillit tekið til sérstöðu landsins í aðildarsamningi, án tillits til fyrri fordæma. Svigrúm verði til þess að tryggja stöðu byggða sem byggja á landbúnaði og úrvinnslu afurða hans þannig að hún verði ekki verri en fyrir aðild. Þannig er lágmarkskrafa að ríkisstyrkir verði a.m.k. með sama hætti og fyrir aðild. Nægilegt og skýrt svigrúm verði til að styðja við framleiðslu skilgreindra sóknarafurða sem hafa skírskotun til íslenskra framleiðsluaðstæðna. Svigrúm verði fyrir sérstakar aðgerðir til að verja íslenska búvöruframleiðslu vegna smæðar innlenda markaðarins.
3. Áfram verði heimilt að leggja tolla á búvöru frá löndum ESB.
Meginatriði: Komi til aðildar hafi íslensk stjórnvöld áfram heimild til að leggja tolla á búvörur frá ESB löndum allt að því sem heimildir til að leggja á tolla samkvæmt skuldbindingum okkar innan WTO gefa svigrúm til. Verði breytingar á reglum WTO þannig að heimildir til álagningar tolla verði skertar þarf að bæta það með öðrum hætti. Hagsmuna íslensks landbúnaðar verði gætt í hvívetna vegna smæðar markaðarins og fjarlægðar frá hinum eiginlega innri markaði ESB.
4. Félagsleg staða og afkoma bænda verði tryggð.
Meginatriði: Komi til aðildar verði tryggt að bændum verði bætt tjón vegna fjárfestinga sem ljóst er að verði verðlitlar eða verðlausar við aðild. Samtökum bænda verði jafnframt tryggð sambærileg staða og nú. Þetta þýðir að heimila verður og tryggja innlenda ríkisstyrki nægilega til þess að ná þessum markmiðum.

5. Svæðaskipting landsins með tilliti til landbúnaðar kemur ekki til álita. Sérstakt tillit verður að taka til veðuraðstæðna og ríkra krafna til aðbúnaðar búfjár og vinnuverndar.
Meginatriði: Komi til aðildar verði sömu heimildir til að styðja við landbúnað óháð því hvar á landinu starfsemin er. Lágmarkskrafan er að landið verði skilgreint sem eitt svæði með tilliti til ríkisstyrkja og styrkja úr Evrópska tryggingarsjóðnum fyrir landbúnað Á ensku: European Agricultural Guarantee Fund (skammstafað EAGF), sem fjármagnar markaðsskipulagið og Evrópska landbúnaðarsjóðnum til þróunar landbúnaðarhéraða European Agricultural Fund for Rural Development (skammstafað EAFRD) og að hér verði um að ræða varanlegt ákvæði í aðildarsamningi.
6. Réttur til sjálfbærrar nýtingar hlunninda og eðlilegra varna gegn rándýrum og meindýrum.
Meginatriði: Komi til aðildar verði ekki settar skorður á hefðbundna hlunnindanýtingu eða aðgerðir gegn meindýrum, hvort sem þau eru flokkuð sem meindýr innan ESB eða ekki. Lágmarkskrafa er að varanleg ákvæði vegna þessa verði hluti af aðildarsamningi.
7. Samningurinn raski ekki eignaréttarlegri stöðu bænda og landeigenda. Tryggt verði að erlent fjármagn, ótengt landbúnaði raski ekki aðstöðu til framleiðslu landbúnaðarafurða.
Meginatriði: Komi til aðildar hafi stjórnvöld fullt svigrúm til að skilgreina ákveðin landsvæði sem landbúnaðarland sem ekki megi taka til annarra nota. Varanlegt ákvæði í aðildarsamningi verði sett til að tryggja þetta.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 3.2 Umfjöllun RÚV um aðildarumsókn að ESB

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25.-26. mars 2011 beinir því til Ríkisútvarpsins að gæta jafnræðis í umfjöllun sinni um hin fjölbreyttu málefni ESB, stöðu íslenskra atvinnuvega og aðildarviðræður.

 

Greinargerð:

Þungi aðildarumræðunnar mun aukast næstu mánuði og ár og gera verður þá kröfu til ríkisfjölmiðils – útvarps allra landsmanna – að sjónarmiðum beggja fylkinga, með og á móti aðild, sé gert jafnt undir höfði.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 3.3 Kvótamarkaður

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25.-26. mars 2011 skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka til alvarlegrar íhugunar breytingu á reglugerð nr. 190/2011 í þá veru að markaður fyrir greiðslumark verði haldinn þrisvar á ári. Einnig vill fundurinn beina því til ráðherra að reglum um útdeilingu ónýtts greiðslumarks í mjólk verði ekki breytt.

 

Greinargerð:

Hag mjólkurframleiðenda er betur borgið með fjölgun markaðsdaga meðan þeir aðlagast breyttu fyrirkomulagi, ekki síst vegna þeirrar óvissu um verðmyndum á greiðslumarki sem nýlegar breytingar á skattalögum gætu haft í för með sér.

 

Samúel U. EyjólfssonVelti því fyrir sér hvort ætti að hnykkja á því að þrír markaðsdagar verði fyrir núverandi kvótaár.

 

Sigurður Loftssonfagnaði því að fundurinn ályktaði um kvótamarkaðinn og taldi varla nógu djúpt í árinni tekið miðað við alvarleika málsins og þau sterku viðbrögð sem hann hefði fundið.

 

Jón Gíslasontók undir með Sigurði. Hann taldi óhætt að gera tillögu að fjórum markaðsdögum og átelja vinnubrögð ráðherra í málinu.

 

Fundarstjóri vísaði tillögunni aftur til nefndar til endurskoðunar.

 

Tillaga 3.4 Aðgerðir vegna mengunar í Skutulsfirði:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011, skorar á stjórnvöld að bregðast strax við þeim alvarlegu aðstæðum sem upp eru komnar í Skutulsfirði vegna dioxinmengunar. Ólíðandi er að búfjáreigendur búi við óvissu vegna þessa ástands og krefst fundurinn þess að unnið verði hratt að ásættanlegum úrlausnum fyrir þá búfjáreigendur á svæðinu sem orðið hafa fyrir skaða vegna þessa.

Þá leggur fundurinn áherslu á að útbúnir verði skilvirkir verkferlar sem hægt er að vinna eftir ef mengunarslys verða.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 3.5 Málefni skuldugra bænda:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 átelur harðlega þann seinagang sem viðgengist hefur við lausnir á skuldamálum bænda. Fundurinn krefst þess að lánastofnanir hraði úrlausnum þessara mála, þar verði verðmæti rekstrarins lagt til grundvallar og gætt samræmis við úrvinnslu milli aðila.

 

Fundurinn leggur áherslu á að stjórnir LK og BÍ beiti sér af fullum þunga í þessum málum og að unnið verði eftir þeim leiðum sem fram koma í ályktun nýliðins Búnaðarþings, þar sem segir:

„Bændasamtök Íslands fari fram á samkomulag um úrvinnslu skuldamála bænda við Samtök fjármálafyrirtækja eða lánastofnanir, er taki tillit til sérstöðu búrekstrar, í takt við hliðstætt samkomulag Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fjármálafyrirtækja. Við mótun þess þarf m.a. að taka tillit til eftirtalinna atriða:

Komist verði að samkomulagi um aðferðir við mat á bújörðum er taki mið af núverandi starfsemi og ástandi jarðarinnar.

Búrekstraráætlanir er taki tillit til eðlilegrar afkomu bænda og endurnýjunar rekstrar- og fastafjármuna verði lagðar til grundvallar við lausnir.

Lausnir verði sniðnar að mismunandi rekstrareiningum þannig að boðið verði upp á framtíðarlausnir í lánamálum óháð bústærð.

Skilmálar fjármálagjörninga verði skýrir, skerði ekki réttindi sem kunna að skapast við seinni tíma úrskurði og/eða dóma. Gera verður kröfu um að fjárhagsleg endurskipulagning sé til lengri tíma og meðhöndlun biðlána skýr.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Starfsnefnd 1 –Guðbjörg Jónsdóttir

 

Tillaga 1.1 Kjaramál:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011, lýsir þungum áhyggjum yfir þeirri þróun sem verið hefur í afkomu kúabænda síðustu misseri.

 

Fundurinn leggur þunga áherslu á eftirtalin atriði í ljósi þessara aðstæðna:

  • Brýnt er að grannt sé fylgst með verðþróun helstu kostnaðarliða í rekstri kúabúa og þær kostnaðarhækkanir sem mælast í verðlagsgrundvelli kúabús skili sér jafnharðan í mjólkurverði til framleiðenda.
  • Halda þarf áfram að leiðrétta verðtilfærslu við verðlagningu mjólkurvara og að heildsöluverðlagning einstakra mjólkurafurða endurspegli, eftir því sem mögulegt er, raunverulegan framleiðslukostnað.
  • Hinar margvíslegu hækkanir skatta og gjalda sem nýlega eru komnar til, svo sem auknar álögur á eldsneyti og bifreiðar, koma þungt niður á bændum og öðrum íbúum dreifbýlis, sem oft þurfa að fara um langan veg til að sækja þjónustu og rekstraraðföng. Þetta leiðir til hlutfallslega versnandi stöðu íbúa og atvinnurekstrar á landsbyggðinni og jafnframt hækkandi aðfangaverðs í landbúnaði. Ekki er líðandi að stjórnvöld ýti undir ójöfnuð meðal fyrirtækja og einstaklinga með þessum hætti.
  • Grundvallaratriði er að ekki sé óvissa um þau réttindi og þær skyldur sem fylgja greiðslumarki til mjólkurframleiðslu og/eða greiðslum á grundvelli samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.
  • Ekki verði frekari fjármunir fluttir af beingreiðslum yfir í aðra flokka mjólkursamningsins fyrr en í fyrsta lagi þegar verðtryggingarákvæði hans hafa að fullu tekið gildi á ný.
  • Hafnað er með öllu hugmyndum um breytingar á uppgjörsreglum vegna skiptingar ónýtts greiðslumarks milli framleiðenda við lok verðlagsárs, enda er slíkt einungis til þess fallið að auka óhagræði og óvissu í greininni.
  • Miklar aðfangahækkanir erlendis frá og auknar álögur opinberra aðila hafa lagst með auknum þunga á rekstur greinarinnar, án þess að náðst hafi að leiðrétta afurðaverð til samræmis. Þessu til viðbótar hefur greinin tekið á sig umtalsverðar skerðingar síðustu ár vegna búvörusamninga og niðurfellinga á mótframlagi ríkisins í lífeyrissjóð. Að auki bætist nú við kostnaður vegna stoðkerfis greinarinnar í kjölfar gríðarlegs niðurskurðar á framlögum vegna búnaðarlagasamnings.

 

Gunnar Sigurðssonspurði um breytingar á uppgjörsreglum á greiðslumarki í lok verðlagsárs og spurði hvernig þessar greiðslu væru núna.

 

Sigurður Loftssonútskýrði að ónýtt greiðslumark í lok árs er deilt niður á framleiðendur í réttu hlutfalli við greiðslumark framleiðenda. Sigurður vísaði í orð ráðherra um að þessari úthlutun yrði hugsanlega breytt. Taldi hann það varhugavert og til þess eins að auka flækjustig kerfisins.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 1.3 Búvörulög

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 leggur ríka áherslu á að tryggt verði úrræði í Búvörulögum til að ákvæði laganna um bann við markaðssetningu mjólkur utan greiðslumark á innanlandsmarkaði haldi, enda er það forsenda þess að hægt sé að tryggja lögboðið lágmarksverð til bænda.

Á rýnifundum um landbúnaðarmál í Brussel og í yfirlýsingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis frá júlí síðastliðnum kom fram að lagaleg staða umframmjólkur sé skýr og því leiki enginn vafi á að mjólk umfram greiðslumark skuli flutt úr landi. Til að framfylgja því þarf að setja útflutnings/úrvinnslugjald á mjólk utan greiðslumarks sem seld er á innanlandsmarkaði. Jafnframt þarf þó að tryggja nokkurt svigrúm vegna heimavinnslu.

 

Þórarinn Lárussonræddi heimavinnsluna og taldi að heimavinnsla ætti að vera innan greiðslumarks.

 

Magnús Hannessonlagði til breytingartillögu um að síðustu setningu tillögunnar yrði breytt.

 

Guðbjörg Jónsdóttirtaldi að það myndi styggja heimavinnsluaðila yrði þetta ákvæði tekið út.

 

Sigurður Loftssontaldi að rétt væri að halda setningunni inni. Vísaði hann til kröfu ráðuneytisins um að veita heimavinnslu svigrúm allt að 15.000 lítrum. Taldi hann slæmt ef fundurinn hafnaði þessari hugmynd. Taldi hann að þetta væri mikilvægt atriði til að tryggja framgang laganna.

 

Magnús Hannessondró tillögu sína til baka.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

Tillaga 1.4. Jarðalög

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 25. – 26. mars 2011, varar sterklega við hugmyndum um ábúðarskyldu á bújörðum og lögþvingaða notkun ræktarlands. Engin haldbær rök eru fyrir því að grípa þurfi til svo íþyngjandi og harkalegra aðgerða. Eðlilegt er að sú verndun lands sem nauðsynleg og óhjákvæmileg er til að tryggja möguleika til matvælaframleiðslu sé byggð á grunni skipulags- og byggingalaga.

 

Greinargerð:

Þegar sauðfjársamningur var undirritaður 1. október 1995, fylgdi honum sérstök bókun um nauðsyn þess að Jarðasjóður keypti þær jarðir sem bændur gætu ekki selt á frjálsum markaði. Það er því ekki svo langt síðan það var viðurkennt vandamál að jarðarverð væri of lágt og jarðir stundum óseljanlegar. Þá kom iðulega fyrir að inngrip í viðskipti með jarðir á grundvelli jarðalaganna frá 1976 voru dæmd ólögmæt og megn óánægja með ákvæði laganna varð til þess að þau voru tekin til endurskoðunar á Alþingi 2004. Þegar mælt var fyrir nýjum jarðalögum á Alþingi árið 2004, sagði m.a. í framsöguræðu landbúnaðarráðherra. ,,Með ákvæðum þessa frumvarps er stefnt að því að færa löggjöf um jarðir í átt til nútímans og að samræma eins og unnt er eignarrétt og umsýslu jarða þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir eru í gildandi löggjöf verulegar takmarkanir á ráðstöfunarrétti jarðeigenda og ýmsar kvaðir lagðar á þá sem geta verið mjög íþyngjandi og hafa oft í framkvæmd reynst ósanngjarnar. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bæta að nokkru leyti úr þessum annmörkum án þess að gengið sé lengra en þörf krefur“. Í frumvarpi þessu eru einnig nokkrar breytingar sem eiga rætur að rekja til þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert ýmsar athugasemdir við nokkur ákvæði jarðalaga nr. 65/1976 og telur þau brjóta gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið’’.

 

Niðurstaðan varð sú að lagafyrirmæli um viðskipti með jarðir tryggja að mörgu/flestu leyti sambærilegt umhverfi og gildir um viðskipti með aðrar fasteignir. Þannig gilda hliðstæð ákvæði um rétt bænda til að kaupa íbúð í þéttbýli og nýta hana að vild fyrir sig og sína fjölskyldu, eins og um rétt þéttbýlisbúa til að kaupa bújörð og nýta hana í samræmi við sínar þarfir. Leggja verður mikla áherslu á að á báðum stöðum gilda ákvæði skipulags- og byggingalaga sem eiga að leggja almennar línur um landnotkun. Sú verndun lands sem nauðsynleg og óhjákvæmileg er, m. a. til að tryggja möguleika til matvælaframleiðslu, hlýtur því að verða byggð á grunni skipulags- og byggingalaga.

 

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að land jarðar getur verið nýtt með margvíslegum hætti, hvort heldur er til matvælaframleiðslu, annars landbúnaðar eða tómstunda, hvort sem ábúð er á viðkomandi jörð eða ekki. Sá sem nýtir jörðina á þá sitt heimili þar sem hann telur heppilegast. Það er því rangt að ábúð á jörð sé forsenda nýtingar á landi viðkomandi jarðar til matvælaframleiðslu. Þá verður að geta þess að nútíma búrekstur krefst mun meira landrýmis en sá búrekstur sem stundaður var í landinu þegar það skiptist í jarðir og lögbýli. Af þessu leiðir að fjölmargir bændur eru háðir því að nýta fleiri eina bújörð í sínum rekstri, röskun á þessum sjálfsagða rétti vinnur því gegn búsetu og matvælaframleiðslu. Þá er jarðarstærð í sveitum mjög misjöfn og valdbeiting af þessu tagi myndi því koma því afar misjafnt niður eftir sveitum og héruðum. Meðal annars vegna þessa verður ekki betur séð en aðgerð af þessu tagi væri algjörlega í andstöðu við markmið samkeppnislaga. Þá er vandséð að slíkar þarflausar hindranir á nýtingu eignar fái samrýmst eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

 

Gróðurmoldin er mikilvægasti grunnur matvælaframleiðslu landbúnaðarins. Hana þarf að nýta af skynsemi og horfa bæði til framtíðar, og þess hvernig öðrum þjóðum hefur tekist til. Þess eru dæmi að þjóðir sem eiga frá náttúrunnar hendi frjósamt land, búi við fæðuskort. Óstjórn, en þó öllu fremur ofstjórn og virðingarleysi fyrir eignarréttinum og jafnvel öðrum mannréttindum, eru gjarnan helsta ástæða þess að slíkt gerist. Við lagasetningu er því mikilvægt að byggja á faglegum forsendum og læra af reynslu annarra þjóða.

 

Í umræðu um íslenskan landbúnað er hugtakið Matvælaöryggi æ oftar nefnt og er það eðlilegt. Matvælaöryggi/fæðuöryggi er hugtak sem hefur mikið innihald og vísar til grunnþarfa mannsins. Landssamband kúabænda varar alvarlega við að þetta mikilvæga hugtak sé gengisfellt með því tengja það um of við pólitíska vinda á hverjum tíma. Þetta er þvert á móti hugtak sem þarf að standa á faglegum grunni, ofar pólitísku dægurþrasi.

 

Landssamband kúabænda leggur mikla áherslu á að ef setja þarf einstaklingum og/eða fyrirtækjum skorður hvað varðar fjölda bújarða sem viðkomandi aðili getur átt, verði að gera það með sértækum ákvæðum um hámarksfjölda jarða sem sami aðili eða tengdir aðilar mega eiga, en ekki með ákvæðum sem valda fjölda venjulegs fólks stórfelldum vandræðum og eignaskerðingu.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Starfsnefnd 2 Valdimar Guðjósson

Tillaga 2.1 Málefni nautakjöts:

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 lýsir ánægju með batnandi afkomu nautakjötsframleiðslunnar á undanförnum mánuðum. Jafnframt er ljóst að erfið afkoma þessarar greinar nautgriparæktarinnar á undanförnum árum hefur haft þau áhrif að framboð sláturgripa nú um stundir er minna en æskilegt væri. Annar áhrifavaldur í því samhengi, er aukning á skyldleikahnignun holdakynjanna, sem torveldar orðið notkun þeirra í nautakjötsframleiðslunni. Það er því orðið brýnna en nokkru sinni fyrr að erfðaefni hérlendra holdanautakynja, sérstaklega Aberdeen Angus, verði endurnýjað svo fljótt sem verða má. Fundurinn hvetur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nú sem fyrr, að beita sér af festu og einurð fyrir því að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum í þeim nágrannalöndum okkar, þar sem heilbrigðisástand nautgripa er hvað best. Eðlilegt má telja að slíkur innflutningur yrði á vegum Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, sem er lykilaðili í framkvæmd kynbótastarfs nautgripa hér á landi.

 

Greinargerð

Frá því í júní 2010 hefur nautakjötsverð til framleiðenda hækkað um 15-20%. Það hefur því að nokkru leyti náð að vega upp gríðarlegar kostnaðarhækkanir undanfarinna ára, sérstaklega hækkanir á fóðri og áburði, sem enn sér þó ekki fyrir endann á. Er nú svo komið að framleiðendaverð hér á landi er nánast það sama og í Danmörku, þrátt fyrir að framleiðsluumhverfið sé á flestan hátt hagstæðara þar ytra. Einnig má benda á, að frá síðustu áramótum hefur framleiðendaverð Danish Crown hækkað um 10 af hundraði og hefur ekki verið hærra svo árum skiptir. Til þessa hefur framleiðsla og sala hér á landi verið í ágætu jafnvægi, en fyrstu tvo mánuði yfirstandandi árs hefur slátrun nautgripa dregist saman um 10% vegna minna framboðs sláturgripa. Árangursríkasta leiðin til að bregðast við slíkum aðstæðum er að auka hagræðingarmöguleika greinarinnar, sem leiða mun til bættrar afkomu og þar með aukinnar framleiðslu.

 

Nú eru liðin 17 ár síðan tveir hálfsystkinahópar Angus og Limousine gripa voru fluttir hingað til lands. Væntingar um gripi með betri og hagkvæmari kjötframleiðslueiginleika þessara gripa gengu eftir í öllum atriðum. Eins og gefur að skilja, er skyldleikahnignun farin að standa ræktun þessara kynja mjög fyrir þrifum, sem hefur mjög neikvæð áhrif á rekstur búanna. Endurnýjun erfðaefnisins myndi vega þar talsvert á móti, þar sem umtalsverðar framfarir hafa orðið í ræktun þessara kynja á hartnær tveimur áratugum. Þá er jafnframt ljóst að sú aðferðafræði sem viðhöfð var við innflutning þessara kynja á sínum tíma, kemur ekki til álita vegna mikils kostnaðar sem henni fylgir, auk þess sem hún er úr hófi tímafrek. Við núverandi efnahagsaðstæður er ljóst að ekkert svigrúm er til slíkra framkvæmda. Með breytingu á lögum um innflutning búfjár nr. 54/1990 í desember 2009 (lög nr. 118/2009) var gefið mikilvægt fordæmi í þeim efnum, þar sem var leyfður innflutningur á svínasæði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Notkun á norsku svínasæði hófst hér á landi í febrúar sl. og vænta svínabændur mikils af samstarfi við Norðmenn á sviði svínaræktarinnar. Eðlilegt er að hliðstæðar lagabreytingar verði gerðar gagnvart nautgriparæktinni, þar sem ekki verður við það búið að löggjafarvaldið skekki samkeppnisstöðu búgreinanna með þessum hætti.

 

Jón Gíslasonspurði stjórn hvort hún teldi líklegt að ráðherra veitti leyfi fyrir innflutninga á erfðaefni og hvort ekki væri skynsamlegra að leita til Bændasamtakanna um að leggja fram formlega umsókn um málið.

 

Sigurður Loftssonbenti á að sambærileg tillaga hefði verið samþykkt á síðasta aðalfundi og hún hefði verið kynnt fyrir ráðherra og henni ekki hafnað alfarið. Sigurður taldi eðlilegt að leita samstarfs við Bændasamtökin og Nautastöðina um framgang málsins og því fylgdi aukinn slagkraftur.

 

Jón Gíslasonbar fram breytingatillögu við tillögu 1 um nautakjötsframleiðsluna og bætti við setningunni  “Jafnframt felur fundurinn stjórninni að leita samstarfs við BÍ um að óska eftir innflutningi hldanautasæðis.”

 

Gunnar Jónsson benti á að lögum hefði verið breytt til að heimila innflutning svínasæðis.

 

Tillögunni frestað og vísað aftur til nefndar

 

 

Tillaga 2.2 Búnaðargjald:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011, leggur ríka áherslu á að unnin verði skilgreining á þeim þáttum starfsemi Bændasamtakanna, búnaðarsambandanna og búgreinasamtakanna sem kosta á af búnaðargjaldi. Fundurinn leggur áherslu á eftirtalda þætti í því sambandi:

  • Að skilgreina til hvaða verkefna búnaðargjaldi skuli varið.
  • Að fjárreiður þiggjenda búnaðargjalds verði skýrt aðgreindar með tilliti til þeirra tekna sem þeir hafa af því.
  • Að áfram verði leitað leiða til þess að lækka búnaðargjald í kjölfar eða samhliða endurskoðun á lögum um búnaðargjald.
  • Kannaðar verði leiðir til að fjármagna starfssemi Landssambands kúabænda með öðrum hætti en af búnaðargjaldi.

 

Sigurður Loftssonútskýrði að greina þyrfti í sundur til hvaða þátta í starfsseminni búnaðargjaldið færi og að allir geri sér grein fyrir til hvaða þátta gjaldið rennur og hvaða þættir eru fjármagnaðir á annan hátt.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 2.3. Tímasetning Búnaðarþings:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011hvetur stjórn Bændasamtakanna að endurskoða tímasetningu Búnaðarþings með það að markmiði að aðalfundum aðildarfélaganna sé lokið fyrir Búnaðarþing.  Af því leiðir að aðalfundir búgreinafélaga og búnaðarsambanda yrðu haldnir fyrr.

 

Greinargerð:

Mikilvægt er að inn á Búnaðarþing komi þau mál sem aðildarfélögin hafa fjallað um á aðalfundum sínum. Sem dæmi geta komið upp brýn mál á aðalfundum aðildafélaga LK sem ekki fá umfjöllun á Búnaðarþingi fyrr en að ári liðnu.

 

Guðrún Lárusdóttirbenti á að samskonar tillaga hefði komið fram á síðasta Búnaðarþingi en formaður BÍ hefði talið það nánast óframkvæmanlegt. Erfitt væri að koma á fundum aðildarfélaga, sérstaklega Búnaðarsambanda á fyrr en í mars-apríl.

 

Sveinbjörn Sigurðssonbenti á að honum fyndist þetta áríðandi mál og órökrétt að halda Búnaðarþing á undan fundum aðildarfélaga. Fagnaði hann tillögunni og hvatti til þess að þessi tillaga yrði samþykkt.

 

Þórir Jónssontók undir með Sveinbirni og lagði áherslu á að tillagan yrði samþykkt.

 

Gústaf Jökull Ólafssontók undir með Sveinbirni og Þóri að eðlilegt væri að fyrst yrði fundað í búnaðarfélögum og Búnaðarsamböndum. Benti hann þó á að vegasamgöngur væru með þeim hætti á Vestfjörðum að ekki sé hlaupið að því að halda aðalfundi fyrri hluta árs vegna ófærðar.

 

Sigurgeir Hreinssonbenti á ríka hefð fyrir fundartíma Búnaðarþings m.a. vegna umsagnar um frumvörpsdrög. Þá nefndi hann þá takmörkun að mál þurfi að koma fram 6 vikum fyrir Búnaðarþing. Taldi hann það ríflegt og að ekki væri óframkvæmanlegt að Búnaðarþingi yrði seinkað til mánaðarmóta mars-apríl. Taldi hann flesta sammála því að rökrétt væri að halda Búnaðarþing í kjölfar aðildarfélagafunda.

 

Sigmundur Sigmundssonáréttaði erfiðar samgöngur á Vestfjörðum. Venjulega hafði aðalfundur Búnaðarsamtaka Vestfjarða verið í júní en í ár er hann auglýstur í apríl sem þykir framúrstefnulegt. Sigmundur taldi það hins vegar rökrétta uppröðun að funda fyrst í aðildarfélögum. Benti Sigmundur á þann möguleika að nota fjarfundabúnað.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 2.4. Fóðureftirlit:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 mótmælir framkominni breytingu á fóðureftirliti hjá bændum sem birtist í bréfi til bænda í Ölfusi, Ásahreppi og Rangárþingi eystra dags. 3.mars sl. Um er að ræða verulega breytingu á framkvæmd fóðureftirlits frá því sem nú er.

 

Fundurinn átelur einnig að enginn fyrirvari né kynning var meðal bænda um þessa breytingu, en bændur munu eftirleiðis kallast fóðurframleiðendur samkvæmt bréfi MAST frá 3.mars sl.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 2.5. Kynningarmál:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 beinir því til stjórnar LK að taka öll kynningarmál búgreinarinnar til skoðunar. Meðal annars með því að gera heimasíðu LK enn virkari og fullvinna fréttir á hana með möguleikum til áframsendinga.

 

Greinargerð:

Þörf er á öflugri kynningu á málefnum kúabænda þar sem reynslan sýnir að erfitt er að fá fjölmiðla til að birta greinar sem skýra sjónarhorn bænda.Nýta þarf þær rafrænu leiðir sem til eru, með það að leiðarljósi að ná beint til almennings án ritskoðunar fjölmiðla.

 

Baldur Helgi Benjamínssonbað fundamenn að skýra betur hvað átt væri við með tillögunni og taldi að allt hefði komið til framkvæmda sem í henni fælist. Ný síða væri komin í loftð og aukin virkni m.a. með ráðningu Snorra Sigurðssonar.

 

Jón Gíslason taldi að vel hefði tekist til með síðu LK og að oft hefði verið vitnað í síðuna í öðrum fjölmiðlum.

 

Baldur bætti við að skv. fjölmiðlavöktun hefði umferð og notkun annara fjölmiðla aukist mikið.

 

Valdimar Guðjónssontók fram að í tillögunni felist ekki gagnrýni en fremur brýning til stjórnar.

 

Ákveðið var að fresta afgreiðslu tillögunnar og vísa henni aftur til nefndar

 

Framhald á tillögum frá Starfsnefnd 1 –Guðrún Lárusdóttir

Tillaga 1.2. Verðlagsgrundvöllur

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011, telur að núverandi verðlagskerfi mjólkurafurða þarfnist gagngerrar endurskoðunar eigi það að gegna því lögbundna hlutverki sínu að tryggja bændum viðunandi afkomu. Í því sambandi leggur fundurinn áherslu á að verðlagsgrundvöllurinn verði endurskoðaður svo hann endurspegli raunverulegan framleiðslukostnað mjólkur

 

Sigurður Loftsson taldi tillöguna ekki nógu skýra og spurði hvað átt væri við með því að verðlagskerfið þarfnist gagngerrar endurskoðunar. Þá spurði hann hvort kerfið væri ómögulegt eða hvort vinnufyrirkomulagið væri gallað.

 

Jón Gíslason rakti forsögu tillögunnar úr Borgarfirði og lýsti mikilli óánægju Borgfirðinga með niðurstöðu veðlagsnefndar. Þá benti hann á að í upphaflegu tillögunni hefði verið árétting á því að verð þyrfti að hækka örar.

 

Eiríkur Egilsson sagðist vilja sjá einhverjar tillögur um leiðir til að komast út úr hægagangi núverandi kerfis. Allar aðfangahækkanir kæmu jafnóðum og hráefni hækka en verð til bænda hækki seint og um síðir. Eiríkur nefndi möguleika þess að skipa gerðardóm náist ekki niðurstaða í verðlagsnefnd í stað þess að þvæla málinu mánuðum saman í verðlagsnefnd.

 

Gunnar Sigurðsson sagðist ósammála tillögunni og taldi hana bændum og samningsstöðu þeirra ekki til framdráttar.

 

Jóhann Nikulásson taldi nauðsynlegt að ræða tillöguna með tilliti til þeirrar umræðu að núverandi kerfi væri ómögulegt.

 

Elín B. Sveinsdóttir sagðist ósammála tillögunni og taldi ekki nóg að gagnrýna kerfið, megin vandamálið væri hversu seint hækkanir kæmu. Of viðkæmt væri að taka verðlagsgrundvöllinn upp en fremur að leggja áherslu á örari hækkanir.

 

Jóhann benti á að nú væri nýbúið að samþykja kjaramálaályktun þar sem komið væri inná flesta umrædd þætti.

 

Þórir Jónsson lýsti þeim skilningi sínum að vinna í verðlagsnefndinni tæki til fleiri þátta en verðlagsgrundvallarins og horft væri á mjólkurverðshækkanir með tilliti til umhverfisins í heild.

 

Jón Gíslason bar fram eftirfarandi breytingartillögu frá starfsnefnd:

 

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011, beinir því til stjórnar LK að verðlagsgrundvöllur verði endurskoðaður svo hann endurspegli raunverulegan framleiðslukostnað mjólkur.

 

Tillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur mótatkvæðum.

 

Fundarstjóri tilkynnti að Arnheiður B. Einarsdóttir Guðnastöðum varamaður tæki sæti Guðbjargar Jónsdóttur.

 

Framhald á tillögum frá Starfsnefnd 3 –Þórarinn Lárusson

Tillaga 3.3 Kvótamarkaður –tillaga tekin aftur fyrir.

 

Eiríkur Egilssonflutti breytingartillögu um að markaðsdagar verði fjórir og þrír á yfirstandandi ári.

 

Samúel U. Eyjólfssonlýsti sig andvígan breytingatillögunni og taldi að það yrði MAST ofviða að framkvæma fjóra markaðsdaga.

 

Breytingatillaga borin upp til atkvæða.

Felld með 21 gegn 13

 

Tillaga borin upp og samþykkt samhljóða

 

Tillaga 3.6  Útdeiling á ónýttu greiðslumarki

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 25. og 26. mars 2011 mótmælir harðlega fram komnum hugmyndum sjárvarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingu á reglum um útdeilingu á ónýttu greiðslumarki.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

Framhald á tillögum frá Starfsnenfd 2 -Valdimar Guðjónsson

Tillaga 2.1 Málefni Nautakjöts

Tillaga flutt  óbreytt eftir frestun.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 2.5 Kynningarmál

Valdimar flutti eftirfarandi breytingartillögu.

Aðalfundur Landssambands Kúabænda haldinn á Akureyri 25.-26.mars 2011 fagnar því að heimasíða LK, naut.is sé vel virk.

Fundurinn hvetur bændur til að nýta möguleika síðunnar til kynningar á málefnum kúabænda.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

Tillaga 2.6. Kynbótastarf

Aðalfundur Landssambands Kúabænda haldinn á Akureyri 25.-26.mars 2011 beinir því til Fagráðs í nautgriparækt að bæta skráningu á skapeiginleikum og mjöltum. Þá verði hugað meira að þessum eiginleikum og júgurgerð við val á kynbótagripum.

Einnig þarf að nýta betur skráðar upplýsingar úr rafrænum mjaltakerfum.

 

Jón Gíslason lagði fram breytingatillögu um að bæta mat á skapeiginleikum í stað þess að bæta skráningu. Þá nefndi hann framkomnar tillögur um að hætt verði að kynbæta fyrir þessum eiginleikum en hann varaði við því. Lykilatriði væri að bæta mat og þar með arfgengi.

 

Gústaf Jökull Ólafsson sagðist vilja hafa möguleika á að skrá skapeiginleika í Huppu.

 

Valgerður Kristjánsdóttirvildi hnykkja á því að skráningin fari fram í skýrsluhaldskerfinu.

 

Sigurgeir Hreinsson benti á að hugmyndin væri sú að skrá skap í Huppu. Benti hann á að skapeiginleikinn væri mjög flókinn. Þá benti Sigurgeir á að erfitt væri að koma öllum eiginleikum fyrir í kynbótaúrvalinu. Ræddi hann að umræða hefði verið um að auka áherslu á júgur og spena á kostnað skapsins en gefa áfram einkunn fyrir skap. Taldi hann viðbrögð bænda með þeim hætti að ekki væri stuðningur við slíkar breytingar

 

Bóel Anna Þórisdóttir flutti breytingatilllögu um að bæta aðferð við skráningu

 

Samúel U. Eyjólfsson taldi erftt að gefa upp skapeinkunn þar sem skalinn væri þröngur og mest væru tvær einkunnir notaðar.

 

Gunnar Sigurðsson tók undir með Samúel. Nefndi hann að mikilvægt væri að skilgreina eiginleikann þannig að hann snérist um það hvernig gengi að ná mjólkinni úr kúnni.

 

Magnús Hanesson taldi skynsamlegt að skrá við fyrstu mjaltir og að mikilvægt væri að aðgreina almenna umgengni og skap í mjöltum.

 

Jón Gíslason vísaði þvi til Fagráðs i nautgriparækt að halda ráðstefnu um kynbætur mjólkurkúa.

 

Eftirfarandi tillaga borin upp:

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 25.-26.mars 2011 beinir því til Fagráðs í nautgriparækt að bæta aðferð við mat og skráningu á skapeiginleikum og mjöltum. Þá verði hugað meira að þessum eiginleikum og júgurgerð við val á kynbótagripum.

Einnig þarf að nýta betur skráðar upplýsingar úr rafrænum mjaltakerfum.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 2.7 Sæðingastarfsemi:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri dagana 25.-26. mars 2011

lýsir yfir stuðningi við  ályktun nýliðins Búnaðarþings varðandi jöfnum sæðingarkostnaðar:

 

Markmið
Aukinn jöfnuður á kostnaði bænda vegna kúasæðinga óháð búsetu.

Leiðir
Fjármunum úr búnaðarlagasamningi sem ætlaðir eru til kynbótastarfs í nautgriparækt verði skipt með það að leiðarljósi að jafna kostnað við kúasæðingar yfir landið.
Framgangur
BÍ og LK skipi verkefnishóp sem skili tillögum það tímanlega að mögulegt verði að gera árið 2011 upp samkvæmt nýju fyrirkomulagi.

 

Pétur Diðrikssontaldi að aðferðafræðin við framganginn væri hæpinn þar sem erfitt væri að láta tillöguna ganga afturvirkt. Pétur flutti eftirfarandi breytingatillögu:

 

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri dagana 25.-26. mars 2011 hvetur stjórn BÍ að hlutast til að þeim fjármunum sem úr Búnaðarlagasamningi koma og ætlaðir eru til kynbótastarfs í nautgriparækt verði deilt út með það að leiðarljósi að jafna kostnað við kúasæðingar.

 

Gunnar Jónssonlýsti sig ósammála Pétri. Sagði tillöguna hafa verið samþykkta í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu á Búnaðarþingi og lagði það til að tillaga Péturs yrði felld.

 

Guðný Helga Björnsdóttirnefndi að stjórn BÍ hefði þegar fjallað um tillöguna og falið Magnúsi B. Jónssyni og Baldri Helga að fjalla um málið og gera tillögu um framhaldið.

 

Jóhann Nikulássontaldi að tillögurnar væru efnislega eins og hann taldi málið snúast um það hvort menn stæðu saman að tillögu.

 

Sigurgeir Hreinssonlagði til að greitt yrði atkvæði með tillögu Péturs og benti á að Búnaðarþingstillagan stæði. Þá taldi hann málið ekki flókið í uppgjöri búnaðarsambanda.

 

Breytingartillagan borin upp og samþykkt með 23 atkvæðum gegn 13

 

Tillaga 2.8 Lyfja- og dýralæknaþjónusta:

Aðalfundur Landssambands Kúabænda haldinn á Akureyri 25 og 26 mars 2011 beinir því til MAST að séð verði til þess að fækkun héraðsdýralækna skerði ekki þá þjónustu sem bændum hefur staðið til boða frá dýralæknum. Einnig verði bændum treyst til að eiga lyf til að geta hafið meðferð á grip í samráði við dýralækni með velferð dýra í huga líkt og er í nágrannalöndum.

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

Tillaga 2.9 Samþykktarbreytingar

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 25 og 26 mars 2011 samþykkir eftirfarandi breytingar á nöfnum aðildafélaga.

 

3. gr.

3.1. Rétt til aðildar að LK hafa öll svæðisbundin félög nautgripabænda á landinu, enda fari samþykktir þeirra ekki í bága við samþykktir LK. Aðildarfélög LK skulu vera sjálfstæð. Þau skulu setja sér samþykktir og halda félagatal.

Aðildarfélög LK eru eftirtalin:

 

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi
Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum
Nautgriparæktarfélag Vestur Húnavatnssýslu
Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu
Félag kúabænda í Skagafirði

Félag eyfirskra kúabænda
Félag Þingeyskra kúabænda
Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum
Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar
Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftfellinga
Félag kúabænda á Suðurlandi

 

Sigurður Loftssonskýrði að í kjölfar samþykkta síðasta aðalfundar hefði verið ákveðið að gera meiri kröfur um aðildarfélög LK. Einungis væri um það að ræða að ný félög hefðu verið stofnuð á grunni gömlu félaganna í ljósi aukinna krafna.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

9. Önnur mál

Stefnumörkun LK kynning úr nefndum

 

Starfsnefnd 1-Jón Gíslason

Kafli 2 Mjólkurframleiðsla

Kafli 7 Fræðsla rannsóknir og ráðgjöf

 

Starfsnefnd 2 -Þórarinn Leifsson

Kafli 3 Úrvinnsla og markaðsmál mjólkur

Kafli 5 Ytra umhverfi greinarinnar

 

Starfsnefnd 3 –Valdimar Guðjónsson

Kafli 4 Nautakjötsframleiðslan

Kafli 6 Félagskerfi kúabænda

 

 

2. Mjólkurframleiðsla

Markmið:

  • Bæta afkomu kúabænda.
  • Að lækka breytilegan kostnað meðalbúsins um 5% fyrir árið 2015 og önnur 5% fyrir árið 2020.
  • Breyta kvótakerfinu þannig að stuðningur ríkisins nýtist mjólkurframleiðslunni betur.
  • Tryggja að bændur hafi aðgang að landi til að stunda sína framleiðslu.
  • Standa vörð um landbúnaðarland
  • Bæta kúastofninn með bestu mögulegu aðferðum.

 

Leiðir:

  • Efla rekstrarvitund kúabænda með auknu upplýsingaflæði:
  • frá þeim bændum sem náð hafa bestum árangri.
  • Tryggja öflugri leiðbeiningaþjónustu og ráðgjöf.
  • Tengja saman rekstrargögn og skýrsluhaldsgögn í Huppunni.
  • Útbúa staðlaðar lykiltölur með helstu kennitölum frá rekstri kúabúa á landsgrunni og búsgrunni til þess að auðvelda samanburð á milli búa.
  • Taka upp skipulagða vinnutímaskráningu amk.  5% kúabúa.
  • Hámarka nýtingu fastafjármuna í greininni, m.a. með samnýtingu tækja og verktöku.
  • Tryggja að ekki komi til takmarkanir á bústærðir m.a. svo fullnýta megi fjárfestingar í greininni.
  • Vinna að breytingu á kvótakerfinu þannig að ríkisstuðningur nýtist betur til lækkunnar framleiðslukostnaðar.
  • Vekja þarf athygli sveitarfélaga á möguleikum þeirra til að stuðla að skynsamlegri landnýtingu.
  • Gera skal úttekt á kostum þess og göllum að taka upp skipulagða blendingsrækt í íslenska kúastofninum. Úttektinni skal vera lokið fyrir aðalfund LK 2012.
  • Óska eftir samstarfi við ræktunarsamtökin VikingGenetics og Geno á Norðurlöndunum.

 

 

3. Úrvinnsla og markaðsmál mjólkur

Markmið:

  • Að bjóða jafnan fyrsta flokks vörur á hagstæðu verði, með það í huga að hámarka markaðshlutdeild íslenskra mjólkurafurða á íslenskum matvælamarkaði gagnvart annarri íslenskri matvælaframleiðslu og gagnvart innfluttum mjólkurafurðum.
  • Að hámarka sölu mjólkurhráefnis, hámarka skilaverð til bænda og tryggja að mjólkuriðnaðurinn vaxi með arðbærum hætti.
  • Að jafna aðstöðu kúabænda gagnvart markaði, hvar sem þeir búa á landinu.

 

Leiðir:

·         Vinna markvisst að vöruþróun sem þjónar þörfum markaðar.

·         Auka hagkvæmni í mjólkuriðnaði með því að hámarka nýtingu tækja og mannafla í flutningakerfum, vinnslu, sölu- og stjórnunarþáttum.

·         Auka sérhæfningu og fækka framleiðslulínum eins og hagkvæmt er.

·         Vinna að bættri hráefnisnýtingu í vinnslunni.

·         Einfalda stjórnkerfi í iðnaðinum.

·         Byggja markvisst upp vörumerki sem tengjast uppruna hráefnis.

·         Vinna að því að framlegðarskekkja á þeim vörum sem verðlagsnefnd ákvarðar verði að fullu leiðrétt á árinu 2013.

·         Treysta forræði kúabænda í mjólkuriðnaði og það jafnvægi sem nú ríkir milli framleiðslu/vinnslu og  smásölu með því að styrkja skilning kúabænda, stjórnvalda og neytenda á mikilvægi þess fyrirkomulags sem ríkir í framleiðslustýringu og verðlagningu.

·         Treysta samstöðu kúabænda um afurðafyrirtæki þeirra og byggja upp liðsheild.

·         Vinna að því að viðhalda stuðningi við tolla á erlendar landbúnaðarafurðir með fyrirheitum um hagræðingu í greininni.

·         Þróa skipulag fyrirtækjanna í greininni áfram og meta vaxtarmöguleika á nýjum mörkuðum erlendis og í tengdum greinum innanlands.

·         Vinna að þróun vörumerkja fyrir útflutningsmarkað, einkum tengt skyrframleiðslu.

·         Treysta fyrirkomulag mjólkursöfnunar sem jafnar flutningskostnað kúabænda hvar sem þeir búa.

·         Treysta fyrirkomulag afurðadreifingar sem jafnar markaðskostnað bænda hvar sem þeir búa.

 

4. Nautakjötsframleiðslan

Markmið

  • Framleiðsla nautakjöts geti staðið sem sjálfstæð atvinnugrein, verið arðbær og tryggt neytendum aðgengi að úrvalsvöru, framleiddri á Íslandi.
  • Auka markaðshlutdeild nautakjötsins á innlendum markaði.

 

Leiðir

  • Líta á framleiðslu nautakjöts sem sérstæða búgrein en ekki alfarið sem viðhengi með mjólkurframleiðslu.
  • Stunda markvissa vöruþróun og markaðssetningu til að mæta kröfum neytenda á hverjum tíma.
  • Flokkun og merking vörunnar sé neytendavæn og skili sér alla leið frá framleiðanda til neytanda. Stefnt skal að upptöku EUROP matskerfis á nautgripakjöti fyrir árslok 2012.
  • Með öflugum leiðbeiningum skal stuðlað að því að a.m.k. 15% skrokka af ungnautum fari í R flokk árið 2016.
  • Auka tengsl framleiðenda og neytenda þannig að samspil markaðar og framleiðslu verði sem best.
  • Aukin áhersla verði lögð á heimavinnslu nautgripakjöts og sölu þess beint frá býli.
  • Tryggja að greinin búi við sambærilegar aðstæður af hálfu opinberra aðila eins og gerist í nágrannalöndum okkar. Aðgengi að erfðaefni til kynbóta verði sambærilegt og í öðrum kjötgreinum.
  • Stefna að 10% styttingu á eldistíma miðað við óbreyttan fallþunga.
  • Hagræða í slátrun og úrvinnslu nautgripakjöts. Eignarhald afurðastöðva verið tekið til ítarlegrar athugunar.
  • Að kjöt sem fellur til af kúm í mjólkurframleiðslu verði nýtt á sem hagkvæmastan hátt bæði fyrir framleiðendur og neytendur.
  • Að ýta undir fjölbreytni við afsetningu nautakjöts s.s. með beinni sölu og heimavinnslu nautakjöts.

 

5. Ytra umhverfi greinarinnar

Markmið

  • Að standa vörð um íslenskan landbúnað
  • Að viðhalda góðu heilbrigði búfjár og nytjaplantna
  • Að draga úr þörf mjólkurframleiðslunnar fyrir jarðefnaeldsneyti

 

Leiðir

  • Móta þarf stefnu sem horfi til lengri tíma, þar sem hagsmunir landbúnaðarins og matvælaöryggi þjóðarinnar verði haft að leiðarljósi.
  • Fræðsla til þeirra sem ferðast til og frá landinu um varnir gegn búfjársjúkdómum
  • Gera úttekt á því með hvaða hætti hægt sé að nýta hauggas (metan) sem sjálfbæran orkugjafa, sem lækki um leið orkukostnað búanna.

 

6. Félagskerfi kúabænda

Markmið:

  • Einfalt, skilvirkt félagskerfi sem tryggir hámarksárangur með lágmarks tilkostnaði.
  • Tryggja eðlilega tekjustofna til hagsmunagæslu.
  • Öflug afurðasölufélög með eignaraðild bænda.

 

Leiðir:

  • Móta félagskerfið út frá þörfum hvers tíma og að horft sé til framtíðar.
  • Leita leiða til að fjármagna hagsmunagæslu samtakanna með öðrum hætti en búnaðargjaldi.
  • Hafa langtímasjónarmið og heildarhagsmuni að leiðarljósi við afurðavinnsluna.
  • Skipulag afurðavinnslu miðist við að auka samkeppnishæfni hennar gagnvart innflutningi og möguleika til að mæta fákeppni á smásölustigi.

 

7. Fræðsla, rannsóknir og ráðgjöf

Fræðsla

Markmið:

  • Að kúabændur hafi hliðstætt eða betra menntunarstig en aðrar faggreinar í þjóðfélaginu.
  • Sem stærstur hluti þeirra verði búfræðimenntaður og hluti þeirra með háskólamenntun í faginu.
  • Að kúabændur hafi góða alhliða faglega þekkingu á starfsgreininni.
  • Að undirstöðumenntun kúabænda geri þeim kleift að afla sér símenntunar.
  • Að kúabændum standi til boða sérhæfðar fjarnámsleiðir í nautgriparækt.

 

Leiðir:

  • Búfræðinám við LBHÍ verði hluti náms til stúdentsprófs eigi síðar en árið 2013.
  • Búfræðibraut Landbúnaðarháskóla Íslands verið tryggt fjármagn og aðstæður til að sinna kennslu í nautgriparækt af fagmennsku og metnaði bæði staðbundið, með fjarnámi og námskeiðum.
  • Tryggðir verði möguleikar skólans til erlendrar samvinnu bæði fyrir kennara og nemendur þar með möguleikar nemenda á fjölbreyttu verknámi á nautgriparæktarbúum hérlendis og/eða erlendis. Einnig möguleikar nemenda á háskólastigi til að kynnast og hafa aðgang að námi í erlendum háskólum.
  • Efla fjarnám fyrir starfandi bændur og leggja áherslu á að allt sérhæft námsefni greinarinnar sé aðgengilegt á netinu fyrir starfandi kúabændur fyrir árið 2013, ásamt fjölbreyttu úrvali fagefnis.
  • Að kúabændum standi til boða sérhæfð námsleið í fjarnámi sambærileg námsleiðunum „Reiðmaðurinn“ og „Sáðmaðurinn“ fyrir árið 2014.
  • Leitast við að fá færustu sérfræðinga, hérlendis og erlendis, á hverjum tíma til kennslu.

 

Rannsóknir

Markmið:

  • Að rannsóknastarfssemin leytist við að gera íslenska nautgriparækt samkeppnishæfa við það sem gerist í nágrannalöndunum með því að leggja áherslu á hagnýtar rannsóknir auk nýtingar á erlendri þekkingu.

 

Leiðir:

  • Að greina hvaða vandamál eru mest mótuð af íslenskum aðstæðum og þarfnast því sérhæfðra innlendra lausna og hver séu meira alþjóðleg og megi leysa með yfirfærslu þekkingar frá öðrum löndum. Fagráði í nautgriparækt verði falið að vinna greinargerð um málið fyrir árslok 2011 þar sem áhersla verði lögð á efnahagslegt mikilvægi.
  • Að útbúa tímasetta rannsóknaáætlanir, annarsvegar til ársins 2015 og hinsvegar langtímaáætlun til ársins 2018 byggða á grundvelli greinargerðar Fagráðs, þar sem verkefnum er forgangsraðað eftir hagnýtu vægi fyrir búgreinina.
  • Að tryggja öflugt fagstarf í nautgriparækt og samræmda vinnu stofnanana á sviði rannsókna svo nýta megi rannsóknafjármagn sem allra best. Þetta verði gert með því að virkja Fagráð í nautgriparækt enn betur en nú er gert.
  • Að til sé listi yfir möguleg námsverkefni fyrir lokaverkefni í háskólanámi, þannig að nemendur geti valið á milli verkefna sem koma greininni til góða.

 

Ráðgjöf

Markmið:

  • Að tryggja að kúabændur hafi aðgang að aðilum með hágæða fagþekkingu á hinum fjölbreyttu fagsviðum sem reksturinn tekur yfir.
  • Að hver rekstraraðili geti sjálfur valið hvar hann sækir sér sína ráðgjöf, hvort sem það er hér innanlands eða erlendis.

 

Leiðir:

  • Að hvetja til samþættingar og frekari sameiningar svo hér á landi verði til ein öflug stofnun/fagaðili sem vinni að miðlun þekkingar og ráðgjafar í nautgriparækt.
  • Að tryggja að eftirspurn eftir fagþjónustu verði nýtt til að móta þjónustuna.
  • Að efla og styrkja framleiðendaþjónustu afurðastöðvanna í samstarfi við ráðgjafaþjónustu landbúnaðarins, sér í lagi ráðgjöf varðandi gæði afurða, framleiðsluaðferðir og aðra þætti sem beintengdir eru afurðunum.
  • Að efla og styrkja samstarf við erlenda fagaðila á þeim rekstrarsviðum nautgriparæktar sem erfitt er að veita hágæða þjónustu í hér á landi.
  • Fagráð í nautgriparækt skili úttekt á þörfinni til stjórnar LK fyrir lok september 2011. LK, í samstarfi við BÍ, gangist svo fyrir gerð þjónustusamninga við þar til bæra aðila á árinu 2012.

 

 

Sigurður Loftssonþakkaði fundinum mikla vinnu við stefnumörkunina og sagði að hún yrði leiðarljós stjórnar við frágang stefnumörkunarinnar.

 

Lögð var fram tillaga um að vísa stefnumörkuninni til stjórnar.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

10. Reikningar LK 2010 –Baldur Helgi Benjamínsson

Tekjur vegna búnaðargjalds lækkuðu verulega á milli ára og námu 40.052.257 kr árið 2010 og tekjur úr Framleiðsluráðssjóði námu 3.175.640 kr. Laun og launatengd gjöld námu 19.305.468 kr, annar rekstarkostnaður nam 38.505.432 kr og afskriftir voru 320.000 kr. Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði varð neikvæð um 14.903.003 kr, Fjármagnstekjur námu 1.560.776 kr og afkoma ársins varð -13.342.227 kr.

 

Reikningarnir samþykktir samhljóða

 

11. Fjárhagsáætlun 2011 og tillaga um laun -Baldur Helgi Benjamínsson

Gerð tillaga að eftirfarandi launum árið 2011

Formaður stjórnar föst laun 221.512 kr

Greiddir dagpeningar fyrir einstaka fundi

 

Stjórn föst laun 36.878 kr

Dagpeningar greiddir fyrir einstaka fundi

Aðalfunarfulltrúar

Þóknun pr. fundardag 17.000 kr

Dagpeningar fyrir funda- og ferðadaga 19.100 kr

Greiddur verði ferðakostnaður fulltrúa

Fulltrúar greiði sjálfir annan kostnaði s.s. gistingu og árshátíð

 

Séu stjórnarmenn og búnaðarþingsfulltrúi ekki kjörnir fulltrúar fá þeir sömu greiðslu vegna setu á aðalfundi og kjörnir fulltrúar.

 

Spurt var hvort um væri að ræða eðlilegan mun á milli launa stjórnar og launa formanns. Fram kom athugasemd um að laun stjórnar væru helst til lág.

 

Launamál samþykkt samhljóða

 

Fjárhagsáætlun 2011  lögð fram

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að tekjur LK á árinu 2011 nemi 50.800.000 kr og gjöldin 50.270.000 kr. Afkoma fyrir fjármagnsliði er áætluð 530.000 kr og fjármagnstekjur áætlaðar 1.000.000 kr. Afkoma ársins 2011 er því áætluð 1.530.000 kr.

 

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

 

12. kosningar –Magnús Sigurðsson formaður uppstillingarnefndar

Tillögur uppstillingarnefndar

Formaður:

Sigurður Loftsson

 

Meðstjórnendur:

Guðný Helga Björnsdóttir

Jóhann Gísli Jóhannsson

Jóhann Nikulásson

Sveinbjörn Sigurðsson

 

Aðar tillögur um stjórnarmenn:

Jóhanna Hreinsdóttir

Valgerður Kristjánsdóttir

Anna Jónsdóttir

 

Niðurstaða kosninga

Formaður kjörinn

Sigurður Loftsson með 37 atkvæðum

3 seðlar auðir.

 

Meðstjórnendur kjörnir:

Guðný Helga Björnsdóttir 38 atkv

Sveinbjörn Sigurðsson 38 atkv.

Jóhann Nikulásson 35 atkv.

Jóhann Gísli Jóhannsson 29 atkv.

 

Aðrir

Anna S. Jónsdóttir 11 atkv.

Jóhanna Hreinsdóttir 6 atkv.

Valgerður Kristjánsdóttir 2 atkv.

Magnús Hannesson 1 atkv.

 

Varamenn kjörnir

Jóhanna Hreinsdóttir 33 atkv

Guðrún Lárusdóttir 20 atkv.

 

Aðrir

Anna Jónsdóttir 19 atkv.

Valgerður Kristjándóttir

 

Skoðunarmenn kjörnir

Katrín B. Viðarsdóttir

Pétur Diðriksson

Elín B. Sveinsdóttirtil vara

 

13. Önnur mál

 

Jóhann Gísli Jóhannsson tók til máls og þakkaði stuðninginn.

 

Sigurgeir Hreinsson þakkaði stjórninni samstarfið.

 

Sigurður Loftsson þakkaði Sigurgeiri samstarfið og bauð Jóhann Gísla velkominn í stjórnina. Hann þakkaði kosninguna fyrir sína hönd og samstarfsmanna sinna og þá eindrægni sem þau fengu í veganesti frá fundinum. Sigurður þakkaði fundarstjórum og starfsmönnum fundarins. Að lokum þakkaði Sigurður framkvæmdastjóra LK fyrir hans störf, fundarmönnum vinnuna og fundarsetuna og sleit fundi.

 

Ingvar Björnsson, fundarritari