Beint í efni

Aðalfundi LK verður sjónvarpað beint !

16.03.2005

Í gær var gengið frá samkomulagi um beinar sjónvarpsútsendingar frá aðalfundi LK. Áætlað er að sjónvarpa á netinu öllum fyrri degi aðalfundarins og munu því kúabændur um allt land, og aðrir áhugasamir, geta fylgst með setningu, ávörpum gesta og eldhúsdagsumræðum þrátt fyrir að sitja ekki fundinn, sem að þessu sinni verður haldinn á Hótel Selfossi. Þá verður mögulegt að spila á hvaða tíma sem er áðurnefndar

umræður og/eða ávörpi, með því að smella á sérstaka hlekki á vef LK. Jafnframt er ráðgert að sjónvarpa umræðum frá seinni degi fundarins. Það er fyrirtækið Nepal hugbúnaður ehf. sem mun sjá um alla tæknivinnu í sambandi við þessar beinu útsendingar.

 

Það hefur verið skýr stefna LK undanfarin ár að halda umbjóðendum sýnum eins vel upplýstum um innri mál greinarinnar og unnt er á hverjum tíma og með þessu móti gengur stjórn LK enn lengra í sömu átt. Nú munu kúabændur geta, hvar sem þeir eru staddir á landinu, haft strax samband við sína talsmenn og fulltrúa, ef þeir telja þörf á og má þá segja að fulltrúalýðræðið verði nú eins virkt og hægt er að ætlast til af því formi.