Beint í efni

Aðalfundi LK lauk í gærkvöldi

23.08.2001

Aðalfundi LK lauk í gærkvöldi með endurkjöri stjórnar og formanns félagsins. Mörg málefni voru rædd á fundinum og báru hæst málefni Goða, innflutningur fósturvísa, sæðingastarfsemin og málefni leiðbeininga, rannsókna og kennslu í nautgriparækt á Íslandi.

 

 

Mikil óánægja með Goða hf.

Á fundinum var m.a. samþykkt ályktun til stjórnar LK um að hún hlutist til um að unnin verði ítarleg greinargerð um starfsemi Goða hf., nú Kjötumboðsins hf., síðustu misseri. Þar verði m.a. leitt í ljós hvernig staðið var að stofnun og síðan rekstri félagsins og ákvörðunum um að taka við sláturgripum eftir að ljóst mátti vera að ekki yrði hægt að greiða bændum fyrir afurðirnar. Margir fundarmanna töldu að þarna hafi verið um saknæmt athæfi að ræða og því var ennfremur samþykkt að ef fram komi vísbendingar um saknæmt athæfi verði farið fram á opinbera rannsókn. Á fundinum var mikil samstaða meðal fundarmanna um þetta efni, enda höfðu margir þeirra persónulega reynslu af viðskiptum við Goða hf síðustu misseri.

 

Sæðingastarfsemi í vanda

Fram kom á fundinum að í ljósi lækkandi opinberra framlaga til nautgripasæðinga, samhliða auknum kostnaði við sæðingarnar sjálfar, muni brátt draga verulega úr notkun sæðinganna. Þróun af þessu tagi gæti þannig orðið verulegur hnekir fyrir kynbótastarfið, sem stendur og fellur með þátttöku i sæðingunum. Fundurinn beindi því til stjórnar LK að hún beiti sér fyrir auknum fjárframlögum til nautgripasæðinga, enda sé vandfundinn sá farvegur fyrir fjárframlög sem nýtast betur en þar.

 

Kosið um NRF-fósturvísa í nóvember

Hið umrædda NRF mál kom á dagskrá fundarins og var mikið rætt, þá sérstaklega hvernig standa beri að kynningu á tilraunaskipulagi verkefnisins á kynningarfundum í haust. Ákveðið var að fela stjórn LK að undirbúa kynningu í samvinnu við aðildarfélög LK og Bændasamtök Íslands og að kynningarfundir verði haldnir um allt land síðari hluta október. Þá verði kosið um málið meðal allra starfandi kúabænda í nóvember og niðurstaða eigi að liggja fyrir í byrjun fjórðu viku nóvember.

 

Fækkun leiðbeiningamiðstöðva og uppbygging þróunarseturs nautgriparæktar á Hvanneyri.

Einna mestar umræður urðu um leiðbeiningastarfsemi, rannsóknir og kennslu í nautgriparækt. Fundarmenn voru almennt sammála um að fækka þurfi leiðbeiningamiðstöðvum í tvær til þrjár og styrkja með því faglegt starfsumhverfi þeirra sem stunda leiðbeiningar til kúabænda. Ennfremur var samþykkt að kanna kosti þess og hagkvæmni að flytja landsráðunautastöðugildi frá Bændasamtökum Íslands í Reykjavík og út í þessar leiðbeiningamiðstöðvar á landsbyggðinni. Þá lögðu fundarmenn áherslu á að ekki verði frekari tafir á byggingu á nýju kennslu- og rannsóknarfjósi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, en lagði jafnframt áherslu á að Landbúnaðarháskólinn og Rannsóknarstofnun landbúnaðarins standi sameiginlega að öllum rannsóknum í nautgriparækt. Þannig verði sem fyrst stofnað þróunarsetur nautgriparæktarinnar á Hvanneyri og þannig stuðlað að öflugari fagþekkingu.