Að loknum haustfundum 2008
12.11.2008
Haustfundir Landssambands kúabænda haustið 2008 eru væntanlega þeir fjölsóttustu frá upphafi þessara funda sem hefur líklega verið haustið 2002. Fundina sóttu nú á fimmta hundrað kúabændur og aðilar þeim tengdir. Fundirnir voru haldnir við afar óvenjulegar aðstæður og mikla óvissu í þjóðfélaginu. Ekki er til nákvæm skráning á þeim viðhorfum sem fram komu í umræðum en eftirfarandi samantekt er að mati undirritaðs nærri lagi sem yfirlit:
Jákvæð atriði
1. Við erum matvælaframleiðendur en sú atvinnugrein mun styrkja stöðu sína hlutfallslega á samdráttartímum.
2. Veðrátta hefur verið hagstæð og hey eru mikil og góð víðast hvar á landinu.
3. Uppbygging í greininni hefur skilað góðri vinnuastöðu fyrir starfsfólk og góðum aðbúnaði fyrir gripi.
4. Þjóðin metur matvælaframleiðsluna að verðleikum þegar áföll af þessu tagi ganga yfir.
5. Góðar líkur eru á að fjármálastofnanir kosti kapps um að aðstoða skuldsetta aðila til áframhaldandi reksturs fremur en ganga fram af hörku og hugsanlega leysa til sín skuldsett bú.
Neikvæð atriði:
1. Útgjöld búanna hafa aukist óheyrilega, bæði vegna hækkana á heimsmarðaðsverði og hruns íslensku krónunnar. Hækkanir á afurðaverði ná ekki að mæta því.
2. Skuldsetning margra kúabúa er mikið áhyggjuefni, einkum þegar lán í erlendri mynt hækka eins og raun ber vitni og verðbólga er sú mesta síðan um 1990.
3. Framleiðsluferill í mjólkurframleiðslunni er mjög langur og því brýn þörf á nokkurri vitneskju um líklegar rekstrarforsendur nokkuð fram í tímann. Kúabændur velta því fyrir sér áhrifum núverandi ástands á framtíðarrrekstrarforsendur, þar ríkir óvissan ein.
4. Lágt verð fyrir umframmjólk, þrátt fyrir gengisþróunina, veldur vonbrigðum.
5. Í fyrsta skipti í nokkur ár komu fram áhyggjur vegna þess að verð á nautakjöti hafi ekki hækkað til samræmis við aukinn tilkostnað við framleiðsluna.
Spurningar og hugleiðingar, oftar í persónulegu spjalli en opinni umræðu á fundi:
1. Gjaldeyrismálin snerta nánast alla atvinnustarfsemi í landinu. Ástand þeirra veldur mörgum miklum áhyggjum og skapar mikla óvissu við flesta ákvarðanatöku sem tengist búrekstrinum.
2. Í fyrsta skipti er til sú staða að kúabændur sem vilja hætta, telja sig ekki geta það. Ástæðan er að viðtakandi hefur ekki aðgang að lánsfé, auk óvissu sem kemur fram í því að viðtakandi treystir sér ekki til að takast á hendur á hendur þær skuldbindingar sem fylgja yfirtökunni við núverandi aðstæður. (Ætla má að á yfirstandandi verðlagsári hefðu ca. 2 kúabændur hætt rekstri hvern mánuð. Sú tala verður væntanlega mun lægri, a.m.k. fyrri hluta verðlagsársins.)
3. Erfiðleikar í efnahagsmálum koma fram með misjöfnum og fjölbreytilegum hætti. Má þar nefna; Tap á fé sem bundið var í hlutabréfum í bönkunum, tap á hluta innistæðna í peningasjóðum, fyrirsjáanlegur samdráttur í starfsemi sem tengist frístundabyggð og annarri þjónustu, fyrirsjánlegur samdráttur í vinnu sem stunduð hefur verið með búrekstri, ábyrgðir (uppáskriftir) sem virtust formsatriði þegar til þeirra var stofnað en eru núna alvörumál, brostnar vonir um að losa fjármagn með sölu lands til frístundanota, ofl.
4. Rekstur og ákvarðanir Auðhumlu/MS ber mjög oft á góma, enda skipta þessi fyrirtæki mjólkurframleiðendur afar miklu máli.
5. Ábendingar um að ákveða þurfi ræktunarstyrki til lengri tíma.
6. Það er ekki uppgjöf í kúabændum, það er ekki mikil svartsýni en óvissan er mikil og staða þeirra skuldsettustu er mjög erfið. Munur á afkomu eftir skuldsetningu er óþægilega mikill.
Samantekt: Þórólfur Sveinsson