Beint í efni

Að loknum aðalfundi

22.04.2017

Aðalfundur Landssambands kúabænda var, eins og flestum er kunnugt, haldinn á Akureyri dagana 24.-25. mars s.l. og er þá fyrsta starfsári mínu sem formanns lokið. Það hefur margt á dagana drifið síðan ég tók við sem formaður stærsta hagsmunafélags kúabænda á Íslandi. Starfið er viðamikið og á stundum er það hreinlega fullt starf. Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart á þessum tíma er hvað stór hluti þess felst í því að sækja hina ýmsu fundi til Reykjavíkur. Á þessu fyrsta starfsári fór ég 40 ferðir til höfuðborgarinnar og tók yfirleitt þátt í fleiri en einum fundi í hverri ferð. Þetta leiðir hugann óneitanlega að samgöngum og þeim kostnaði sem fylgir þeim.

Eins og við mátti búast fór fyrsta starfsárið að stórum hluta í að ljúka við innleiðingu nýrra búvörusaminga, taka þátt í reglugerða- og verklagsreglnaskrifum, auk þess sem samtökin réðu sér nýjan framkvæmdastjóra.

Pólitíska landslagið breyttist töluvert við Alþingiskosningar og eftir langar stjórnarmyndunarviðræður varð það úr að Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð og Viðreisn mynduðu stjórn. Í framhaldi af því fengum við svo ráðherra landbúnaðarmála úr röðum Viðreisnar. Í kjölfar kosninganna varð snemma ljóst að ef eitthvað í þessa veru myndi gerast myndi það vera krefjandi verkefni, svo ekki sé meira sagt, að koma sjónarmiðum landbúnaðar á Íslandi á framfæri. Skemmst er að minnast framlagningu ráðherra á frumvarpsdrögum sem í raun kollvarpa núverandi kerfi við mjólkurframleiðslu og -vinnslu á Íslandi. Reyndar fór það svo að ráðherra hætti við að leggja frumvarpið fram og ákvað að fresta því til haustins, maður fær þá allavega ráðrúm til að heyja, en það hefur sennilega aldrei verið mikilvægara fyrir okkur sem stétt að koma sjónarmiðum okkar kröftuglega á framfæri og því mikilvægt að við þéttum raðirnar eins og kostur er, snúum bökum saman.

Mikilvægasta málið hjá okkur þessar vikurnar er að aðlaga okkur að nýjum veruleika er varðar félagsaðildina. Eins og kunnugt er nýtur búnaðargjalds ekki lengur við en þar hafa allar tekjur LK sprottið. Nýja fyrirkomulagið er að nú þurfa allir, sem vilja, að ganga sérstaklega í félagið og samþykkja að greiða félagsgjald skv. ákvörðun aðalfundar hverju sinni, sem nú er 30 aurar/líter mjólkur og 500 kr/fall sem slátrað er í afurðastöð. Þessi mál voru nokkuð rædd á nýafstöðnum aðalfundi og um það mikil samstaða að sækja fram og stefna að því að ná öllum kúabændum inn í félagið, því eins og áður segir hefur það sennilega aldrei verið mikilvægara en nú að standa þétt saman. Nokkuð skiptar skoðanir hafa verið um fyrirkomulag á innheimtu félagsgjaldsins og nokkrar tillögur að útfærslubreytingum komið fram. Það varð úr á fundinum að prufa betur þetta kerfi okkar sem við erum nýbúin að koma okkur upp, en það er skoðun mín að það sé ólíklegt að við höfum endilega hitt á besta fyrirkomulagið í fyrstu tilraun og að sjálfsögðu verður þetta til endurskoðununar á aðalfundum hér eftir.

Skráningar í félagið tóku heldur betur kipp núna eftir aðalfund og berast umsóknir skrifstofu á hverjum degi. Aðildarfélögin heima í héruðum hafa verið dugleg að beita sér og dæmi um að stjórnir hafi hreinlega skipt með sé svæðum og keyrt heim á alla bæi til að safna félögum. Þetta fyrirkomulag er til mikillar fyrirmyndar og kannski nauðsynlegt því það sýnir sig að ef við ætlum að reka hagsmunafélag okkar með jafnöflugum hætti, hér eftir sem hingað til, þá þurfum við alla til að taka höndum saman og ganga í félagið okkar.

Að venju fengum við hann Snorra Okkar Sigurðsson til að koma og taka þátt í aðalfundinum með okkur og sinnti hann starfi skristofustjóra af sinni alkunnu röggsemi. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir og vonandi fáum við starfskrafta hans notið í framtíðinni. Snorri hefur einnig sinnt ritstjórn á heimasíðunni okkar.

Síðan við hjónin byrjuðum að búa fyrir 16 árum höfum við reglulega heyrt að nú séu víðsjárverðir tímar í búskapnum. Svona hefur þetta verið orðað en það þýðir í raun bara það að á hverjum tíma eru næg verkefni að takast á við og það er staðreynd að okkar stétt, eins og örugglega fleiri, þarf stöðugt að berjast fyrir tilveru sinni. Eina leiðin til að gera það er að fræða og upplýsa. Gera út öfluga hagsmunagæslu sem passar það að rödd okkar heyrist og að rétt mynd sé dregin upp af starfsumhverfi okkar og því sem við erum að gera.

Í byrjun sumars á Hranastöðum
Arnar Árnason