Beint í efni

Að lokinni fundarferð um málefni um málefni hrossaræktar

13.03.2019

Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda og Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur, fóru í fundarferð um landið í febrúar og mars en alls voru haldnir átta fundir; þrír á Norðurlandi, í Borgarnesi, Reykjavík, Höfn í Hornafirði og Egilsstöðum en síðasti fundurinn var haldinn á Hellu.  Á fundunum var farið yfir það helsta í málefnum hrossaræktar og hrossabúskapar. Fundirnir voru sérlega mikilvægir þar sem kynnt voru drög að nýjum ræktunarmarkmiðum, dómskala og vægisstuðlum eiginleika í kynbótadómum. Hugmyndir að breytingum voru kynntar núna og mun þetta ár nýtast til að betrumbæta tillögurnar, taka við góðum tillögum að breytingum og er stefnan er að geta unnið eftir nýjum dómskala og breyttri framkvæmd dóma vorið 2020. Góð fundarsókn var á flestum fundunum  og umræður góðar og verðmætar, fljótlega mun birtast á heimasíðu Félags hrossabænda, www.fhb.is, upptaka af kynningu á nefndum breytingum. Við hvetjum alla sem málið varðar til að skoða og auðvita ekki síst þá sem ekki höfðu tök á að mæta á fundina. Fagráð mun nú í framhaldinu funda og fjalla um þær umræður sem urðu á fundunum, en þær munu klárlega nýtast þeirri vinnu sem framundan er við gerð endanlegra tillaga að ræktunarmarkmiðum, dómskala og vægistuðlum eiginleikanna. 

Ennfremur var farið yfir málefni Félags hrossabænda á fundunum en félagið er að vinna að mörgum hagsmunamálum hrossabænda og er sviðið vítt sem er undir. Má þar helst nefna markaðsmál en félagið hefur unnið ötullega að framgangi Horses of Iceland verkefnisins sem er að kynna og móta ímynd íslenska hestsins um heim allan. Þá hillir undir lokakafla sumarexems verkefnisins en næsta skref í því verðmæta verkefni er að flytja bólusett hross út á svæði í Evrópu sem hafa háa tíðni sumarexems og kanna hvort bóluefni sem hefur verið í þróun og skilar afar efnilegum niðurstöðum virki við raunaðstæður. Hefur Félag hrossabænda ákveðið að útvega hross í þennan fasa verkefnisins og mun leita til sinna félagsmanna á næstunni með þetta í huga. Meira að því síðar. Það eru því mörg skemmtileg og verðmæt verkefni sem eru á döfinni og ekkert annað hæ

Þökkum öllum þeim sem komu á fundina,

Sveinn Steinarsson og Þorvaldur Kristjánsson.