Beint í efni

Að „lesa“ starfsfólk eða fundargesti

16.03.2013

Nú er aðalfundur LK á næsta leiti og í framhaldi hans árshátíð kúabændaog því getur verið áhugavert fyrir einhverja að renna yfir leiðbeiningar til bandarískra bænda um það hvernig maður á að túlka afstöðu fólks, sem ekki vill segja hvað því finnst í raun. Þetta er í raun töluvert vandamál í bandarískum kúabúskap, enda er starfsfólkið oftast erlent og talar oft ekki ensku, því verður vinnuumhverfið oft þurrt og á köflum afar óþjált.

 

Shawn McVey er sérfræðingur í því að bæta starfsumhverfi á vinnustöðum og rekur fyrirtækið McVey Management Solutions í Chicago (www.mcveymanagementsolutions.us). Hann hefur sérhæft sig í atferli fólks og getur „lesið“ í einstaklinga og viðhorf þeirra út frá svipbrigðum og líkamsburðum með aðdáunarverðum hætti.

 

Á dögunum gaf hann nokkur góð ráð til bandarískra kúabænda varðandi það hvernig á að „lesa“ fólk á fundum og þar með að fá fram afstöðu þess án þess að viðkomandi segi nokkuð og við látum þessi ráð hér fljóta í lauslegri þýðingu:

 

Starfsmennirnir/fundargestir eru áhugasamir um hugmyndir þínar ef þeir…

– hvíla hendurnar á fundarborðinu

– sýna þér lófana

– brosa oft

 

Starfsmennirnir/fundargestir efast um eða hafa móðgast af hugmyndum þínum ef þeir…

– hringla í lyklakippu, úri eða gleraugum

– klípa í nefbroddinn á sér

– klóra sér aftan á hálsinum

 

Starfsmennirnir/fundargestir leyna þig upplýsingum eða segja ósatt á fundinum þegar þeir…

– hafa hendur í vösum

– blikka augum oft

– forðast að horfa í augu

– kyngja eða ræskja sig oft

 

Starfsmennirnir/fundargestir eru áhugalausir um efni fundarins þegar þeir…

– styðja höndum við höfuð sitt

– snerta á sér eyrnasneplana

– eru eirðarlausir eða geyspa

– krossleggja fætur oft

 

Starfsmennirnir/fundargestir sýna reiði/óþolinmæði/vanþóknun þegar þeir…

– kreppa hnefana

– slá höndum ótt og títt í borð eða hrista fætur

– krossleggja hendur

– blikka augum stöðugt

 

Starfsmennirnir/fundargestir sýna þörf fyrir öryggi eða umhyggju þegar þeir…

– setja penna í munninn

– kreista þykka hluta handarinnar undir þumlinum

– naga neglur

– snerta á sér hálsinn

 

/SS.