Beint í efni

Að alast upp á kúabúi er gott fyrir heilsufarið!

08.02.2018

Vísindafólk við háskóla einn í Wisconsin í Bandaríkjunum hafa komist að því að börn sem ólust upp á kúabúum í Marshfield héraði, sem er í fylkinu Massachusetts, og komast snemma í snertingu við bæði búfé og annað sem búskapnum tengist, eru síður með ofnæmi en börn sem alast upp í stórborgum. Þessi niðurstaða er sú fyrsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum sem sýnir bein fyrirbyggjandi áhrif sveitalífsins á lyfjameðhöndlaða sjúkdóma. Áður hafa reyndar vísindamenn í Evrópu sýnt fram á áþekkt samhengi.

Rannsóknarniðurstöðurnar, sem voru birtar í tímaritinu Journal of Allergy and Clinical Immunology, náðu til hóps 268 barna á aldrinum fimm til sautján ára og sem höfðu öll alist upp á kúabúum frá fæðingu að fimm ára aldri. Þá var til samanburðar hópur 247 barna úr dreifbýli en sem höfðu ekki alist upp á kúabúum. Þegar hóparnir tveir voru skoðaðir og sjúkdómasaga þessara 500 barna kom í ljós að hefðbundið frjókornaofnæmi var sjaldgæfara hjá sveitakrökkunum sem og exem. Þá voru alvarlegir öndunarfærasjúkdómar sjaldgæfari hjá sveitakrökkunum fyrstu tvö ár ævinnar.

Vísindafólkið sem stóð að þessari rannsókn vinnur nú að því að greina nánar hvað það er í raun við sveitalífið sem gerir börnin hraustari en talið er að það tengist því að börnin komast í snertingu við fjölbreyttari aðstæður en þá tilgátu á s.s. eftir að sanna/SS.