Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Góð haustfundaferð að baki

25.10.2010

Árlegri haustfundaferð Landssambands kúabænda lauk í síðustu viku. Að þessu sinni var fundalotan venju fremur stutt og snörp, en haldnir voru 12 fundir á 5 dögum, auk fyrsta fundarins sem haldinn var í Þingborg þann 14. október sl. Eins var bryddað upp á þeirri nýbreytni að allir stjórnarmenn tóku virkan þátt í fundarherferðinni ásamt formanni og framkvæmdastjóra. Heildarfjöldi fundargesta var um 360 og voru umræður á fundunum undantekningalaust yfirvegaðar og málefnalegar.
Í máli fundarmanna komu fram vaxandi áhyggjur að afkomu í greininni vegna hækkandi verðs á aðföngum og hversu hægt miðar í úrlausn á vanda skuldugra bænda. Eins var mönnum ofarlega í huga sú gríðarlega óvissa sem uppi er um framtíð greinarinnar og stöðu þeirra sem hana stunda vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þá kom fram veruleg óánægja með að alþingi skuli ekki hafa afgreitt nú í haust frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að treysta forgang mjólkur innan greiðslumarks að innanlandsmarkaði. Þótti fundarmönnum óvissuþættir í rekstrarumhverfi greinarinnar nægir þó ekki bættust við vafaatriði varðandi lagaumgjörð hennar. Voru LK og BÍ hvött til að vinna áfram ötullega að þessu máli og greinilegur stuðningur var við málflutning samtakanna í þessu efni. 

 Það mál sem hvað mesta umfjöllun fékk á fundunum var fyrirkomulag hins nýja kvótamarkaðar. Ítarlega var farið yfir þær leikreglur sem þarna munu gilda og þau atriði sem þeir aðilar þurfa að hafa í huga sem hyggjast hafa viðskipti með greiðslumark á markaðnum. Ljóst er að þetta nýja fyrirkomulag er mikil breyting frá þeim viðskiptaháttum sem tíðkast hafa á þessum markaði og eðlilega kom fram nokkur gagnrýni á hversu snöggt þessar breytingar eiga sér stað. Eins voru fundarmenn mjög ósáttir við að ekki væri opnað fyrir fyrsta markað nú í september eins og LK hafði ítrekað óskað eftir og að nauðsynlegt væri að fjölga markaðsdögum í 3 á komandi ári. Almennt virtist þó ríkja sátt um upptöku kvótamarkaðarins en jafnframt ljóst að slípa verður reglugerðina sem um hann gildir til eftir því sem hann þróast.

 

Nokkrar umræður spunnust um tillögu að breyttu fyrirkomulagi C-greiðslna og lýstu flestir fundarmenn ánægju með þá tillögu sem lögð var fram um það efni.

 

Á fundunum voru kynntar útlínur þeirrar vinnu sem verið hefur í gangi vegna stefnumörkunar fyrir greinina. Þetta efni fékk mis mikla umræðu á fundunum, en eins og vænta mátti voru skiptar skoðanir um einstök efnisatriði málsins. Reiknað er með að halda áfram við frekari útfærslu þeirra hugmynda sem þarna eru til skoðunar og að næsti aðalfundur taki síðan afstöðu til þeirra markmiða sem talin verða raunhæf.

Stjórn telur sérstaka ástæðu til að þakka öllum þeim sem tóku þátt í fundunum, enda skipta góð tengsl stjórnar og framkvæmdastjóra við umbjóðendur samtakanna miklu fyrir starfsemi LK.

 

Fyrir fundina höfðu formaður og framkvæmdastjóri tekið saman talsvert efni um helstu mál sem eru á borði samtakanna, það hefti má nálgast með því að smella hér og glærur sem sýndar voru á fundunum eru hér.