Áburðarverðið í útboði Landgræðslunnar
04.03.2010
Á dögunum var þess getið að tilboð í áburðarkaup Landgræðslunnar hefðu verið opnuð þann 8. febrúar sl. Þar er um að ræða 800 tonn af áburði sem að lágmarki skal innihalda N-P 23-12, ásamt 2% S. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum eru upphæðirnar sem tilgreindar eru í fundargerð frá opnun tilboðanna með vsk. Tilboð bárust frá Fóðurblöndunni hf, sem gaf upp verð í evrum og Skeljungi hf. sem gaf upp verð í sterlingspundum. Það er mat Landssambands kúabænda að munurinn á tilboðunum til Landgræðslunnar og því verði, sem birst hefur bændum nú í vikunni sé gróflega mikill. Í töflunni hér að neðan má sjá, að munurinn á mesta afsláttarverði skv. verðlista, á þeim áburði sem kemst næst að uppfylla lágmarkskröfur og þess verðs sem birtist í framangreindu útboði, er 32,4% hjá Fóðurblöndunni og 23,5% hjá Skeljungi. Í tilfelli Skeljungs er hér miðað við tegundina N-P 26-13 og hjá Fóðurblöndunni Fjölmóða 2, N-P 23-12.
Fóðurblandan hf | Skeljungur hf | |
Tonnafjöldi | 800 | 800 |
Tilboð, með vsk. | 279.200 evrur | 266.064 pund |
Sölugengi SÍ 5. feb. 2010 | 176,68 | 202,69 |
Verð pr. tonn í tilboði, með vsk | 61.661 kr. | 67.411 kr. |
Verð pr. tonn í tilboði, án vsk. | 49.133 kr. | 53.714 kr. |
Lægsta verð pr. tonn skv. verðlista, án vsk | 65.048 kr | 66.319 kr |
Mismunur á tilboði og verðlista til bænda, kr/tonn | 15.915 kr | 12.605 kr |
Mismunur á tilboði og verðlista til bænda, % | 32,4% | 23,5% |
Það er mat Landssambands kúabænda að þessi feikilegi munur á útboðsverðinu og verðlistum til bænda sé langt handan þeirra marka sem eðlilegt getur talist. Annað hvort er álagning áburðarsala mjög rífleg, eða að bændur þurfa að niðurgreiða áburð Landgræðslunnar. Hvorugt er hægt að sætta sig við. Auk þess má nefna að í verðlista Skeljungs sem birtur var í dag, er m.v. gengi punds 193,34 kr, en gengi þess var 202,69 kr fyrir mánuði. Í verðlista Fóðurblöndunnar er þess getið að endanlegt verð liggi fyrir um miðjan apríl n.k., það er háð gengi evrunnar.