Beint í efni

Ábendingar um aldur sláturgripa

25.02.2011

Nýleg dæmi hafa sýnt að ástæða er til að minna bændur á að gæta að aldursmörkum nautgripa varðandi kjötmat. Einkum á þetta við um ungneytakjöt, þ.e. af nautum, uxum og kvígum á aldrinum 12-30 mánaða, en einnig um kýr.

Samkvæmt kjötmatsreglugerðinni (nr. 882/2010) flokkast naut og uxar, 30 mánaða og eldri, sem bolakjöt (merktir Vinnslukjöt N) og kvígur sem kýr (KI U: vel holdfylltir skrokkar af 30-48 mánaða gömlum kúm eða í K-flokka eftir holdfyllingu og fitu).

Einstaklingsmerking nautgripa hefur í för með sér að aldur

sláturgripa liggur klár fyrir og er ekki lengur matsatriði eftir beinmyndun í brjóski á hátindum brjósthryggjarliða og útliti skrokks að öðru leyti. Opið aðgengi er að grunnupplýsingum um nautgripi eftir einstaklingsnúmerum. Að sjálfsögðu nýta kjötmatsmenn sér það ef gripur virðist vera nálægt viðkomandi aldursmörkum. Að sama skapi geta starfsmenn í kjötvinnslum sannreynt aldur sláturgripa við móttöku skrokka.

Þeirri ábendingu er því komið á framfæri við framleiðendur að fylgjast með aldri gripa sinna og áætla sláturtíma í samræmi við ofangreind aldursmörk.

 

Með kveðju og góðum óskum til kúabænda.
Stefán Vilhjálmsson
fagsviðsstjóri kjötmats
Matvælastofnun