
Áætlun um mat á gróðurauðlindum
13.03.2017
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Landgræðsla ríkisins og Landssamtök sauðfjárbænda, hafa gert með sér samkomulag til 10 ára um um mat á gróðurauðlindum. Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og gera grein fyrir breytingum þar á. Hins vegar að þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins.
Umsjón verkefnisins í höndum Landgræðslunnar
Landgræðslunni er falin umsjón verkefnisins, en samkvæmt lögum um stofnunina ber henni að: „hafa gát á meðferð á gróðri landsins og vinna gegn því, að hann eyðist fyrir ofnotkun eða aðra óskynsamlega meðferð“. Landgræðslan mun ráða verkefnisstjóra sem mun vinna í nánu samstarfi við sérfræðinga stofnunarinnar og faghóp verkefnisins. Alls verður varið 35,5 milljónum króna til verksins á yfirstandandi ári.
Nánar um verkefnið og samkomulagið í heild má lesa um í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.