Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Á þröskuldi nýrra tíma – áramótaleiðari formanns LK

09.01.2016

Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, ritar áramótaleiðara undir heitinu „Á þröskuldi nýrra tíma“. Í pistlinu fer formaður yfir nýliðið ár, stöðu framleiðslu og sölu nautgripaafurða, verðlagsmál mjólkur, nýlegar reglur um aðbúnað nautgripa, breytingar á lögum um innflutning dýra og framgang endurnýjunar á erfðaefni holdanautastofnanna. Formaður fer einnig yfir stöðu framleiðslumála, horfur í þeim efnum og segir m.a. „Í samræmi við söluspá fyrir árið 2016 var greiðslumarkið ákvarðað 136 milljónir lítra og jafnframt var framleiðsluskylda til að njóta fullra A-greiðslna lækkuð í 80% til að draga úr framleiðsluhvata. Eftir sem áður verður greitt fullt afurðastöðvarverð fyrir alla innlagða mjólk í samræmi við áður gefin loforð. Sannarlega má segja að sá mikli vöxtur sem varð í framleiðslu mjólkur á liðnu ári hafi verið nokkuð umfram væntingar. Þess mátti þó að nokkru vænta þegar rýnt var í skýrsluhaldsgögn, en þar mátti greina talsverða fjölgun sæðinga á árinu 2014. Eðli málsins samkvæmt fjölgaði burðum að sama skapi og náði sú þróun hámarki um mitt síðasta ár. Frá því í september s.l. hefur síðan burðum fækkað miðað við árið á undan, en það sem enn frekar vekur athygli er að sæðingar eru líka færri, þá er svo að sjá að framboð kúa til slátrunar sé að aukast mikið. Það er því ýmislegt sem bendir til að þessi mikli vöxtur mjólkurframleiðslunar hafi náð hámarki.“

 

Sigurður rekur all ítarlega gang samningaviðræðna vegna búvörusaminga og helstu atriði sem gerst hafa, frá því að sameiginleg stefnumörkun samningsaðila var kynnt fyrir bændum í lok nóvember sl. Hann horfir einnig til baka og rifjar upp þær aðstæður sem voru uppi í greininni við stofnun LK fyrir bráðum 30 árum.  Segir svo í leiðara formanns: „Landssamband kúabænda var stofnað þann 4. apríl 1986 og eru því senn liðin 30 ár síðan. Við stofnun samtakanna var rekstrargrundvöllur greinarinnar mjög ólíkur því sem nú er. Við blasti margháttaður vandi sem að stærstum hluta átti rót sína í framleiðslu afurða langt umfram innanlandsþarfir og til minnkandi framlaga ríkisins til útflutningsbóta árin þar á undan. Í upphafi níunda áratugarins höfðu stjórnvöld og samtök bænda þegar gripið til aðgerða í því skyni að framleiðsla búvara yrði í takt við markaðsþarfir til að koma í veg fyrir tekjuhrun bænda vegna offramleiðslu. Árið 1986 voru hér á landi 1.820 innleggjendur á mjólk og meðal innlegg þeirra um 60 þúsund lítrar. Þá voru hér 17 mjólkusamlög í afar dreifðri eignaraðild, aðallega kaupfélaga, vítt og breytt um landið. Vegna þess hversu búin voru mörg hver afar smá og úrvinnslan óhagkvæm urðu þessar aðgerðir greininni afar sársaukafullar og mótaðist starf LK fyrstu árin mjög af því. Í riti sem gefið var út á 10 ára afmæli LK 1996, leit fyrsti formaður samtakanna Hörður Sigurgrímsson  um öxl og sagði þá meðal annars:

 

„Landbúnaðarframleiðslan hafði verið í uppnámi um nokkurt skeið. Árin næst á undan hafði framleiðsla mjólkur sífellt verið að aukast, en sala aftur á móti að dragast saman. 1985 var framleiðslan yfir 115 milljónum lítra en salan um 96 milljónir.[ ] Stéttarsambandið lenti meira og minna í að framkvæma niðurskurðinn þó þar væru áhrifamenn innanborðs sem voru alfarið á móti stjórn á framleiðslunni. [ ] Framkvæmdin var því ómarkviss og skerðingin kom misjafnt við bændur. Úthlutunarreglur kvóta alltof flóknar og götóttar. Á sama tíma voru erfiðleikar með að fá greitt fyrir afurðirnar á réttum tíma. Það var því ljóst að búgreinasamböndin, a.m.k. Landssamband kúabænda og Landssamtök sauðfjárbænda voru stofnuð fyrst og fremst til að hafa áhrif á framleiðslustýringuna og starf félagsins fyrstu árin mótaðist mjög af þessu.“

 

Fullyrða má að aðstæður greinarinnar séu allar aðrar nú en þarna er lýst. Framleiðendur eru nú um 630, meðalinnlegg hvers þeirra um 230 þúsund lítrar, tæknistig búana hefur vaxið mjög og markaðsaðstæður síðustu ár verið afar hagfelldar. Þá hefur stórfeldur árangur náðst í hagræðingu innan mjólkuriðnaðarins, samhliða mikilli endurnýjun og fádæma vöruþróun. Sá veruleiki, jafnframt því að bændur sjálfir fara nú með stærstan hluta af eignarhaldi iðnaðarins í sameinuðu fyrirtæki, skapar möguleika til að nýta betur þau markaðstækifæri sem til staðar eru bæði hér heima og erlendis. Það er jafnframt ein grunn forsenda þess að greinin hefur nú einstakt tækifæri til að hverfa frá því fótakefli sem núverandi framleiðslustýringarkerfi er. En þá er jafnframt lykilatriði að bændur sjálfir verði þar áfram við stjórnvölinn“.

 

Leiðara formanns LK má lesa í heild með því að smella á hlekkinn hér að neðan./BHB

 

 

Á þröskuldi nýrra tíma. Áramótaleiðari formanns LK 9. janúar 2016