Á 150.000 afkvæmi í 22 löndum!
21.08.2012
Fimmtudaginn 23. ágúst n.k. verður norska nautið Braut 10177 tíu vetra. Hann er eitt af allra vinsælustu nautum nautgriparæktarfélagsins Geno í gegnum tíðina og er þetta í fyrsta skipti sem tímamóta af þessu tagi er minnst hjá lifandi grip í eigu félagsins. Með 128 í einkunn fyrir skap er Braut eitt af bestu nautum allra tíma þar í landi fyrir þann eiginleika, afurðaeinkunn er 113, hann fær 117 fyrir fótagerð og 116 fyrir júgurgerð. Synir hans státa af miklum holdsöfnunareiginleikum og er einkunn hans fyrir kjöt 117. Alls á hann 6.179 dætur með afurðaupplýsingar, 285 dætur með útlitsdóm og 9.159 syni með upplýsingar um fallþunga og kjötmat.
Á undanförnum árum hefur verið flutt sæði úr Braut til 22 landa og er verðmæti þess 5,5 milljónir NOK, eða sem nemur um 110 milljónum íslenskra króna. Undan honum hafa komið um 150.000 kálfar, þar af 45.000 í Noregi. Þrátt fyrir að vera orðinn 10 vetra er Braut enn mjög vinsæll, bæði heima og erlendis. Auk hefðbundins sæðis úr honum, er boðið upp á kyngreint sæði og SpermVital sæði (langlíft sæði).
Ræktendur Braut, hjónin Torbjørg og Ommund Braut frá Bryne í Rogaland hafa notið góðs af þessum árangri. Arðgreiðslur til þeirra vegna útflutningsteknanna eru 90.000 NOK, eða 1,8 milljónir iskr. Auk þess var Braut verðlaunaður sem besta nautið úr árgangi 2002 og voru verðlaunin 30.000 NOK, eða um 600 þús. iskr.
Í tilefni af 10 ára afmælinu efna aðildarfélög Geno í Hedmark til kúasýningar á morgun, miðvikudaginn 22. ágúst, þar sem bændur eru hvattir til að sýna dætur Braut./BHB
Fréttatilkynning af Geno.no
Upplýsingasíða í norsku nautaskránni um Braut 10177 – á ensku
Upplýsingasíða í norsku nautaskránni um Braut 10177 – á norsku
![]() |
Braut 10177 – fæddur 23. ágúst 2002. |