Beint í efni

9. fundur stjórnar LK 2018-2019

21.09.2018

Níundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 5. september kl. 21:00. Símafundur.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Pétur Diðriksson, Rafn Bergsson og Borghildur Kristinsdóttir. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

  1. Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 8. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
  2. Tillögur SAM að viðbrögðum vegna halla í sölu á prótein- og fitugrunni. Tillögur lagðar fram til kynningar og framkvæmdastjóra falið að hafa samband við SAM varðandi framhaldið.
  3. Endurskoðun aðbúnaðarreglugerðar, greining frá Þórarni Leifssyni. Á stjórnarfundi LK 27. júní sl. var ákveðið að leita til Þórarins Leifssonar varðandi breytingar á aðbúnaðarreglugerð nautgripa. Hefur hann skilað tillögum sínum til stjórnar og voru þær teknar til umræðu. Töluverðar umræður um málið og framkvæmdastjóra falið að vera í sambandi við Þórarinn og MAST varðandi einstaka atriði. Í framhaldinu verða tillögur stjórnar LK sendar á fagráð nautgriparæktarinnar til kynningar og í framhaldinu sendar sem formlegar tillögur á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
  4. Ráðstöfun af framleiðslujafnvægislið samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar.  Stjórn LK er sammála um að leggja til við framkvæmdanefnd búvörusamninga að nýta fjármagn af framleiðslujafnvægislið samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar í kynbótastarf (7.gr.), nánar tiltekið til verkefnis um erfðamengisúrval í nautgriparækt. Með verkefninu verður kleift að spá fyrir um kynbótagildi gripa á grundvelli arfgerðar þeirra, fljótlega eftir að þeir koma í heiminn. Þannig er vonast til að stytta megi ættliðabilið í nautgriparæktinni verulega og auka þannig árlegar erfðaframfarir sem því nemur.
  5. Styrkbeiðni frá Þórði Tómassyni vegna bókaútgáfu. Þórður Tómasson, rithöfundur og fyrrv. safnvörður að Skógum, hefur óskað eftir styrk frá LK til útgáfu á bók sinni „Búbót” sem áætlað er að komi út á næsta ári. Stjórn LK samþykkir.
  6. Aðkoma LK að landbúnaðarsýningu í Laugardalnum í október nk. LK býðst að standa fyrir fyrirlestri á sýningunni. Stjórn sammælist um að halda kynningu á starfseminni á einangrunarstöðinni að Stóra-Ármóti. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
  7. Önnur mál.
  • Næsti fundur stjórnar er áætlaður mánudagskvöldið 10. september kl.21.00. Formaður og framkvæmdastjóri hafa verið boðuð á fund með samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga þriðjudaginn 11. september. Nokkrar umræður um komandi endurskoðun á búvörusamningum og viðskipti með greiðslumark mjólkur.
  • Efnistök haustfunda LK rædd. Ekki eru komnar fastar dagsetningar en fyrsti fundur áætlaður um miðjan október.
  • Rætt um félagsaðild að LK og hvatningu til bænda að taka þátt í hagsmunagæslu greinarinnar.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 23:10

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda