Beint í efni

9. fundur stjórnar LK 2017-2018

04.04.2018

Níundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2017-2018, var haldinn í Bændahöllinni, fimmtudaginn 1. febrúar kl. 9.30.

Á fundinn mættu Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson og Elín Heiða Valsdóttir og Herdís Magna Gunnarsdóttir og Bessi Vésteinsson voru í síma. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður setti fund og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert:

 1. Kolefnisspor íslenskrar nautgriparæktar. Framkvæmdastjóri kynnti tilboð frá Environice fyrir vinnu við skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskri nautgriparækt. Stjórn telur eðlilegt að falast eftir samstarfi við stjórnvöld varðandi slíka vinnu, enda séu aðgerðir til þess að stjórnvöld geti með frekari hætti staðið við skuldbindingar sínar sem þau gengust undir með Parísarsamkomulaginu. Ákveðið að vísa málinu til komandi aðalfundar LK.

Tillaga hafði borist frá Félagi eyfirskra kúabænda til stjórnar LK sem kvað á um að stjórn LK skoði með hvaða hætti kúabændur geti komið að því að kolefnisjafna nautgriparæktina á Íslandi. Var hún rædd samhliða.

 1. Samantekt um áhrif EFTA-dómsins. Í nóvember 2017 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmdist ekki ákvæðum EES-samningsins. Í framhaldi ræddu Landssamband kúabænda, BÍ og önnur búgreinafélög að setja af stað vinnu við greiningu á áhrifum dómsins á tekjur íslenskra búgreins og mat á verði sambærilegra innfluttra vara eftir að lög verða sett í kjölfar EFTA-dómsins. Áætlaður kostnaður fyrir LK varðandi þá vinnu er 165.000 krónur. Stjórn samþykkir.
 2. Heildarframlög til framleiðenda í búvörusamningum. Grein 10.2 í samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt hljóðar svo: „Hver framleiðandi getur ekki fengið framlög sem nema hærra hlutfalli en 0,7% af árlegum heildarframlögum samkvæmt samningi þessum.” Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur sé um merkingu þessa ákvæðis þegar kemur að uppgjöri fyrir árið, sem er nú í vinnslu hjá Búnaðarstofu. Stjórn Landssambands kúabænda leggur áherslu á að umsóknarfé sé ekki túlkað sem hluti af þeim 0,7% af heildarframlögum sem hér um ræðir. Fjárfestingarstuðningur samningsins er háður umsóknum og er sérstaklega kveðið á um hámarksgreiðslur á þeim stuðningi. Leggur stjórn samtakanna áherslu á að telja ekki saman stuðningsgreiðslur á framleiðslu og gripi annars vegar og umsóknarfé hins vegar. Túlkun á þann veg að umsóknarfé teldist til heildarframlaga í grein 10.2 getur falið í sér minni fjárfestingar í greininni og þar með hægari uppbyggingu. Er það skilningur fulltrúa LK í samninganefnd búvörusamninga að umsóknarfé og stuðningsgreiðslur séu aðskyldar og grein 10.2 eigi einungis við um stuðningsgreiðslur. Framkvæmdastjóra falið að koma þessu sjónarhorni stjórnar áfram til Bændasamtaka Íslands, Búnaðarstofu og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.
 3. Undirbúningur Aðalfundar og árshátíðar. Aðalfundur og árshátíð Landssambands kúabænda árið 2018 verður haldinn 6.-7. apríl nk. að Hótel Selfossi. Framkvæmdastjóri kynnir stöðuna. Aðildarfélög skulu hafa klárað aðalfundi sína og skilað inn tillögum og upplýsingum til skrifstofu LK eigi síðar en 16. mars nk. Stjórn samþykkir að setja á fót árshátíðarnefnd sem fari með sama hlutverk og fyrri ár. Fagþing verður áfram samhliða aðalfundi líkt og fyrri ár. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
 4. Stjórnartillögur á aðalfund. Ljóst er að stefnumörkun LK í mjólkurframleiðslu og nautgripakjötsframleiðslu, ásamt atkvæðagreiðslu um kvótakerfið meðal kúabænda árið 2019 verða stærstu mál komandi aðalfundar. Aðrar stjórnartillögur verða teknar fyrir á komandi fundum stjórnar.
 5. Atkvæðagreiðsla um kvótakerfið. Við endurskoðun 2019 munu Bændasamtök Íslands láta fara fram atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skuli afnumið frá og með 1. janúar 2021. Mikilvægt er að bændur hafi upplýsingar um hvaða kostir eru í boði og hvað þeir þýða fyrir greinina. Stjórn LK mun vinna þá undirbúningsvinnu í samstarfi við Bændasamtök Íslands og afurðastöðvar og leggur mikla áherslu á að þeirri vinnu sé lokið minnst tveimur mánuðum fyrir atkvæðagreiðslu svo bændur geti kynnt sér málið vel. Málið verður kynnt nánar á aðalfundi LK.
 6. Tillögur til Búnaðarþings. Stjórn LK mun leggja fram sameiginlega tillögu með öðrum búgreinafélögum er varða tollamál. Í þeirri tillögu er m.a. lagt áherslu á að tollamálin séu tekin meira inn í vinnu við endurskoðun búvörusamninga.

Stjórn LK hefur borist áskorun frá Félagi kúabænda á Suðurlandi um að leggja fram tillögu um endurskoðun á félagskerfi bænda. Stjórn samþykkir og leggur til að myndaður verði starfshópur sem hefur það hlutverk að skila tillögum um bætt fyrirkomulag félagskerfis bænda með það að markmiði að einfalda það og nýta fjármögnun sem best skildi. Stjórn leggur áherslu á að starfshópurinn skili tillögum fyrir ársfund Bændasamtaka Íslands árið 2019 þar sem tillögurnar yrðu til umfjöllunar.

Pétur Diðriksson leggur til að stjórn sendi inn tillögu um Vísindasjóð landbúnaðarins. Stjórn LK samþykkir.

 1. Önnur mál:
 • Styrkbeiðni frá SUB. Styrkbeiðni hefur borist frá Samtökum ungra bænda vegna árshátíðar samtakanna. Rætt og stjórn telur eðlilegra að framlög komi frá fyrirtækjum líkt og tíðkast hefur fyrri ár.
 • Styrkbeiðni frá Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna. Stjórn telur umbeðna upphæð nokkuð háa miðað við breytta fjármögnun samtakanna. Framkvæmdastjóra falið að skoða betur.
 • Framkvæmdastjóri tilkynnir stjórn greiðslu eftirstöðva búnaðargjalds til samtakanna. Sú greiðsla, ásamt þeirri ákvörðun um að fresta haustfundum árið 2017, mun verða til þess að ársreikningur félagsins mun hafa mun minni halla en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 12.30

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda