Beint í efni

9. fundur LK 2020-2021

19.04.2021

Níundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021 varhaldinn föstudaginn 19. mars kl. 10:30 á Hótel Sögu, Hagatorgi, 107 Reykjavík. Mætt eru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður, Rafn Bergsson, varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Sigurbjörg Ottesen og Vaka Sigurðardóttir. Haukur Örn Birgisson, lögfræðingur, var gestur undir lið 7 og Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, var gestur undir lið 8. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

  1. Fundargerð 8. fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021.Fundargerð samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
  2. Íslenskt gæðanaut. Framkvæmdastjóri og verkefnastjóri hafa fundað með flestum sláturleyfishöfum um notkun væntanlegs merkis fyrir íslenskt nautakjöt. Stefnt er á að klára fundi fyrir páska. Vel er tekið í notkun merkisins en tilgangurinn og stefnt er á að vefsíða sé tilbúin 20. apríl. Einnig farið yfir þróun VATN og umræður þar um.
  3. Styrkbeiðni, námsefni fyrir matreiðslunema.Faggreinadeild kjötiðnaðarins við Menntaskólann í Kópavogi er að vinna námsefni fyrir nemenda í matreiðslunámi. Í stefnumótun LK 2018-2028 er sérstaklega kveðið á um að „Fræðsluefni um íslenskt nautakjöt í matreiðslunámi verði bætt.“ Stjórn samþykkir að styrkja um 200.000 krónur.
  4. Erindi til RML um greiningu á möguleikum á kyngreiningu sæðis. Drög að erindi kynnt fyrir stjórn og samþykkt. Óskað er eftir að gerð verði greining á möguleikum kyngreiningar á sæði hérlendis sem tekur mið af þeirri tækniþróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hver hugsanlegur kostnaður gæti verið og til hvaða aðgerða þyrfti að grípa svo hægt væri að taka upp þessa aðferð hérlendis.
  5. Erindi til stjórnar Byggðastofnunar um vaxtakjör lána. Drög að erindi kynnt fyrir stjórn og samþykkt. Óskar stjórn LK eftir því að Byggðastofnun taki vaxtakjör sín til endurskoðunar ellegar samtali og skýringum á því hvers vegna vaxtakjör lána hjá Byggðastofnun hafa hækkað á sama tíma og stýrivextir lækka.
  6. Reglugerð um merkingar á matvælum. Drög að umsögn kynnt fyrir stjórn. Stjórn er sammála um að sú leið sem lögð er til í reglugerðinni, þ.e. að heimilt verði að veita lögbundnar upplýsingar til neytenda með stafrænum hætti, í stað þess að upplýsingarnar komi fram á umbúðunum sjálfum, muni auðsjáanlega fela í sér aukna fyrirhöfn fyrir neytendur við að afla sér upplýsinga um matvælin. Það er hæpið að sjá að þessháttar miðlun upplýsinga, þ.e. einungis á stafrænan hátt, geti komið í stað merkinga á umbúðum, þó hún gæti boðið upp á upplýsingagjöf til viðbótar við lögbundnar upplýsingar sem væri vel. Það er því mat samtakanna að þessi breyting er ekki til þess fallin að gæta hagsmuna neytenda.
  7. Samþykktarbreytingar LK. Umræður um drög að nýjum samþykktum BÍ ásamt drögum að samþykktarbreytingum LK. Sameinist LK við BÍ og leggi niður starfsemi án slita þarf að aðlaga samþykktir félagsins að nýju kerfi. Samkvæmt núgildandi samþykktum LK skulu drög að samþykktarbreytingum sendar á formenn aðildarfélaga eigi síðar en 20 dögum fyrir fund, eða 20. mars. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram ásamt Hauki Erni og málið endanlega afgreitt með tölvupósti.
  8. Starfsemi búgreinadeilda BÍ. Rætt við formann BÍ um starfsemi stjórna búgreinadeilda innan sameinaðs BÍ og fjárhagsáætlun BÍ 2021.
  9. Verðlagsmál. Formaður tilkynnti að á fundi verðlagsnefndar þriðjudaginn 16. mars hafi verið tekin ákvörðun um hækkun lágmarksverðs og heildsöluverðs mjólkur. Lágmarksverð 1.fl. mjólkur til bænda hækkar um 3,77%, úr 97,84 kr./ltr í 101,53 kr./ltr. og heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækkar um 3,47%, nema smjör sem hækkar um 8,47% og heildsöluverð á mjólkurdufti sem verður óbreytt. Vegin hækkun heildsöluverðs er 3,68%. Tekur breytingin gildi 1. apríl 2021.
  10. Önnur mál 
    1. Fundur um reglugerð um sjálfbæra nýtingu lands. Framkvæmdastjóri óskaði eftir kynningarfundi fyrir stjórn LK sem verður haldinn kl. 10.30 miðvikudaginn 24. mars.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16:00

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda