Beint í efni

802 milljarðar lítra

21.09.2015

Ársfundur International Dairy Federation (IDF), sem eru samtök aðila í mjólkuriðnaði í fjölmörgum löndum m.a. á Íslandi, stendur nú yfir en fundurinn er að þessu sinni haldinn í Vilníus í Litháen. Fundarefnið er afar fjölbreytt enda viðfangsefnið stórt. Þannig eru margar mismunandi málstofur í gangi samtímis, allt frá frumframleiðslu mjólkurinnar og upp í afurðavinnslu.

 

Alls eru núna 46 lönd í IDF en til þess að geta verið meðlimur í IDF þarf viðkomandi land að greiða gjald til samtakanna, reiknað út frá innveginni mjólk í viðkomandi landi og er hlutur Íslands um ein og hálf milljón á ári. Eitt af hlutverkum IDF er að halda utan um mjólkurframleiðslutölfræði heimsins og sýnir nýtt uppgjör nú að árið 2014 nam heildarframleiðslan 802 milljörðum lítra, sem er 3,3% aukning frá fyrra ári. I heildina nemur nú neyslan 110,7 kg mjólkur pr. íbúa í heiminum, en samkvæmt áliti OECD og FAO er talið að þetta neysluhlutfall muni hækka um 13,7% á næstu 8 árum og fari í um 125 kíló á hvern íbúa heimsins. Gangi þessar áætlanir eftir þarf að auka mjólkurframleiðslu heimsins um nærri 110 milljarða lítra eða um 13,7 milljarða lítra á ári. Sú aukning er þó ekki nema 1,7% á ári, töluvert minni aukning en varð á tímabilinu 2013-2014/SS.