8. fundur stjórnar LK 2018-2019
10.09.2018
Áttundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 25. júlí kl. 21:00. Símafundur.
Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson. Borghildur Kristinsdóttir situr fundinn sem varamaður fyrir Pétur Diðriksson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 7. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Fjárfestingarstuðningur í nautgriparækt. Framkvæmdastjóri greinir frá fundi sem hún átti með fulltrúum BÍ og Búnaðarstofu MAST er varðar breytingar á reglugerð um fjárfestingarstuðning í nautgriparækt fyrr í júlímánuði. Miklar umræður um skilvirkni stuðningsins og hvernig mætti auka hana með breytingum á reglugerð. Enn fremur var rætt um að taka fyrir markmið stuðningsins við endurskoðun samningsins, þ.e. að leggja áherslu á að þær framkvæmdir sem sótt er um stuðning fyrir séu til þess gerðar að uppfylla reglugerðir um aðbúnað gripa. Er það í samræmi við umsögn LK við reglugerð samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt frá 1. desember 2016, en það kallar á breytingu á samningnum sjálfum. Stefnt er á næsta fund í byrjun september nk.
- Verðlagsnefnd. Fyrsti fundur nýskipaðrar verðlagsnefndar var haldinn 13. júlí sl. Miklar umræður í stjórn um hækkandi vöruverð framleiðslufyrirtækja vegna verðlagshækkana og launaþróunar og ljóst að mjólkuriðnaðurinn og bændur eru ekki undanskildir þeim áhrifum. Verðlagsnefnd hefur ekki verðlagt síðan í desember 2016 og því fyrirliggjandi að hækkunarþörf er hjá bæði bændum og iðnaði. Ekki er komin dagsetning á næsta fund nefndarinnar.
Í tengslum við umræður um verðlagsnefnd ítrekar stjórn LK mikilvægi þess að breytingar verði á verðlagningu í samræmi við 12. grein samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt. Í dag nær t.a.m. heildsöluverð smjörs, eins og það er ákveðið af verðlagsnefnd, ekki að standa undir lögbundnum hráefniskostnaði. Brýnt er að verðlagning vara komist í annað horf hið fyrsta.
- Önnur mál.
- Grillið. Við ástandsskoðun kom í ljós að það er í lagi með grillið sjálft en þarf að lagfæra hluta þess og verður það gert fyrir austan þar sem grillið er staðsett.
- Nautakjötsmál. Umræður um ástandið í Evrópu sökum þurrka. Líklegt að offramleiðsla ytra sé framundan sem getur haft áhrif á verð á innfluttu kjöti strax á haustmánuðum.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 22:45.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda