79 naut á Nautastöð BÍ !
13.07.2010
Nú í byrjun júlí voru 79 naut á ýmsum aldri á Nautastöð BÍ að Hesti í Borgarfirði. Af þessum 79 eru nú 24 í sk. sæðistökustíum og hafa þau flest gefið sæði. Allt eru það naut undan úrvals kúm og nautsfeðrum. Af sæðistökunautunum eru sex þeirra undan Spotta 01028 og fjögur þeirra undan bæði Náttfara 00035 og Skurði 02012, en alls eru feður sæðistökunautanna 10. Eins og verið hefur undanfarið greiðir Nautastöð BÍ kúabændum fyrir nautkálfa sem sendir eru á stöðina. Hagkerfi Nautastöðvar BÍ byggir á eftirfarandi grunnþáttum árið 2010:
– Fyrir hverja kú á forðagæsluskýrslum (2009) eru greiddar kr. 1.120.
– Fyrir hverja kvígu á forðagæsluskýrslum eru greiddar kr. 560.
– Báðar þessar tölur eru óháðar notkun, þannig að greitt er fyrir þær kýr/kvígur sem ekki koma til sæðinga og ekki er greitt viðbótargjald þó það þurfi að sæða kúna/kvíguna oftar en einu sinni.
– Nautastöðin fær búfjárræktarframlag kr. 9.700.000 á árinu
– Nautastöðin hefur tekjur af kjötsölu
– Óverulegar leigutekjur af eignum
Þá þekkja kúabændur mæta vel rekstur sæðingastarfseminnar, sem er í höndum búnaðarsambanda, búnaðarsamtaka eða nautgriparæktarfélaga sem ákveða gjöld fyrir sæðingar. Sá þáttur snertir því ekki rekstur Nautastöðvarinnar.
Þegar keyptur er kálfur af bónda gildir eftirfarandi verðskrá, ákveðin af ræktunarhópi fagráðs í nautgriparækt:
– Greiddar eru kr. 25.000 fyrir lífið.
– Greiddar eru kr. 620 fyrir fóðrun og hirðingu á dag.
– Nautastöðin greiðir allan kostnað við að koma kálfi á stöð.
– Upphæðir eru endurskoðaðar einu sinni á ári.
– Þessar tölur eru án virðisaukaskatts
Meðalverð nautkálfanna sem stöðin hefur keypt á þessu ári eru tæpar 58 þús kr. án vsk. Þar sem verulegur munur er á þessu verði og því sem kynnt hefur verið kúabændum og greitt er t.d. í bæði Danmörku og Noregi er rétt að taka fram að Nautastöð BÍ reynir ávallt að verðleggja sæði með þeim hætti að það sé sem ódýrast fyrir kúabændur. Þessi verðlagningarstefna þýðir það að svigrúm til þess að greiða hærra verð fyrir nautkálfana er ekki til staðar, enda er verð fyrir sæði aðeins brot af því sem þekkist í nágrannalöndunum.