Beint í efni

75% fækkun kínverskra kúabúa á 3 árum

06.07.2019

Í Kína eiga sér nú stað hreint ótrúlega miklar breytingar á umgjörð mjólkurframleiðslunnar, en ríkisstjórnin hefur markvisst unnið að því undanfarin ár að tryggja framleiðslu landsins á mjólk. Þetta hefur helst verið gert með því að styðja við uppbyggingu á stórbúum og hefur þeim fjölgað ört á síðustu árum. Undanfarin ár hefur afurðastöðvaverð farið lækkandi í Kína, en er þó enn töluvert hærra en almennt þekkist t.d. í löndum Evrópusambandsins.

Lækkandi afurðastöðvaverð og hár framleiðslukostnaður vegna óhagstæðrar bústærðar og hækkandi verðs á innfluttum hráefnum og fóðri, hefur valdið því að mörg smærri búin hafa verið rekin með tapi undanfarin ár. Þetta hefur leitt til þess að mörg af minni búunum hafa hætt starfsemi síðustu 2-3 árin vegna óhagkvæmni, en einnig vegna hertra reglna hins opinbera varðandi umhverfismál, nýtingu á mykju og fleiri atriðum sem hafa reynst smærri aðilum erfitt að mæta.

Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd þá hefur kúabúum landsins snarfækkað síðan 2016 og alls um 75% á einungis þremur árum!

Þetta er þróun sem ekki hefur sést í nokkru öðru landi í heiminum á sama tíma. Þrátt fyrir að kúabúum með framleiðsluleyfi hafi fækkað um 90.000, eða um rúmlega 80 á dag síðustu 3 árin, hefur mjólkurframleiðsla landsins ekki dregist saman svo nokkru nemi. Skýringin felst auðvitað í því að flest búin sem hafa hætt eru afar smá, með örfáar kýr, og á sama tíma hefur stóru búunum, með þúsundum kúa, fjölgað. Meðalbústærðin hefur því farið úr um 45 kúm að jafnaði í ársbyrjun árið 2016 í nú um 150 kýr í ársbyrjun þessa árs eins og hér má sjá.

Fullyrða má að svona gríðarleg breyting á meðalbústærð hafi ekki áður sést í heiminum á jafn stuttum tíma. Reyndar hefur kúnum fækkað aðeins undanfarið ár eða um 4,8% en framleiðslan hefur þó staðið í stað vegna aukinnar afurðasemi. Samkvæmt uppgjöri úr kínverska skýrsluhaldinu þá skiluðu kínversku kýrnar að jafnaði um 31,3 kg mjólkur á dag fyrstu þrjá mánuði þessa árs og er það aukning um 3,6% á einu ári. Meðal fituhlutfallið var 3,94%, meðal próteinhlutfallið 3,35% og meðal frumutalan 231.000 sem er lækkun um 20.000 á einu ári/SS.