Beint í efni

70 þúsund krakkar fengu gefins mjólk í gær!

29.09.2011

Í gær var haldinn hátíðlegur alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn í tólfta sinn. Á Íslandi var haldið upp á hann undir kjörorðunum „Holl mjólk og hraustir krakkar“ og af því tilefni buðu Mjólkursamsalan og kúabændur landsins öllum leikskóla– og grunnskólabörnum upp á mjólk. Reikna má með því að alls hafi verið drukknir 16.000 lítrar af mjólk í gær.
 
Svona kynningardagar eru afar mikilvægir þar sem vakin er athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi mjólkur í fæði barnanna enda mjólkurneysla barna og unglinga dregist verulega saman víða um heim á síðustu árum, þar á meðal hér á landi. Harðast er sótt að mjólkinni af alls kyns söfum og gosdrykkjum.
 
Samtímis því að Skólamjólkurdagurinn var haldinn hátíðlegur var árlegri teiknisamkeppni hleypt af stokkunum. Öllum nemendum 4. bekkjar er boðið að taka þátt í samkeppninni og er myndefnið algjörlega frjálst, en æskilegt er að það tengist hollustu mjólkurinnar fyrir ungt fólk. Mikil þátttaka hefur verið í teiknisamkeppninni undanfarin ár, þúsundir skemmtilegra og frumlegra teikninga hafa borist.
 
Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim en það er Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hvetur til að haldið sé upp á daginn enda mjólk bæði mjög próteinrík og auk þess mikilvæg uppspretta lífsnauðsynlegra vítamína og steinefna og fleiri efna/SS-fréttatilkynning MS.