Beint í efni

7. fundur stjórnar LK 2018-2019

27.07.2018

Sjöundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 27. júní kl. 21:00. Símafundur.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson. Elín Heiða Valsdóttir, fulltrúi BÍ í starfshópi um endurskoðun búvörusamninga, var gestur undir lið 2. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

  1. Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 6. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
  2. Undirbúningur fyrir endurskoðun búvörusamninga. Fundað hefur verið nokkuð reglulega í starfshóp um endurskoðun búvörusamninga síðan 17. apríl. Skal hópurinn skila áfangaskýrslu í lok júnímánaðar. Næsti fundur nefndarinnar er dagsettur 14. ágúst. Miklar umræður um áherslur LK í komandi endurskoðun búvörusamninga, málefni nautakjötsframleiðslunnar og rekstrargrundvöllur búa í fjölbreyttri mynd munu skipa þar stóran sess ásamt niðurstöðu atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis. BÍ hefur boðað fund á morgun með búgreinafélögunum þar sem endurskoðun búvörusamninga verður til umræðu. Formaður og framkvæmdastjóri LK munu sitja fundinn fyrir hönd LK.
  3. Endurskoðun aðbúnaðarreglugerðar nautgripa. Eins og kom fram á stjórnarfundi LK 13. júní sl. hefur MAST sent tillögur að breytingum á reglugerð á atvinnuvegaráðuneytið. Stjórn telur mikilvægt að einnig verði farið yfir reglugerðina á vegum LK og sammælist um að leita til Þórarins Leifssonar, bónda í Keldudal og fulltrúa LK í fagráði nautgriparæktarinnar. Framkvæmdastjóra er falið að hafa samband við hann. M.a. verði litið til þeirrar vinnu sem áður hefur verið unnin og skoðaðar kröfur sem gilda í nágrannalöndum.
  4. Skipan í verðlagsnefnd. BÍ er skylt að tilnefna tvo aðila af hvoru kyni í verðlagsnefnd. Hingað til hefur verið litið fram hjá því að skipa tvo karlmenn þar sem formaður BÍ og formaður LK eru báðir karlar. Ekki var veitt slík undanþága að þessu sinni. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri LK verður fulltrúi BÍ ásamt Sindra Sigurgeirssyni, formanni BÍ. Arnar Árnason verður varamaður Margrétar. Pétur Diðriksson tekur fram að hann telur mikilvægt að fulltrúi í verðlagsnefnd sé félagskjörinn en setur sig ekki á móti tilnefningunni.
  5. Önnur mál.
  • Árshátíð og aðalfundur staðfest dagana 22.-23. mars 2019 á Hótel Sögu. Fundur verður í Heklu fundarsal og árshátíðin í Súlnasal.
  • Nokkur umræða um breytingu á reglugerð er varðar heimild til tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila. Mikilvægt að tryggja að komi ekki í veg fyrir eðlilegar sameiningar jarða og verður falast eftir túlkun ráðuneytisins á reglugerðarbreytingunni í tengslum við það. Nokkur umræða um hámark á greiðslumarki sem óskað er eftir hverju sinni en sú ályktun stjórnar LK frá 25. apríl hefur ekki náðst í gegn enn sem komið er. Formaður LK mun taka málið upp í framkvæmdanefnd búvörusamninga.
  • Nautís hefur nú sent inn umsókn vegna fósturvísainnflutnings sem fyrirhugaður er í ágústmánuði.
  • Einangrunarstöðin að Stóra-Ármóti hefur fengið 15 milljónir af framleiðslujafnvægislið búvörusamninga. Nokkur umræða um nýtingu þess liðar.
  • LK hefur borist styrkbeiðni frá forsvarsmönnum Sæunnarsunds 2018, sjósunds frá Flateyri og yfir í Valþjófsdal sem áætlað er 25. ágúst nk. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
  • Sumarfrí framkvæmdastjóra frá 30. júlí -20. ágúst.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 22:25

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda