Beint í efni

7. fundur LK 2020-2021

04.03.2021

Sjöundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021 var haldinn miðvikudaginn 10. febrúar kl. 13:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður, Rafn Bergsson, varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Sigurbjörg Ottesen og Vaka Sigurðardóttir. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

 1. Fundargerð 6. fundar stjórnar LK starfsárið 2020-2021.Fundargerð samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
 2. Viðbótarfjármagn til handa kúabændum vegna Covid-19. Formaður og framkvæmdastjóri funduðu með atvinnuvegaráðuneytinu fimmtudaginn 4. febrúar um ráðstöfun þess aukafjármagns af fjárlögum 2021 sem renna skal til nautgriparæktarinnar til að mæta erfiðri stöðu stéttarinnar í kjölfar heimsfaraldursins, samtals 242,5 milljónir króna. Tillögur frá ANR lagðar fyrir stjórn til umræðu. Einnig minnisblað frá verkefnastjóra markaðsmála um stöðu á nautakjötsmarkaði. Fundur áætlaður með ráðuneytinu 11. febrúar. LK hefur óskað eftir frekari upplýsingum um áhrif aðgerða sem gripið var til innan ESB.
 3. Verðlagsmál. Formaður fer yfir vinnu starfshóps um verðlagsmál sem skipaður var samkvæmt samkomulagi um endurskoðun samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt. Stjórn samþykkir að leggja til við ráðherra að slíta þeirri vinnu en lítið hefur áorkast á þeim 14 mánuðum sem hópurinn hefur verið starfandi, en hópurinn átti að skila í maí 2020. Í staðinn er lagt til að aðilar samkomulagsins, ríki og bændur, geri samkomulag um verðlagsmál án fyrirliggjandi tillögu starfshópsins.
 4. Tilnefning í stjórn Nautís. Aðalfundur Nautís er 12. febrúar nk. Sigurður Loftsson hefur setið sem formaður Nautís frá upphafi, sem fulltrúi LK, en hefur nú óskað eftir að annar taki við. Stjórn sammála að tilnefna Jón Örn Ólafsson á Nýjabæ sem aðalmann og Herdísi Mögnu Gunnarsdóttur sem varamann. Sigurði er þakkað fyrir afar gott og óeigingjarnt starf í þágu verkefnisins og ánægjulegt samstarf. Bessi Freyr mun sitja aðalfundinn f.h. Herdísar.
 5. Hagræðingarmöguleikar afurðastöðva í kjöti. Formaður sat fund um möguleika sláturleyfishafa til frekara samstarfs og sameiningar 2. febrúar. Í kjölfarið var óskað eftir áliti LK og samþykkti stjórn í gegnum tölvupóst. Vísað er í eftirfarandi ályktun af aðalfundi 2020:

4.1 Heimild kjötafurðastöðva til frekara samstarfs

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Nautgripabændur hafa þurft að þola miklar verðlækkanir undanfarna mánuði, en verðlækkanir það sem af er ári samsvara um 150 milljón króna tekjutapi fyrir greinina á ársgrundvelli. Er þess krafist að í stað þess að stöðugt sé gengið á hlut bænda, sem nú þegar er af ansi skornum skammti, sé greininni búið eðlilegt starfsumhverfi, ráðist verði í frekari hagræðingaraðgerðir innan afurðastöðva og stjórnvöld geri þeim kleift að gera það. Með aukinni samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir á ódýrum aðflutningsgjöldum og miklum launahækkunum hefur geta afurðastöðva til að greiða bændum ásættanlegt verð fyrir afurðir okkar skaðast verulega.

Auk aðgerða í tollamálum er því beint til stjórnvalda að veita afurðastöðvum í kjötframleiðslu heimild til að hafa með sér ákveðið samstarf og verkaskiptingu á markaði. Með því mætti ná fram töluverðri hagræðingu á ýmsum sviðum rekstrarins og rými skapast til að borga bændum ásættanlegt verð fyrir sínar afurðir.

Mikilvægt er að byggðalegur ávinningur samstarfs verði tryggður og opinber aðili meti hagrænan og umhverfislegan ávinning samstarfsins og hvernig hann skilar sér til bænda og neytenda. Samhliða er lagt til að heimildir til heimavinnslu, örslátrunar og annarrar úrvinnslu bænda á eigin afurðum verði rýmkaðar sem kostur er.

 1. Félagskerfi bænda. BÍ hefur óskað eftir því að stjórnir aðildarfélaga yfirfari fyrirliggjandi tillögur vel og skili skriflegum athugasemdum fyrir lok dags 10. febrúar. Í framhaldi mun BÍ halda fjarfund með stjórn LK fimmtudaginn 18. febrúar. Stefnt er á formannafund aðildarfélaga LK áður en aðalfundir félaganna hefjast, þar sem málið verður kynnt nánar ásamt sýn LK á framhaldið. Er stjórn sammála um að leggja til að ef að sameiningu LK við BÍ verður þá sé það gert án þess að slíta LK endanlega, þ.e. að halda kennitölu félagsins og núverandi sjóðum áfram undir nafni LK. Umræður um valdheimildir stjórna búgreinafélaga og kosningu fulltrúa á búgreina- og búnaðarþing.
 2. Lögfræðiþjónusta. Mikilvægt er að stjórn hafi aðgang að óháðri lögfræðiþjónustu við vinnslu tillagna um félagskerfisbreytingar. Stjórn samþykkir að ganga til samninga við Íslensku lögfræðistofuna, stjórn til halds og trausts. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
 3. Markaðsannsókn. Stjórn samþykkir að vera með í markaðsrannsókn á kjötneyslu Íslendinga sem kynnt var á síðasta stjórnarfundi. Höskuldur Sæmundsson mun sitja í vinnuhóp við undirbúning rannsóknarinnar.
 4. Önnur mál
  1. Framkvæmdastjórar LS og BÍ funduðu með Pure Nordic á mánudag vegna plastmála. Framkvæmdastjóri LK situr með þeim í starfshópi um umhverfismál.
  2. Formaður og framkvæmdastjóri LK munu funda með RML 11. febrúar um loftslagsmál í nautgriparækt.
  3. Framkvæmdastjóri og verkefnastjóri markaðsmála funduðu með EFLU í gær um Matarspor EFLU.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.00

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda