69 kýr hurfu sporlaust!
15.01.2013
Þrátt fyrir ítarlega leit hefur ekkert spurst til 69 sænskra kúa sem hurfu sporlaust úr fjósi 19. desember sl. Fjósið, sem er í Sörmland við Katrineholm um 100 km suð-vestur af Stokkhólmi, var eðlilega ólæst og varð bóndinn ekki var við manna- eða bílaferðir um nóttina, en varð eðlilega verulega undrandi þegar hann mætti í fjósið klukkan sex um morguninn 19. desember. Kúahvarfið er mikil ráðgáta enda töluverður handleggur að smala 69 kúm á flutningabíl og tekur sinn tíma.
Lögregluyfirvöld á svæðinu hafa nú, nærri mánuði eftir hvarfið, biðlað til fjölmiðla landsins til þess að vekja athygli á málinu og biður fólk að láta vita sé þeim boðið hakk á góðu verði! Talið er næsta víst að kúnum hafi verið ekið beint til slátrunar en eins og flestir lesendur naut.is þekkja þarf margar hendur til þess að sinna slátrun á 69 kúm svo líklegt er að margir aðilar hafi komið að þessum þjófnaði/SS.