Beint í efni

62 verkefni hljóta styrk úr Matvælasjóði

16.12.2020

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti fyrstu úthlutun Matvælasjóðs í morgun en alls hljóta 62 verkefni styrk að fjárhæð allt að 480 milljónir að þessu sinni. Alls bárust 266 umsóknir um styrki upp á 2,7 ma.kr. Hægt er að fylgjast með upptöku frá úthlutuninni hér, en hún var í beinu streymi. Gréta María Grétarsdóttir, formaður stjórnar Matvælasjóðs kynnti úthlutunina og vinnu stjórnar og fagráða sjóðsins.

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Sjóðurinn hefur fjóra styrktarflokka og verður fulltrúum 62 verkefna boðið að ganga til samninga um nýja styrki fyrir allt að 480 milljónir króna. Hægt er að sjá lista yfir verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni með því að smella hér.

Styrkir úr Báru, Afurð, Fjársjóði og Keldu

Fagráð sjóðsins eru fjögur og voru stjórn til ráðgjafar. Þau voru skipuð aðilum sem höfðu þekkingu á ýmsum sviðum, m.a. matvælaframleiðslu, nýsköpun, vísindarannsóknum og markaðssetningu. Fagráð fóru yfir umsóknir og skiluðu til stjórnar forgangsröðun verkefna eftir einkunnum ásamt umsögnum um hvert verkefni fyrir sig. Við mótun tillagna tók stjórn einnig tillit til búsetu, kyns umsækjenda og verkefnastjóra ásamt því að horft var til þess að skiptingin á milli atvinnugreina væri sem jöfnust. Ráðherra hefur nú úthlutað úr sjóðnum.

Bára: Styrkir verkefni á hugmyndastigi. Styrkþegar geta verið fyrirtæki sem stofnuð á síðustu fimm árum, sem og frumkvöðlar sem vilja þróa hugmynd, hráefni eða aðferðir sem tengjast íslenskri matvælaframleiðslu. 36 verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Báru, fyrir alls 97 milljónir króna.

Kelda: Styrkir verkefni sem miða að því að afla nýrrar þekkingar sem styður við markmið sjóðsins um nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Níu verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Keldu, fyrir alls 157 milljónir króna

Afurð: Styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar. Styrkveitingar miða að því að gefa styrkþegum tækifæri til að móta og þróa afurðir úr hráefnum sem falla til við matvælaframleiðslu og stuðla þar með að verðmætasköpun. Átta verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Afurð fyrir alls 100 milljónir króna.

Fjársjóður: Styrkir verkefni sem hafa það markmiði að styrkja markaðsinnviði og stuðla að markaðssókn afurða tengdum íslenskri matvælaframleiðslu. Níu verkefnum verður boðið til samninga um styrk úr Fjársjóði, fyrir alls 127 milljónir króna.

Áætlað er að Matvælasjóður muni hafa 628 milljónir til umráða á árinu 2021 og er stefnt á að opnað verði fyrir umsóknir í mars og að önnur úthlutun sjóðsins verði í maí 2021.

Hægt er að fylgjast með starfsemi sjóðsins á heimasíðunni www.matvælasjóður.is