60,3% kúa á Íslandi í lausagöngufjósum
15.02.2016
Ný skýrsla um þróun fjósbygginga og mjaltatækni hér á landi hefur nú litið dagsins ljós en þetta er sjöunda skýrsla þessa efnis en sú fyrsta leit dagsins ljós árið 2003. Í skýrslunni nú kemur m.a. fram að í árslok 2015 voru 618 fjós í framleiðslu hér á landi, sem er 3,4% fækkun á fjölda fjósa frá árinu 2013 þegar síðast var tekið saman sambærilegt efni. Básafjós eru enn algengust á Íslandi, eða 56,6% fjósanna, en þó er meirihluti íslenskra kúa, eða 60,3%, í lausagöngufjósum.
Þegar horft er til mjólkurframleiðslu fjósanna kemur fram að reiknað mjólkurmagn frá kúm í lausagöngu er 62,2% sem er veruleg aukning frá því fyrir tveimur árum er þetta hlutfall var 56,3%. Þá er reiknað hlutfal mjólkur frá mjaltaþjónafjósum 37,6% og raunverulegt innvegið hlutfall (til afurðastöðva) 37,2%. Mjaltaþjónafjós eru að jafnaði mun stærri en önnur fjós eða með 69,8 árskýr. Í fyrsta skipti frá því að Landssamband kúabænda fór að taka saman skýrslu um þróun fjósbygginga og mjaltatækni er ekki handmjólkað í neinu fjósi lengur. Er þannig lokið merkilegum kafla í mjólkurframleiðslusögu landsins. Enn eru fimm fjós eftir þar sem mjólkað er með fötukerfi og hefur þeim fækkað um tvö á tveimur árum.
Samantekthelstu niðurstaðna:
– Fjöldi fjósa í framleiðslu á Íslandi var 618 í árslok 2015 en var 640 í lok ársins 2013, sem þýðir fækkun um 3,4% á tveimur árum sem er heldur meiri fækkun fjósa en varð 2011-2013 er hún var 2,9%.
– Básafjós eru enn algengust á Íslandi, eða 56,6% allra fjósa, en þeim heldur þó áfram að fækka hlutfallslega.
– 60,3% kúnna á Íslandi eru nú í lausagöngu, sem er veruleg aukning frá árinu 2013 er 54,3% kúnna var í lausagöngu.
– Hlutfall mjólkur frá kúm í lausagöngu reiknast nú 62,2% framleiðslunnar og eykst úr 56,3% frá því fyrir tveimur árum.
– Kýr í lausagöngu eru að jafnaði afurðahærri en kýr í básafjósum.
– Hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónum reiknast til þess að vera 37,6% og er það líklega hæsta hlutfall sem þekkist í heiminum.
– Lausagöngufjós með mjaltaþjónum eru afurðahæstu bú landsins að meðaltali, bæði ef horft er til heildarinnar en einnig ef eingöngu er horft til afurðahæstu búa landsins (hærri nyt en 6.000 kg/árskú).
– Lausagöngufjós með mjaltaþjónum eru stærstu bú landsins að jafnaði með 69,8 árskýr.
– Mest hlutfallsleg aukning frá árinu 2013 á fjölda kúa varð í stærðarflokki búa með fleiri en 80 árskýr en 14,1% kúa landsins er að finna á búum í þessum stærðarflokki
– Nokkur nýbýli hafa verið stofnað frá síðustu samantekt en flest þessara fjósa voru áður í framleiðslu og hafa nú hafið framleiðslu á ný.
– Á Íslandi finnast flestar grunngerðir aðferða við mjaltir sem þekktar eru í heiminum, þó var mjólkurframleiðslu hætt á síðasta búinu hér á landi sem viðhafði handmjaltir um áramótin 2014-2015.
– Sjálfvirkir aftakarara eru í 79,0% mjaltabásafjósa en einungis í 25,3% fjósa með rörmjaltakerfi.
Margar aðrar afar áhugaverðar upplýsingar er að finna í skýrslunni en með því að smella hér getur þú séð skýrsluna í heild sinni/SS.