Beint í efni

60% hækkun vaxta!

08.08.2007

Í lok júlí birtu viðskiptabankarnir nýjustu vaxtaákvarðanir sínar. Kjörvextir verðtryggðra skuldabréfalána eru nú 8,10% hjá Glitni, 8,35% hjá Landsbanka Íslands og 8,50% hjá Kaupþingi. Í maí 2006 voru kjörvextir þessara lána um 5% og hafa þeir því hækkað um heil 60% á rétt rúmlega einu ári, sem verður að teljast svimandi hækkun.

Vaxtahækkanir af þessari stærðargráðu hafa mjög neikvæð áhrif á afkomu kúabænda, þar sem vaxtastig hefur veruleg áhrif á framleiðslukostnað á mjólk og kjöti. Í grófum dráttum má segja að fyrir hvert prósentustig í hækkuðum vöxtum kosti kúabændur um 250 milljónir á ári í auknar vaxtagreiðslur.

 

Þá er einnig ástæða til að árétta að samanlagður hagnaður Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis, eftir skatta á fyrri hluta ársins 2007 var 86,2 milljarðar króna.