6% hækkun á heimsmarkaðsverði mjólkurafurða
05.09.2012
Talsverð hækkun varð á heimsmarkaðsverði mjólkurafurða á uppboði Global Dairy Trade í gær, um 6% að jafnaði. Þetta var þriðja uppboðið í röð þar sem verðið hækkaði, verðhækkun 1. ágúst var 3,5% og 7,8% þann 15. ágúst sl. Verðhækkunin nú var að venju mismunandi eftir afurðum, cheddar ostur hækkaði um 5,3%, undanrennuduft um 7,5% og smjörolía (e. anhydrous milk fat) um 11,8%.
Stjórn Auðhumlu svf. hefur nýverið endurskoðað verð á umframmjólk, til örlítillar hækkunar, 0,50 kr/ltr. Haldi þessi verðþróun áfram á heimsmarkaði, gefur það fullt tilefni til að endurskoða þá ákvörðun fljótlega. Þess ber þó að geta, að útflutningur mjólkurafurða á sér að mestu leyti stað á fyrri hluta ársins, þegar innvigtun mjólkur er í hámarki./BHB