6. fundur stjórnar LK 2018-2019
02.07.2018
Sjötti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 13. júní kl. 10.15 í Bændahöllinni við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson. Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu, var gestur undir lið 2. Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri SAM, og Jóhanna Hreinsdóttir, stjórnarformaður SAM, voru gestir undir lið 3. Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML, og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, fagstjóri í búfjárrækt, voru gestir undir lið 4. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 5. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Fjárfestingarstuðningur í nautgriparækt. Á aðalfundi LK sem haldinn var 6.-7. apríl sl. var ályktað um nauðsyn þess að marka skýrari stefnu varðandi hvað telst styrkhæft við úthlutun fjárfestingarstuðnings. Þá var sérstaklega getið á um vélbúnað. Miklar umræður um endurbætur á reglugerð, umsóknarferli og framkvæmd úttekta. LK mun koma á fót vinnuhóp um útfærslu og framkvæmd fjárfestingarstuðnings í samstarfi við BÍ og Búnaðarstofu.
- Munur á sölu á prótein- og fitugrunni. Farið yfir ályktun LK af síðasta stjórnarfundi sem haldinn var 30. maí sl. LK hefur lagt áherslu á að 12. grein samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar taki gildi, m.a. var ályktun um slíkt samþykkt á aðalfundi LK 6.-7. apríl sl. Var málið tekið fyrir á fundi framkvæmdanefndar búvörusamninga 11. júní sl. og formaður og framkvæmdastjóri LK ræddu það einnig á fundi með landbúnaðarráðherra að morgni 13. júní.
Sölumunur á prótein og fitu jókst um 3 milljónir lítra á milli ára 2016-2017 og var 13,1 millj. lítra árið 2017. Ætla má að bilið muni áfram breikka og hefur það mikinn kostnað í för með sér fyrir íslenskan mjólkuriðnað, en hver milljón lítra kostar um 80 milljónir króna. Miklar umræður um hvaða leiðir eru færar til að vinna á vandanum. Samstarfsnefnd SAM og BÍ munu funda 22. júní nk. og mun SAM hafa forgang um að koma með tillögur og kalla til fundar í framhaldinu.
- Ályktanir af aðalfundi LK sem snúa að RML. Fjórar ályktanir af aðalfundi LK voru sendar RML. Verða þær teknar fyrir á næsta stjórnarfundi RML. Sú fyrsta sneri að kanna mismunandi rekstrarskilyrði kúabúa eftir staðsetningu þeirra, bæði vegna náttúrulegra skilyrða, mismunandi verðlags og þjónustu s.s. eftir því hvort rafmagn er þriggja fasa eða ekki. RML lýsir sig reiðubúið að vinna að málinu með LK. Fyrsta skref er að útbúa verklýsingu, þ.e. ákveða umfang, form og markmið, áður en hafist verður handa.
Rætt var um endurskoðun á aðbúnaðarreglugerð nautgripa en ljóst er að þörf er á breytingum svo reglugerðin virki sem skildi. MAST hefur unnið tillögur að breytingum og hafa þær nú verið sendar á atvinnuvegaráðuneytið.
Miklar umræður um vöktun á fjölda gripa til nautakjötsframleiðslu og þróun framleiðslunnar almennt. Taka þarf stefnu NautÍs inní þá umræðu. Næstu skref eru að útbúa verkefnalýsingu og umsókn í fagfé.
Aukin ráðgjöf við byggingarframkvæmdir hefur verið í þróun hjá RML og hefur fyrirtækið verið í mikilli stefnumótunarvinnu uppá síðkastið. Einnig mikið rætt um framtíð ráðgjafar á sviði landbúnaðar sem mun í auknum mæli snúa að tæknilausnum.
Stjórn LK gerði einnig grein fyrir ályktun sem send var á BÍ um mikilvægi þess að að minnsta kosti einn aðili úr röðum starfandi kúabænda yrði tilnefndur til að sitja í stjórn Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.
- Undirbúningur fyrir endurskoðun búvörusamninga. Framkvæmdastjóri kynnir niðurstöður útreikninga á áhrifum ólíkra sviðsmynda opinbers stuðnings á mismunandi gerðir búa. Tekjur búa voru einnig skoðaðar með afurðastöðvarverð til hliðsjónar. Stjórn mun eftir sem áður leggja mikla áherslu á að rekstrargrundvöllur búa af mismunandi stærðum og gerðum, víðs vegar um landið, haldi sér. LK mun funda með öðrum búgreinafélögum og BÍ fimmtudaginn 28. júní nk.
- Önnur mál.
- Nokkuð rætt um mikilvægi upprunavottanna íslenskra mjólkurvara í sívaxandi samkeppni.
- Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fundi sem hún sat með MAST 8. júní sl. þar sem farið var yfir ályktanir aðalfundar. Framkvæmdastjóra falið að senda minnisblað af fundinum á stjórn.