Beint í efni

6.600 kvígur fluttar í einu

22.08.2017

Það var heldur betur verðmætur farmur sem skipið Ocean Drover flutti í byrjun mánaðarins frá Nýja-Sjálandi en um borð voru hvorki fleiri né færri en 6.600 kvígur. Ocean Drover er stærsta gripaflutningaskip heims og er engin smásmíði: 176 metra langt og 31 metra breitt. Skipið var byggt árið 2002 og er sérhannað til gripaflutninga m.a. með sérstaklega hannað fóðrunar- og brynningarkerfi auk loftræstingar til þess að tryggja góðan aðbúnað gripanna um borð.

Þó svo að 6.600 sé mikill fjöldi af kvígum þá var nú skipið nánast hálftómt á siglingu sinni, enda getur það tekið 18 þúsund nautgripi í einu eða 75 þúsund kindur! Að þessu sinni sigldi Ocean Drover til Kína með kvígurnar þar sem þær fara að líkindum á kúabú í eigu nýsjálenska afurðafélagsins Fonterra en það félag hefur byggt upp mörg kúabú í Kína að undanförnu/SS.