Beint í efni

59 bændur hlutu verðlaun fyrir framleiðslu úrvalsmjólkur

20.05.2021

Alls hlutu 59 bændur um land allt verðlaun fyrir úrvalsmjólk. Frá þessu er sagt í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Verðlaun fá þeir innleggjendur sem lögðu inn mjólk í 1. flokki A í öllum mánuðum ársins.

Reglur um verðlaun fyrir mjólk í 1. flokki A eru þær að hámark frumutölu í mánuðinum sé 200 þúsund frumur/ml eða lægra mælt og reiknað sem faldmeðaltal. Einnig að hámark líftölu í mánuði sé 20.000 ein/ml mælt og reiknað sem beint meðaltal mánaðarins. Loks að hámark frírra fitusýra sé 0,9 mmol/l, reiknað sem faldmeðaltal mánaðarins.

Viðurkenningar voru veittar af hálfu Auðhumlu sem er samvinnufélag í eigu um 600 mjólkurframleiðenda um land allt og hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir á Íslandi og erlendis. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf. með 80% eignarhlut.