Beint í efni

51% varanna í Rúmeníu skulu vera heimaframleiddar!

07.07.2016

Ríkisstjórn Rúmeníu hefur tekið einstaka ákvörðun en um er að ræða hreina byltingu með verslun matvæla. Fari svo að hinar nýju reglur fari í gegnum rúmenska þingið og hið evrópska verður verslunum skilt að selja að lágmarki 51% matvælanna frá rúmenskum fyrirtækjum. Reglurnar ná reyndar ekki til allra vara en til þeirra vara sem eru framleiddar í landinu svo sem mjólkurvara, grænmetis, ávaxta, brauðmetis og kjötvara auk fleiri matvæla sem framleiddar eru í landinu.

 

Tilgangur þessara nýju reglna er að ýta undir matvælaframleiðslu landsins og styðja við bakið á rúmenskum bændum. Jafnframt að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu á þarlendum iðnaði í stað þess að flytja „allt inn“. Einkar áhugavert og eftirtektarvert hjá hinum rúmensku yfirvöldum. Málið er þó ekki frágengið enda gengur þessi ákvörðun þvert á samþykktir Evrópusambandsins og því þarf málið að fara yfir stjórn sambandsins. Takist Rúmenum hins vegar að fá brautargengi fyrir þessa ákvörðun er dagljóst að fleiri lönd fylgja í kjölfarið og gæti það gjörbreytt stöðu bænda í viðkomandi löndum og tryggt stöðu þeirra/SS.