
50 milljónir lítra í eina pítsugerð!
06.05.2017
Norska stórfyrirtækið Orkla er etv. ekki mörgum kunnugt á Íslandi en þetta fyrirtæki er m.a. framleiðandi á Toro matvörum og fleiri þekktum vörumerkjum. Fyrirtækið er fyrirferðarmikið á evrópskum markaði og hefur keypt upp mörg matvælafyrirtæki víða í heimsálfunni. Matvælasvið Orkla hefur vaxið mikið á liðnum árum og mun vaxa enn frekar á næstunni, en fyrirtækið hefur ákveðið að stækka pítsugerð sína í bænum Stranda í vesturhluta Noregs. Þar eru í dag framleiddar frosnar pítsur. Stóraukinn ásókn í skyndibita í Noregi hefur ýtt undir þessi fjárfestingaáform og þau eru af stærri gerðinni, upp á rúma sex milljarða íslenskra króna!
Þessi eina pizzugerð skiptir norska kúabændur verulegu máli, enda kaupir Orkla gríðarlegt magn af osti fyrir pizzugerðina og eftir stækkun framleiðsluaðstöðunnar í bænum Stranda er gert ráð fyrir að þessi eina pítsugerð mun árlega kaupa ost sem unninn er úr um 50 milljón lítrum af norskri mjólk. Það magn svarar til ársframleiðslu um 300 norskra kúabúa/SS.