5 hektara fjós í Texas!
17.07.2010
Öðru hverju heyrist hérlendis talað um stór bú eða verksmiðjubú en því fylgir sjaldan skýring á því hvað slíkt er. Vissulega er um huglægt mat að ræða, en oftast miða flestir við þá stærð búa þegar fjölskylda sinnir ekki lengur búinu og ráða þarf fjölda starfsmanna svo unnt sé að sinna verkum. Hér á landi, rétt eins og í öðrum löndum, hafa kúabúin verið að stækka ár frá ári og er einfaldasta skýringin sú að bændur ná að komast yfir fleiri verk í dag en áður, sem og stóraukin afköst kúa í mörgum löndum.
Í Danmörku er fjölskyldubústærð í dag nálægt því að vera um 150 kýr eða um 1,3-1,4 milljón lítra framleiðsla. Afköst á þessum búum liggja í kringum 70 kýr/ársverk og vinna því oftast á slíkum fjölskyldubúum tveir starfsmenn.
Í mörgum öðrum löndum er þessu svipað farið, þ.e. á bak við ársverkið eru þetta 50-80 kýr en það fer að mestu eftir því hve afkastamiklar kýrnar eru.
Í Panhandle í Texas í Bandaríkjunum er þessu svolítið öðruvísi farið en bræðurnir Nelson og Jason Faria reka þar stærsta fjósið og eins og Íslendingar þekkja þá er allt stórt í Texas!
Þarna er bræðurnir með 7.500 kýr í einu fjósi sem er 5,4 hektarar að stærð eða 54 þúsund fermetrar. Fjósið er með vélrænni loftræstingu og vegna mikilla hita á svæðinu er í því sérstakt úðunarkerfi sem kælir niður kýrnar í verstu hitum. Kýrnar er fóðraðar á heilfóðri og í legubásunum er notaður endurunninn undirburður. Innan fjóssins eru tíu 750 kúa deildir og eru kýr úr hverri deild mjólkaðar saman, tvisvar á dag.
Í fjósinu er stærsti hringekjumjaltabás Norður-Ameríku, þó ekki í heimi. Básinn, sem er af DeLaval gerð, tekur 106 kýr í hringinn og keyrir hringinn á 8 mínútum og 45 sekúndum. Þetta þýðir í raun að afköst við mjaltir eru u.þ.b. 700 kýr á klukkutíma.
Þessi gríðarlega miklu afköst þýða eðlilega að í fjósinu eru framleiddir nokkrir lítrar mjólkur á dag, en dagsframleiðslan er um 150 þúsund lítrar! Fyrir slíka framleiðslu þarf mikla afkastagetu mjólkurkælis en enginn mjólkurtankur er á búinu, heldur er dælt beint í stóra mjólkurflutningabíla sem keyra stöðugt mjólk frá fjósinu í næstu afurðastöð sem er ostabúið Hilmar Cheese Plant í rúmlega 70 km fjarlægð frá fjósinu. Hilmar Cheese afurðastöðin er stærsti framleiðandi á osti í heiminum í einni afurðastöð, en fyrirtækið tekur á móti 7,1 milljón lítrum mjólkur á dag til ostaframleiðslu.
Fjósið er hluti af starfsemi Faria fjölskyldunnar en foreldrar bræðranna, Sebastian og Maria, eiga það að stærstum hluta. Þau búa hinsvegar í Arizona en segja ástæðu þess að þetta stóra fjós var byggt í Panhandle í Texas vera fjórþætta:
– Jákvætt umhverfi og viðhorf
– Takmarkalítið landrými sem gefur möguleika mikilli ræktun og einnig á stækkun
– Ostabúið Hilmar Cheese Factory, sem getur aukið framleiðsluna verulega
– Yfirdrifið vatn aðgengilegt fyrir bæði fjós og vökvun akra
Fjölskyldan hefur þegar tekið fyrstu skóflustunguna að viðbyggingu við fjósið, en til stendur að byggja annað eins fjós sem rúmar jafn margar kýr! Nýja fjósið ætti að vera tilbúið fyrir kýrnar haustið 2011 og verður þá fimmta fjós fjölskyldunnar, en fyrir eiga þau þrjú önnur fjós.
Progressive Dairyman og Kvæg 5/2010