5. fundur stjórnar LK 2018-2019
22.06.2018
Fimmti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 30. maí kl. 21:00. Símafundur.
Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 4. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Efnahalli prótein og fitu í mjólk. Munur á sölu á prótein- og fitugrunni hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 2013 þegar fitusala tók fram úr próteinsölu. Í dag er munurinn 13+ milljón lítrar. Hver milljón lítra kostar iðnaðinn um 80 milljónir króna. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um möguleg viðbrögð vegna þessa og óskað hefur verið eftir áliti stjórnar LK. Fundur er áætlaður hjá samráðsnefnd SAM og BÍ um miðjan júní. Framkvæmdastjóra falið að rita bréf til stjórnar SAM með áherslum LK.
Ályktun:
Stjórn LK telur ljóst að ójafnvægi í sölu á prótein- og fitugrunni verði ekki mætt öðruvísi en með nokkrum samverkandi aðgerðum. Sem fyrsta skref þarf að útfæra og virkja 12. grein samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar, þar sem kveðið er á um breytt umhverfi verðlagningar. Með því að veita afurðastöðvum heimild til þess að verðleggja vörur sínar út á markað, innan ákveðinna tekjumarka, má ætla að staða iðnaðarins taki miklum breytingum til hins betra. Leggur stjórn LK höfuðáherslu á að þessi leið nái fram að ganga. Samhliða þessu þarf að ráðast í markaðs- og söluátak á próteinríkum vörum.
Komi til þess að endurskoða forsendur ákvarðana um greiðslumark þarf að greina áhrif þess á heildartekjur til bænda og hvað mismunandi sviðsmyndir þýða fyrir bændur og iðnaðinn. Mikilvægt er að ef ráðist verði í slíkar aðgerðir verði ákvörðun um slíkt kynnt vel fyrir bændum og í góðum tíma. Telur stjórn LK varhugavert að miða greiðslumark alfarið við próteinsölu og leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að innanlandsþörf á mjólkurvörum, bæði á prótein- og fitugrunni, sé sinnt með íslenskri framleiðslu hverju sinni.
- Kjötmarkaðurinn. Breytingar hafa verið á verðskrám hjá tveimur sláturleyfishöfum í vor, SS og KS. Biðlistar hafa styst mjög og víða er töluverð eftirspurn eftir gripum. KS lækkaði verð um 7% 1. maí og 28. maí breyttist verðskrá SS sem samsvaraði 4% verðlækkun á ungnautum og 3% hækkun á kúm. Þrýstingur hefur verið frá kaupendum um lægra verð, m.a. sökum mikilla launahækkana í þjóðfélaginu og aukins innflutnings. Mikið rætt um spálíkan í kjötframleiðslu og mikilvægi þess að nautakjötsframleiðendur hafi sérstakan ráðunaut. Stjórn mun funda með aðilum frá RML á næsta stjórnarfundi til að fara yfir málin.
- Önnur mál.
- Búið að boða fund hjá BÍ 21. júní nk. til að ræða endurskoðun búvörusamninga. Stefnt er á næsta stjórnarfund miðvikudaginn 13. júní í Bændahöllinni.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 22.20
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda