Beint í efni

5. fundur stjórnar LK 2017-2018

21.11.2017

Fimmti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2017-2018, var haldinn símleiðis, þriðjudaginn 24. október.

Á fundinn mættu Arnar Árnason formaður, Elín Heiða Valsdóttir, Herdís Magna Gunnarsdóttir, Pétur Diðriksson og Rafn Bergsson, sem annar varamaður fyrir Bessa Frey Vésteinsson. Axel Kárason, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður setti fund klukkan 16 og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert
1. Umsögn um búvörusamningsreglugerðir
Orðsending kom frá framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands að bráðlega ætti að fara yfir hvernig reglugerðir er varða framkvæmd búvörusamninga, hafi reynst og bað um umsögn frá LK.
Stjórnarmenn LK nefndu, og ræddu, ýmis atriði sem upp hafa komið hjá bændum þar sem þær skilgreiningar sem eru innan reglugerðanna eiga erfitt með að ná yfir þær aðstæður sem viðkomandi bændur eru í. Var það að mestu tengt fjárfestingarstuðningi og skilgreiningar á nýliðum í búskap. Einnig rætt að vinnulag við framkvæmd og eftirlit með fjárfestingarstuðningi megi bæta.
Framkvæmdastjóra falið að taka saman það sem fram kom í umræðum og koma því áfram til framkvæmdastjóra BÍ, og sömuleiðis að kanna hvort vilji sé fyrir því ræða vinnureglur við framkvæmd reglugerða, til að vinnuferlið gangi betur fyrir sig.
2. Tilnefning hjá Samtökum Afurðastöðvar í Mjólkuriðnaði
SAM hefur óskað eftir því að LK tilnefni fulltrúa í vinnuhóp fyrir gerð spálíkans sem áætli mjólkurframleiðslu. Tillaga um að Arnar Árnason formaður taki sæti í vinnuhópnum fyrir hönd LK var samþykkt samhljóða.
3. Velferðarsjóður BÍ – umsögn um drög að samþykktum og úthlunarreglur
Bændasamtök Íslands óskuðu eftir umsögn um drög að samþykktum og úthlutunarreglum fyrir velferðarsjóð BÍ. Stjórn var sammála um að þarna væri um afar jákvætt málefni að ræða, gerði ekki efnislegar athugasemdir í umsögn til BÍ, en brýndi að fjármögnun sjóðsins væri trygg og verklag við úthlutun skýrt.
4. Staða í stefnumótun
Ákveðið að nú færi þessi vinna af hugmynda- og skipulagsstigi og yfir á framkvæmdastig. Framkvæmdastjóra falið að skipa formlega í vinnuhópa, og funda með utanaðkomandi ráðgjafa um uppbyggingu stefnumótunarvinnunar.
5. Lán til NautÍs
Nautgriparæktarmiðstöð Íslands hefur óskað eftir því að LK, sem einn af eigendum, veiti NautÍs lán að fjárhæð 10,2 milljónir króna til að ljúka við uppbyggingu einangrunarstöðvarinnar á Stóra-Ármóti. Stjórn samþykkti að gefa vilyrði fyrir lánveitingu, með því skilyrði að aðrir eigendur gerðu slíkt hið sama. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá málinu í samstarfi við NautÍs.
6. Önnur mál
Tollamál tengd innflutningi á nautakjöti rædd, og nefnt að brýn þörf væri á því af hálfu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að bæta bæði tollflokkun, og vinnulag þannig að þyngd á innflutti kjöti sé reiknuð með beini. Framkvæmdastjóra falið að koma málinu í farveg og fylgja fast eftir.
Félagsaðildin var rædd, og bent á að vinna þurfi úr því hversu margir félagsmenn séu skráðir á hvern innleggjanda, svo hægt sé að reikna fjölda aðalfundarfulltrúa fyrir hvert félag. Framkvæmdastjóri tók það að sé að fara yfir skráningar og senda niðurstöður heim í héruðin.

Fleira var ekki gert og fundi slitið 18.05

Axel Kárason
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda