Beint í efni

5. fundur LK 2020-2021

05.02.2021

Fimmti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021 var haldinn miðvikudaginn 6. janúar kl. 13:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Sigurbjörg Ottesen, Vaka Sigurðardóttir og Guðrún Eik Skúladóttir sem varamaður fyrir Rafn Bergsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

 1. Fundargerð 4. fundar stjórnar LK starfsárið 2020-2021.Fundargerð samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
 2. Aðalfundur LK 2021.Samkvæmt samþykktum LK skal boða aðalfund LK fyrir lok 10. janúar nk. Búið er að setja Búnaðarþing dagana 22.-23. mars og páskahelgin er 3.-4. apríl. Stjórn sammála að boða aðalfund Landssambands kúabænda 9.-10. apríl nk. Stefnt er á staðarfund, þó með fyrirvara um samkomutakmarkanir sem kunna að verða í gildi þá. Umræður um félagskerfi bænda sem verður líklega stærsta mál fundarins. Framkvæmdastjóri útbýr minnisblað fyrir næsta stjórnarfund. Framkvæmdastjóra falið að undirbúa formannafund aðildarfélaga LK sem stefnt er á í byrjun febrúar.
 3. Verðbreytingar nautgripakjöts hjá SS.Tilkynning barst á mánudag um verðbreytingar hjá SS sem taka gildi 18. janúar nk. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir: Vegna birgðasöfnunar og versnandi stöðu á kjötmarkaði lækkar innleggsverð nautgripa frá og með 18. janúar næstkomandi. Allir flokkar nema ungkálfar lækka um 5% og gripir sem eru undir 200 kg lækka um 3-5% umfram almennu lækkunina. Ungkálfar eru hækkaðir um 10% til að hvetja til minni ásetnings. Sjá nánar eftirfarandi verðtöflur sem taka gildi mánudaginn 18. Janúar.“ https://www.ss.is/nautgripir-afurdaverd/ Stjórn lýsir miklum vonbrigðum með stefnu þá sem birtist í verðbreytingunum og mótmælir þeim harðlega. Erindi verður sent á stjórn SS vegna málsins.
 4. Önnur mál.
  • Fundur með framkvæmdanefnd búvörusamninga í lok desember. Tillaga að 145 milljón lítra greiðslumarki fyrir árið 2021 samþykkt. Aukið fjármagn í þróunarfé nautgriparæktar á árinu 2021 samþykkt, sjá nánar í fundargerð 4. fundar. Hækkun á sláturálagi fyrir nautgripi um 30% samþykkt, sjá nánar í fundargerð 1. fundar. Fjármagn í markaðsstarf nautakjötsframleiðslu samþykkt.
  • Formaður gerir grein fyrir stöðu í starfshópi um verðlagsmál.
  • BÍ hefur óskað eftir samstarfi um tollamál í formi vinnuframlags framkvæmdastjóra LK. Stjórn samþykkir.
  • Bessi vekur athygli á umræðu um plastnotkun í landbúnaði og leggur til að LK skoði nánar.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15:30

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda