
42. fundur LK 2019-2020
31.10.2020
Fertugasti og annar fundur stjórnar Landssambands kúabænda var haldinn mánudaginn 26. október kl. 20:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Jónatan Magnússon og Rafn Bergsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
- Fundargerð 41. fundar stjórnar LK samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Fjárhagsáætlun 2020. Stjórn samþykkir að leggja fyrir aðalfund í núverandi mynd.
- Aðalfundur 2020.
- Farið yfir uppfærðar stjórnartillögur. Stjórn samþykkir.
- Farið yfir tillögur að texta til að sameina keimlíkar tillögur ásamt öðrum gögnum sem fara til nefnda. Samþykkt.
- Framkvæmdastjóri fór yfir starfsmenn fundarins og skipulag. Lokað svæði fyrir fulltrúa verður aðgengilegt á morgu, þriðjudaginn 27. október.
- Hámarksverð á markaði. Framkvæmdastjóri fer yfir sameiginlegt svarbréf LK og BÍ vegna fyrirspurnar félagsmanns um feril þess að hámarksverð á markaði með greiðslumark mjólkur var ákveðið sem nemur þreföldu afurðastöðvaverði. Málið hefur verið nokkuð til umræðu meðal bænda undanfarið. Svarið birtist hér í heild sinni og er birt með leyfi viðkomandi félagsmanns:
Ferill máls
Líkt og kemur fram í bréfi þínu þá var sannanlega krafan frá bændum að hámarksverði skildi haldið í sem nemur tvöföldu afurðastöðvaverði hverju sinni og var farið með þá kröfu í samningaviðræður um endurskoðun búvörusamninga 2019. Ekki náðist samstaða um að festa það fyrirkomulag í sessi en niðurstaðan úr þeim viðræðum við ríkið varð sú að ríkið var þá ekki tilbúið að setja hámarksverð, nema að undangengnum markaði/mörkuðum án nokkurs hámarksverðs til að meta þörfina á því að setja hámarksverð á viðskipti með greiðslumark.
Var ritað undir samkomulag um endurskoðun með þeim hætti. Í kjölfarið kom undirskriftarlisti frá kúabændum sem kröfðust þess að samninganefndir settust aftur að borðinu og skýrari niðurstaða fengist í þessi mál. Úr varð að gerð var eftirfarandi bókun við samkomulag um endurskoðunina: „Aðilar eru sammála um að í janúar 2020 muni framkvæmdanefnd búvörusamninga taka afstöðu til þess hvort setja skuli hámarksverð á greiðslumark á fyrsta markaði með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Tillaga verði lögð fyrir ráðherra eigi síðan en 1. febrúar 2020. Hámarksverð getur aldrei orðið hærra en þrefalt lágmarksverð mjólkur til framleiðenda eins og það er á hverjum tíma.“ Í kjölfarið var samkomulag um endurskoðun samþykkt af bændum með 76% atkvæða.
Í kjölfarið fóru bændur með óbreytta kröfu um tvöfalt afurðastöðvaverð í framkvæmdanefnd búvörusamninga og náðist það í gegn að það yrði fyrirkomulagið á fyrsta markaði. Ekki reyndist unnt að ná sátt við ríkisvaldið um að festa það í sessi, þrátt fyrir viðvaranir fulltrúa bænda um að ef hámarksverð á markaði fyrir greiðslumark mjólkur myndi ekki gilda til lengri tíma en til hvers og eins markaðar í senn, þá myndi slíkt skapa óvissu og gæti haft mikil áhrif á framboð og eftirspurn greiðslumarks. Var umsögn þess eðlis send á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið við reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1252/2019 um stuðning í nautgriparækt þann 21. febrúar 2020. Ekki var tekið tillit til hennar við útgáfu reglugerðarinnar.
Þann 8. júní fór sameiginlegt erindi frá LK og BÍ til framkvæmdanefndar þar sem gerð var tillaga að tvöföldu hámarksverði á markaði greiðslumarks mjólkur og sú ákvörðun myndi gilda út samningstímann eða út árið 2026, þó þannig að krónutala yrði uppfærð samhliða breytingum á lágmarksverði til bænda hverju sinni.
Þann 12. júní bárust athugasemdir frá fjármálaráðuneytinu við tillögu fulltrúa bænda og óskað var eftir frekari rökstuðningi. Ljóst var að ríkisvaldið taldi það þá ekki í samræmi við endurskoðun samningsins að setja hámarksverð á markað nema að undangengnum markaði/mörkuðum án nokkurs hámarksverðs. Þann 15. júní var sendur frekari rökstuðningur frá LK og BÍ fyrir áðursendri tillögu.
Þann 25. júní var óskað eftir fundi í framkvæmdanefnd búvörusamninga um málið og ítrekað 17. júlí þar sem þá hafði málið ekkert þokast áfram, en bændur þurftu að skila inn tilboðum fyrir septembermarkað fyrir lok dags 10. ágúst. Ljóst mátti þykja á samskiptum fulltrúa bænda við ríkisvaldið á þeim tíma að töluvert væri á milli afstöðu hvors samningsaðila er varðaði hámarksverð á markaði. Ekki bar saman túlkun samningsaðila á nauðsyn hámarksverðs yfir höfuð eða hvar það skyldi þá liggja.
Á fundi framkvæmdanefndar búvörusamninga þann 22. júlí lögðu LK og BÍ fram sáttamiðlunartillögu um að hámarksverð yrði sett sem þrefalt afurðastöðvaverð en að sú ákvörðun myndi þá gilda fram að næstu endurskoðun samningsins 2023. Það hámarksverð var sannanlega hærra en verðið sem var með innlausn ríkisins og á fyrsta kvótamarkaði eftir endurskoðun, en kemur þó í veg fyrir óeðlilega háa verðmyndun á sama tíma, sem var orðin hætta á sökum mikils þrýstings sem myndast hefur undanfarin ár. Við sáttamiðlunartillögu þessa var sérstaklega litið til verðþróunar á greiðslumarki.
Verðþróun greiðslumarks
Verð á greiðslumarki frá því uppboðsmarkaður var tekinn upp árið 2010 og út árið 2013 var ansi hátt, eða milli 360-380 krónur á lítra á núvirði, en var þó nokkuð lægra en tíðkaðist fyrir tíma tilboðsmarkaðarins. Ef litið er til jafnvægisverðs á markaði 1. nóvember 2013, þegar hvað hæst lét, þá nam jafnvægisverðið um fjórföldu afurðastöðvaverði þessi tíma. En þá var hins vegar greitt fullt verð fyrir umframmjólk og því þörf bænda fyrir kvóta með allt öðrum hætti en nú er.
Eftirspurn eftir greiðslumarki dróst svo saman uppúr áramótum 2013/2014 og verðið lækkaði, en skýringu þess má rekja til að þá fékkst sama verð fyrir umframmjólk og mjólk sem framleidd var innan greiðslumarks. Sú er sannanlega ekki staðan í dag og því eftirspurn eftir greiðslumarki meiri. Af því má ætla að ef ekki væri fyrir hámarksverð yrði verð greiðslumarks ansi hátt og jafnvel mun hærra en það sem tíðkaðist á árum áður, þ.e. á þeim tíma sem ekki fékkst fullt verð fyrir umframmjólk. Sett hámarksverð í dag er um 20% lægra á núvirði en jafnvægisverð þegar hæst lét eftir að tilboðsmarkaður var tekinn upp.
Spurningar og svör
1) Þegar aðalfundur LK er búinn að álykta um að hámarksverð á kvótamarkaði væri sem nemur tvöföldu afurðastöðvarverði þá tölduð þið ásættanlegt að hámarksverð yrði sett sem þrefalt afurðastöðvaverð hvers tíma og gerðuð tillögu um það á fundi framkvæmdanefndar búvörusamninga. Hvaðan fenguð þið umboð til þessarar hækkunar?
Í stjórn LK er kosið á hverju ári og BÍ annað hvert ár og er sitjandi stjórnarfólki hverju sinni þar með treyst fyrir því að vera fulltrúar greinarinnar og landbúnaðarins í heild. Kröfu bænda um tvöfalt afurðastöðvaverð var sannanlega haldið mjög stíft fram líkt og rakið er hér að ofan. Þegar ljóst var að ekki myndi nást samkomulag um tvöfalt afurðastöðvaverð er það í höndum kosinna fulltrúa að vinna að ásættanlegri niðurstöðu fyrir greinina. Að halda markað án hámarksverðs var ekki í boði að mati stjórna LK og BÍ og var barist hart gegn því að svo yrði. Þegar um samninga tveggja aðila er að ræða, þ.e. bænda og ríkisvaldsins í þessu tilfelli, er ljóst að stundum þarf að gera málamiðlanir sem allir aðilar geta sæst á.
2) Í ljósi þess að þarna sömduð þið um verulega hækkun á útgjöldum þeirra kúabænda sem vilja/þurfa aukið greiðslumark og í trássi við þeirra vilja, er í hæsta máta einkennilegt að festa það verð til 3ja ára. Stöðugleiki skiptir jú miklu en 50% hækkun á verði greiðslumarks getur seint kallast stöðugleiki, sem til viðbótar heftir greinina í að takast á við það rekstrarumhverfi sem henni er ætlað að mæta og forsvarsmönnum samtaka bænda er ætlað að verja. Hvernig eykur þessi stöðugleiki samkeppnishæfni greinarinnar og hvaða hagsmuni er verið að verja?
Líkt og kemur fram í bréfi þínu er hámarksverð ekki fast verð. Það er í höndum hvers framleiðanda að meta hvað tilboð viðkomandi hljóðar uppá, en búið er að tryggja að verð verði þó aldrei hærra en sem nemur þreföldu afurðastöðvaverði. Það er alveg ljóst í huga stjórna LK og BÍ að ekki er hægt að bjóða bændum uppá viðlíka óvissu og var í kringum fyrsta markað þessa árs, þar sem framleiðendur vissu ekki hvaða fyrirkomulag yrði á næsta markaði á eftir eða þarnæsta.
Bændur verða að geta gert rekstraráætlanir fram í tímann og með því að geta treyst á að fyrirkomulag tilboðsmarkaðar með greiðslumark mjólkur verður óbreytt næstu ár gerir það bændum auðveldara að taka ákvarðanir í rekstri, t.a.m. tímasetningar viðskipta með kvóta. Þá ætti það að veita bændum meira svigrúm í aðrar ákvarðanir á borð við tímasetningar framkvæmda, fjárfestingar í tækjabúnaði o.fl. Stjórnir LK og BÍ telja að niðurstaða um þrefalt afurðastöðvaverð, bundið út árið 2023, sé ásættanleg með hagsmuni greinarinnar í heild í huga.
3) Leiðara varaformanns LK er ekki hægt að skilja öðru vísi en svo, að krafa um hækkun á verði greiðslumarks hafi komið frá öðrum en fulltrúa bænda, sbr. „það náðist ekki“. Í fundargerð framkvæmdanefndarinnar kemur skýrt fram að tillaga um þrefalt afurðastöðvaverð kom frá bændum sjálfum. Hvað gengur varaformanni samtakanna til með að skýra ekki satt og rétt frá hvernig niðurstaðan um þrefalt afurðastöðvaverð er til komin?
Líkt og rakið er hér að ofan var ítrekað lagt til af hálfu fulltrúa bænda að halda hámarksverði í tvöföldu afurðastöðvaverði. Það kemur einnig fram í leiðara varaformanns LK 7. ágúst sem vísað er í, en þar segir: „Fulltrúar bænda í framkvæmdanefnd búvörusamninga höfðu svo einnig lagt til tvöfalt afurðastöðvaverð og að sú ákvörðun skildi gilda út samningstímann til ársins 2026 en það náðist ekki.“
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 21:15.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda