40% lækkun á kvóta í Danmörku
27.05.2002
Um miðjan maí var kvótamarkaðinum í Danmörku lokað og tilboð um kaup og sölu reiknuð upp. Í ljós kom að vegna gríðarlegs framboðs á greiðslumarki féll verðið um nærri 40% frá síðasta verði (nóvember 2001) og benda fyrstu útreikningar til þess að verðið muni liggja á bilinu 22,3 – 22,7 kr/kg. Til samanburðar er verð á kg mjólkur til bænda í Danmörku nú um 25,2 kr. Hlutfallið milli kvótaverðs og mjólkurverðs er því um 0,89 en síðustu tölur hérlendis benda til þess að sama hlutfall sé um 2,70.
Hið mikla fall greiðslumarksins kemur til vegna framboðs á 262 milljónum kg frá 950 bændum, en á sama tíma óskuðu 2.080 bændur eftir að kaupa kvóta, en ekki nema 123 milljónir kg.
Vegna þessa munu einungis um 415 bændur fá seldan rétt að þessu sinni, þar sem hinir buðu sitt greiðslumark til sölu á of háu verði, en verð á greiðslumarki er sk. jafnvægisverð sem leiðir til þess að þeir sem krefjast of hás verðs á greiðslumarki fá ekki selt. Gert er ráð fyrir að um 1.975 bændur fái keyptan framleiðslurétt að þessu sinni. Nánar má lesa um kvótamarkaðinn og verðmyndunina á dönskum vef: www.maelkeudvalget.dk