Beint í efni

40. fundur LK 2019-2020

23.10.2020

Fertugasti fundur stjórnar Landssambands kúabænda var haldinn fimmtudaginn 8. október kl. 12:30 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, og Jónatan Magnússon. Rafn Bergsson boðaði forföll og varamenn gátu hvorugir mætt. Pálmi Vilhjálmsson frá MS var gestur fundarins undir lið 1. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

 1. Mjólkurframleiðslan. Pálmi Vilhjálmsson frá MS gestur. Farið yfir framleiðsluspá 2020, uppfærð í ágúst. Áður hafði framleiðsla verið áætluð 148,5 en ný áætlun bendir til þess að ársframleiðslan lendi í um 151 milljón lítra. Mjólkurkýr eru nokkuð færri en árin á undan en framleiðslan heldur velli sem skýrist af aukinni nyt. Framleiðslan hefur verið nokkuð stöðug og ekki er útlit fyrir breytingar þar. Framleiðsla á 12 mánaða tímabili var í 153,3 milljónir lítra frá september 2019 til ágúst 2020. Salan hefur hins vegar dregist saman á fitugrunni og er í 144,7 m. ltr. og á próteingrunni er salan komin niður í 122,3 m.ltr. Greiðslumark ársins er 145 milljón lítrar. Ágústmánuður var ekki góður sölumánuður en september var ágætur. Það sem af er október heldur salan í við fyrra ár. Veitinga- og hótelmarkaður hefur nánast hrunið. Verslunarmarkaður aukist en fyrirtækjamarkaður á móti dregist saman. Samdrátturinn ásættanlegur miðað við covid-ástandið. Farið yfir vinnu vegna jurtaostamálsins og misræmis í tollskráningum.
 2. Staða á nautakjötsmarkaði. Nú hafa 4 sláturleyfishafar lækkað verð fyrir nautgripi frá bændum. Verðlækkanirnar nema allt að 30% í kýrkjöti og 20% í ungneytum í lakari flokkum. Þessar lækkanir hafa gríðarmikil áhrif á bændur og lækkar launaliður bóndans umtalsvert við hverja verðlækkun. SS hefur boðað nýja verðskrá 1. nóvember þar sem verð hækkar aftur fyrir hærri flokka frá fyrri breytingu. Varaformaður birti grein í nýjasta tölublaði Bændablaðsins og framkvæmdastjóri og verkefnastjóri yfirlitsgrein í tölublaðinu þar á undan. Framkvæmdastjóri og formaður funduðu með landbúnaðarráðherra 7. október um nýju úthlutunaraðferð tollkvóta. Von er á verðkönnun til að sjá hvort lækkun á tollkvótum hafi skilað sér til bænda. Skýrsla um þróun tollverndar á landbúnaðarvörum væntanleg. Miklar umræður um erfiða stöðu og stjórn leggur áherslu á að bændur eigi ekki að framleiða vörur launalaust. Umræður um mögulega hagræðingu afurðastöðva. Framkvæmdastjóra falið að vinna drög að ályktun frá stjórn.
 3. Tollamál. Framhald af umræðum við 1. lið. Framkvæmdastjóri fer yfir framvindu mála.  Formaður BÍ ásamt fulltrúum MS funduðu með fjármálaráðherra 2. október sl. til að ræða tollamál. Þrátt fyrir upplýsingar í júní sl. um að mozzarellaostur, sem er að stærstum hluta mjólkurostur en hefur hingað til verið tollaður sem jurtaostur, yrði þaðan í frá flokkaður líkt og annar ostur hefur aldrei verið flutt inn jafn mikið á því tollnúmeri og í liðnum ágústmánuði.
 4. Starfsmannamál. Umræður um nautakjötsverkefni.
 5. Aðalfundur. Ný dagsetning aðalfundar var boðuð í tölvupósti til stjórna aðildarfélaga 29. september sl. Fundurinn verður haldinn 6. nóvember og hefur verið kynnt á naut.is. Með hertu samkomubanni er ljóst að aðalfundur þarf að fara fram í gegnum fjarfundarbúnað. Framkvæmdastjóri fer yfir lausnir sem í boði eru. Ákveðið að boða til formannafundar LK þriðjudaginn 13. október.
 6. Sæðingagjöld. Óskað verður eftir samvinnu við BÍ við gerð tillögu að fyrirkomulagi sæðinga með það að markmiði að jafna kostnað.
 7. Önnur mál
 • Upplýsingabeiðni SKE. Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir lista yfir félagsmenn með vísan til 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Vegna samruna Kjarnafæðis hf., Norðlenska matborðsins ehf. og SAH Afurða ehf.
 • Umsóknir í þróunarfé nautgriparæktarinnar. LK er meðumsækjandi hjá RML vegna fræðsluverkefnis í hjarðeldi. Einnig sótt um styrk vegna vörumerkis fyrir íslenskt gæðakjöt.
 • Þátttaka LK í kolefnisverkefni EFLU verkfræðistofu. LK var meðumsækjandi í Matvælasjóð vegna verkefnis sem snýr að því að reikna kolefnisspor íslensks nautakjöts og mjólkur. Snýst verkefnið um að framkvæma útreikninga samkvæmt aðferðafræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment) og byggir vinnan þá að verulegu leyti á þeirri vinnu sem LK lét framkvæma í skýrslu sem kom út fyrr á þessu ári, þar sem reiknað var kolefnisspor greinarinnar í heild sinni. Samstarf og framlag af hálfu LK verður í formi samráðsvinnu og gagna.
 • Formaður, framkvæmdastjóri og verkefnastjóri LK funduðu með MATÍS 17. september þar sem rætt var um verkefni framundan sem snúa að nautgriparækt og bækling um framleiðslu íslensks nautgripakjöts.
 • BÍ óskaði eftir viðhorfi LK til þess að kanna hagræðingarmöguleika með því að stilla betur saman rekstur á þeim vefsíðum sem haldið er úti. Tók LK jákvætt í að vinna málið áfram, án skuldbindingar á þessum tímapunkti.
 • Framkvæmdastjóri óskar eftir heimild fyrir kaupum á borðtölvu. Samþykkt.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 14:45

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda