4. fundur stjórnar LK 2018-2019
04.06.2018
Fjórði fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 23. maí 2018 kl.21:00. Símafundur.
Á fundinn mættu Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson, Herdís Magna Gunnarsdóttir, Bessi Freyr Vésteinsson og Davíð Logi Jónsson sem varamaður fyrir Rafn Bergsson sem boðaði forföll. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður setti fund og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert:
- Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 3. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Kosningar í embætti innan stjórnar. Pétur Diðriksson var kosinn varaformaður með 5 atkvæðum og Herdís Magna Gunnarsdóttir ritari með 5 atkvæðum.
- Dagsetning fyrir aðalfund 2019. Stjórn sammála um að stefna á 22.-23. mars á Hótel Sögu.
- Umsögn LK við breytingu á tollalögum. Á Alþingi liggur nú fyrir frumvarp landbúnaðarráðherra þess efnis að opna tollkvóta fyrir upprunatengda osta frá Evrópusambandinu að fullu á yfirstandandi ári. Málið er statt í atvinnuveganefnd og skila skal inn umsögnum fyrir lok dagsins í dag, 23. maí. Í umsögn LK gera samtökin engar athugasemdir við niðurfellingu tolla af móðurmjólk fyrir hvítvoðunga sbr. 2. gr. frumvarpsins en leggjast alfarið gegn því að 1. gr. frumvarpsins, er varðar hröðun á innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings sérosta, verði samþykkt. Ekki var ráðist í að hraða aðgangsheimildum á innri markað Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir samhliða, líkt og kveðið er á um í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar við 3. umræðu um búvörulög í september 2016, og því eru ekki nokkrar forsendur fyrir því að opna fyrir allan tollkvótann á sérosti hingað til lands á fyrsta ári í stað þess að magnið þrepist upp líkt og samningurinn milli Íslands og ESB kveður á um. Heildarframleiðsla sérosta hér á landi er um 240 tonn og heildar tollkvóti fyrir sérosta er 230 tonn eða tæp 96% af því. Það er því afar nauðsynlegt að aðlögunartíminn, sem gert er ráð fyrir í samningnum, standi. LK vekur athygli á því í umsögn sinni að ekki er einungis um að ræða osta á borð við parmesan og Roquefort heldur eru einnig brauðostar á listanum sem eru í beinni samkeppni við íslenskar vörur. Hægt er að lesa umsögn LK með því að smella hér.
- Afkomuvöktun bænda hjá Hagstofunni. Á aðalfundi LK í apríl 2018 var ályktað um „…nauðsyn þess að á hverjum tíma liggi fyrir upplýsingar um rekstur, efnahag og afkomu kúabúa. Því hvetur fundurinn stjórn LK til að þrýsta á Hagstofu Íslands að standa skil á þessum upplýsingum.” Samkvæmt upplýsingum LK má búast við fyrstu tölum frá Hagstofunni í kringum mánaðarmótin maí/júní.
- Efnahalli prótein og fitu í mjólk. Herdís fer yfir málið sem fulltrúi LK í stjórn SAM. Miklar umræður um hugmyndir sem fram hafa komið um möguleg viðbrögð við mismuni á sölu á fitu- og próteingrunni. Fundað verður um málið í samstarfsnefnd BÍ og SAM í byrjun júní. Óskað hefur verið eftir áliti stjórnar LK á mögulegum viðbrögðum. Stjórn sammælist um að taka símafund miðvikudagskvöldið 30. maí nk. kl. 21.00.
- Önnur mál.
- Umræður um verkefni erfðamengisúrvals og doktorsnám á því sviði, sem tekið var til umræðu á 2. fundi stjórnar 25. apríl sl.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 22.05.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda