4. fundur stjórnar LK 2017-2018
08.10.2017
Fjórði fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2017-2018, var haldinn á Hótel Varmahlíð í Skagafirði, föstudaginn 8. September kl. 13.
Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Davíð Logi Jónsson, sem fyrsti varamaður fyrir Elínu Heiðu Valsdóttur. Axel Kárason, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
1. Félagatal. Tölur yfir skráningu félaga eftir héraðsfélugum kynntar og yfir landið allt. Hlutfall félagsmanna af skráðum mjólkurinnleggjundum á landinu, er um 51% . Ákveðið að nú þurfi að leggjast í verulegt átak á haustdögum í að fjölga félagsmönnum. Miklar umræður um aðferðir sem náð geta best til kúabænda.
2. Haustfundir. Samþykkt að breyta fyrirkomulagi haustfunda í ár, og leita til héraðsfélaga um að samtvinna haustfundi LK við aðalfundi félagana. Framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram.
3. Stefnumótun í nautgriparækt. Formaður lagði fram nafnalista fyrir vinnuhópa stefnumótun í mjólkurframleiðslu annars vegar, og nautakjötsframleiðslu hins vegar. Samþykkt að taka málið áfram, framkvæmdastjóra falið að hafa samband við þá sem tilnefndir eru. Rætt um nánara skipulag og skipulag vinnuhópa.
Erindi Kára Gautasonar rætt. Kári vinnur verkefni tengt hagrænu vægi eiginleika í búrekstri og óskaði eftir áliti stjórnar á því hver yrði meðalbústærð eftir 10 ár, og hverjar væru framtíðarhorfur í framleiðsluaðstæðum (greiðslumarkskerfi eða ekki). Mikið rætt innan stjórnar hverjar væru framtíðarhorfur í bústærð, og mörg sjónarhorn tekin fyrir. Niðurstaðan sú að erfitt er að sjá fyrir sér nákvæma þróun að svo stöddu, en bent á að Auðhumla hefur gert könnun meðal sinna félagsmanna um þeirra framleiðsluplön og sömuleiðis könnun LK á viðhorfi bænda til núverandi greiðslumarkskerfis.
4. EUROP kjötmatið. Gögn um áhrif breytinga á kjötmati á tekjur bænda miðað við útkomna verðskrá KS kynntar og ræddar. Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS mætti á fundinn og ræddi þá reynslu sem komin er á nýja kjötmatið, og framtíðarhorfur. Hugmyndin sé að gera betur við á sem eru að skila betri skrokkum. Til að byrja með verða jafn margir verðflokkar hjá KS og matið sjálft er. Ætlunin sé svo að breyta eftir þegar verður komin frekari reynsla á hvernig skrokkar séu að flokkast. Verður í þróun á næstu mánuðum. Verðmyndun á kjötafurðum, þróun í markaðsmálum, staða íslenskra nauta í kerfinu og framleiðsluspá fyrir nautakjöt rædd. Framkvæmdastjóra falið að gera samantekt á málinu og birta á heimasíðu samtakanna.
5. Baldur Helgi Benjamínsson kynnir stöðu verkefnis um erfðamengisúrval. Sýni úr 47 nautum send til Danmerkur til erfðagreiningar. Sá hópur samanstendur af nautum með annars vegar mikla, og hins vegar litla erfðahlutdeild í stofninum. Ekki máttu vera tveir náskyldir einstaklingar í hópnum, sem þýddi að leita þurfti nokkuð langt aftur að gripum, og var sá elsti Tvistur, fæddur 1981. Niðurstöðurnar eru m.a. að 29 úr hópnum eiga sér bara einn uppruna, íslenskan. Hinir eru blandaðir, þar af tveir tölurvert. Mikið notuðu nautin eiga sér íslenskan uppruna. Stofninn er ekki skyldur stofnum á hinum norðurlöndunum, en mikið skyldur stofnum í NV-Frakklandi og Bretlandi. Sagt stuttlega frá verklega hluta verkefnisins, vefjasýnasöfnuninni. Mikið rætt að það sé hvimleitt hversu mörg bú í landinu ná ekki því að innlögð mjólk sé 90-99% af skráðri mjólkurframleiðslu í skýrsluhaldi, og að það sé takmarkandi þáttur í tilraunum sem byggja á því. Kostnaður og staða í fjármögnun rædd. Framtíðaráhrif verkefnisins á skipulag kynbótastarfs rædd, Baldur nefnir að þetta muni gjörbreyta rekstri nautastöðvar BÍ, en að atriði eins og skýrsluhaldið og kúadómar muni ekki hverfa.
6. Fundargerðir fyrri funda. Ritað var undir áður samþykktar fundargerðir 1.-3. fundar starfsárs 2017-2018.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17
Axel Kárason, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda