Beint í efni

4. fundur LK 2020-2021

06.01.2021

Fjórði fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021 var haldinn miðvikudaginn 16. desember kl. 13:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður, Rafn Bergsson, varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Sigurbjörg Ottesen og Vaka Sigurðardóttir. Þórarinn Leifsson, formaður fagráðs í nautgriparækt var gestur undir lið 2. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

  1. Afgreiðsla fundargerðar 3. fundar stjórnar 2020-2021.Fundargerð samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
  2. Tillögur fyrir framkvæmdanefnd búvörusamninga. Þórarinn Leifsson, formaður fagráðs í nautgriparækt var gestur. Miklar umræður um þörf á rannsóknum og tilraunum í landbúnaði. Ekki hægt að byggja allar rannsóknir og tilraunir á umsóknum í sjóði. Þarf að komast í fastara form og tryggja fjármögnun. Samþykkt að gera tillögu að þreföldun þróunarfés nautgriparæktar árið 2021 og fjármagna af framleiðslujafnvægislið samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar og senda á framkvæmdastjórn búvörusamninga.
  3. Reglugerðarbreytingar. Á aðalfundi LK voru samþykktar 2 ályktanir (13. Álagsgreiðslur á nautgripi og 18. Forgangsröðun fjárfestingastuðnings) sem krefjast reglugerðabreytinga. Búið að senda á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Formaður og framkvæmdastjóri áttu fund með landbúnaðarráðherra fyrr í morgun þar sem þessi mál voru m.a. rædd. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir fundi með ráðuneyti til að ræða framhaldið.
  4. Aukafjármagn til nautgriparæktarinnar af fjárlögum 2021.Úrræði stjórnvalda [vegna Covid-19] hafa ekki gagnast bændum nema að takmörkuðu leyti og er því talin þörf á að grípa til sértækra aðgerða til að mæta erfiðri stöðu stéttarinnar í kjölfar heimsfaraldursins. Stuðningur ríkisins við bændur fer í gegnum búvörusamninga. Þar eru styrkjaflokkar sem tengjast vanda bænda sem lýst er að framan. Með því að auka fjármagn til samninganna verður unnt að mæta áhrifum faraldursins á bændur og beina stuðningi til þeirra sem hafa átt við mestan vanda að glíma. Með hliðsjón af sölusamdrætti fyrstu tíu mánuði ársins á kinda- og nautakjöti auk lækkunar afurðaverðs á ull og kýrkjöti frá áramótum er áætlað að framleiðsluvirði beggja greina dragist saman um 14% á milli ára, sem nemur um 983 millj. kr. lækkun framleiðsluvirðis án opinberra styrkja árið 2019. Í ljósi framangreinds er gerð tillaga um 242,5 millj. kr. framlag til kúabænda. Umræður um fyrirkomulag útdeilingar fjármagns en það hefur ekki verið gefið út með hvaða hætti því verður ráðstafað.
  5. Fagáð í nautgriparækt. Elín Heiða Valsdóttir og Sigurbjörg Ottesen verða fulltrúar LK í stað Herdísar Mögnu Gunnarsdóttur og Andra Más Sigurðssonar frá 1. janúar 2020. Þórarinn Leifsson verður áfram formaður.
  6. Félagskerfi bænda. Uppbygging félagskerfis bænda með sameiningu búgreinafélaga í BÍ verður kynnt í Bændablaðinu á miðvikudag. Óskað hefur verið eftir athugasemdum frá LK um þær hugmyndir sem hafa verið kynntar á fundum undanfarið. Framkvæmdastjóri kynnir drög. Stjórn sammála um að vinna þær áfram og senda á stjórn BÍ síðar.
  7. Önnur mál
    1. Formaður og framkvæmdastjóri áttu fund með landbúnaðarráðherra að morgni fundardags um ályktanir af aðalfundi LK 2020.
    2. Framkvæmdastjóri mætti á nefndarfund atvinnuveganefndar fimmtudaginn 10. desember vegna úthlutunar tollkvóta.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15.45

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda