Beint í efni

39. fundur LK 2019-2020

09.10.2020

Þrítugasti og níundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda var haldinn mánudaginn 14. september kl. 13:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson og Jónatan Magnússon. Rafn Bergsson boðaði forföll og varamenn gátu hvorugir mætt. Erna Bjarnadóttir, starfsmaður MS, var gestur fundarins undir lið 1. Höskuldur Sæmundsson, starfsmaður LK, var gestur undir lið 4. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert.

  1. Tollamál. Erna Bjarnadóttir gestur. Umræður um misræmi í útflutningstölum frá Evrópusambandinu og gögnum Hagstofu um innflutning til landsins sem hleypur á hundruðum tonna í ákveðnum tollnúmerum. Umfangsmikil vinna er í gangi varðandi málið. Um gríðarstórt hagsmunamál er að ræða fyrir íslenskan landbúnað. Mikilvægt er að komast til botns í hvað liggur á bakvið misræmið.
  2. Nýjar úthlutunarreglur tollkvóta. Með hækkandi tollkvótum og lækkun verðs á þeim samhliða hefur tollvernd íslenskrar nautakjötsframleiðslu veikst til muna sem endurspeglast í versnandi afkomu bænda. Stjórn sammælist um að óska eftir fundi með landbúnaðarráðherra vegna málsins.
  3. Framsetning upplýsinga um niðurstöðu tilboðsmarkaðar með greiðslumark mjólkur. Nokkuð hefur verið haft samband við skrifstofu LK vegna kvótamarkaðarins og má rekja þau flest til ónægra eða ónákvæmra upplýsinga um úthlutun. Óskað verður eftir því við atvinnuvegaráðuneytið að birta framvegis upplýsingar sem gefa heildstæðari mynd af myndun jafnvægisverðs. Eins verður lagt til að gefnar verði nákvæmari leiðbeiningar um hvar bændur geti fundið upplýsingar um úthlutun greiðslumarks.
  4. Nautakjötsmál. Höskuldur Sæmundsson gestur. Farið yfir stöðu verkefna og nautakjötsmarkaðinn. Vinna við verðvísitölu afurðaverðs til nautgripabænda gengur vel og ætti að vera tilbúin von bráðar. HS kynnir útlit vörumerkis fyrir stjórn sem var til afgreiðslu á 36. fundi stjórnar starfsárið 2019-2020. Samþykkt að halda áfram með verkefnið útfrá kynntu útliti. Umræður um skilgreiningu á vörunni sem fær merkingu. Næsta skref er fundir með sláturleyfishöfum. Bæklingur um gæðaframleiðslu íslensks nautakjöts gengur vel.
  5. Landbúnaðarstefna. Framkvæmdastjóri kynnir drög að tillögum frá LK sem BÍ hefur kallað eftir. Áhersla á skipulag landbúnaðarlands, úttekt á lagaumhverfi landbúnaðarins, samkeppnishæfni o.fl. Stjórn samþykkir.
  6. Aðalfundur LK, fyrirkomulag. Framkvæmdastjóri fer yfir. Áætlað að fundarboð verði sent út á næstu 2 vikum og frétt í kjölfarið. Fundurinn verður í einfaldri mynd sökum Covid-19. Ekki verða ávörp gesta og ekki sent út boð líkt og fyrri ár. Fagþing verður ekki samhliða aðalfundi. Árshátíð verður ekki haldin.
  7. Haustfundir LK. Sökum frestunar aðalfundar telur stjórn rétt að haustfundir verði á borði nýrrar stjórnar. Þá væri hægt að halda seinnipart nóvember. Möguleiki á haustfundum í gegnum fjarfundarbúnað ræddur.
  8. Erfðamengisúrval. Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur samþykkt að veita fjármagn í verkefnið. Þar með eru næstu áfangar tryggðir. Umræður um áframhaldandi fjármögnun.
  9. Önnur mál
  • Framkvæmdastjóri fundaði ásamt fleirum með fjármálaráðherra mánudaginn 24. ágúst um misræmi í tollskráningum og almennt um tollamál.
  • Framkvæmdastjóri fundaði með öðrum í tvígang með utanríkisráðuneytinu, fyrst þriðjudaginn 25. ágúst og síðar með utanríkisráðherra þriðjudaginn 2. september um viðskiptasamning við Bretland og tollasamning Íslands og ESB.
  • Formaður og framkvæmdastjóri funduðu með MAST miðvikudaginn 3. september um málefni er varða eftirlit á Covid-tímum og önnur mál er varða nautgriparæktina.
  • Landssamband kúabænda mun auglýsa í Nautaskránni 2020. Áður samþykkt í gegnum tölvupóst.

Fleira var ekki gert og fundi lokið kl. 15:15 

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda