Beint í efni

37 þúsund kúa bú í Indíana

10.01.2015

Við sögðum frá því í byrjun desember að fyrirtækið CocaCola væri nú byrjað að framleiða sérstaka drykkjarmjólk sem heitir Fairlife. Mjólkin sjálf, sem er grunnur Fairlife, kemur öll frá einu kúabúi frá Indíanafylki í Bandaríkjunum og því mætti ætla að CocaCola ætlaði sér ekki stóra hluti með hið nýja vörumerki sitt, fyrst eitt kúabú dugar til að byrja með til þess að standa undir framleiðslunni. Fyrirtækið ætlar sér þó stóra hluti með Fairlife, enda nóg af mjólk sem kemur frá kúabúinu.

 

Bú þetta heitir Fair Oaks Farms og er miklu meira en “bara” kúabú, enda er rekin þar umsvifamikin ferðaþjónusta, veitingastaður og eigin afurðavinnsla auk nú einnig svínabús. Kýrnar eru líka ansi margar, alls um 37 þúsund. Allar þessar kýr eru þó ekki í einu fjósi, heldur er þeim skipt upp í 11 hjarðir og eru mjólkaðar á jafn mörgum stöðum. Flestar eru þó mjólkaðar í stærðarinnar hringekju þar sem gestir geta komið og fylgst með mjöltum og öðrum störfum á kúabúinu. T.d. er sérstök sýningaraðstaða þar sem kýrnar bera handan við glervegg, en daglega bera í kringum 100 kýr svo gestir hitta alltaf á burð. Heimsókn á kúabúið er hreint ekki ókeypis, en hver fullorðinn greiðir 2.000 krónur fyrir að heimsækja búið og börnin 1.300!

 

Á bak við þetta risa kúabú stendur þó ekki CocaCola, heldur kúabóndinn Sue McCloskey og ásamt manni hennar. Sue sér um búreksturinn og það var hún sem fékk CocaCola til þess að koma inn í reksturinn og vísar nafnið á mjólkurdrykk CocaCola einnig til búsins. Sue þessi hefur alla tíð verið afar áhugasöm um að setja mjólk á markað sem hentar betur fyrir konur en hefðbundin drykkjarmjólk og áður en CocaCola kom til, framleiddi Fair Oak Farms próteinbætta mjólk og seldi í stórmörkuðum. Nú virðist sem leiðin sé nokkuð trygg og verður fróðlegt að fylgjast með árangrinum með Fairlife. Þeir sem vilja fræðast nánar um ferðaþjónustuhluta kúabúsins Fair Oak Farms, þá má benda á heimasíðu kúabúsins: www.fofarms.com/SS.