36. fundur LK 2019-2020
07.07.2020
Þrítugasti og sjötti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2019-2020 var haldinn mánudaginn 29. júní kl. 13:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir eru Arnar Árnason, formaður, Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður, Rafn Bergsson, Bessi Freyr Vésteinsson og Jónatan Magnússon. Sigurður Loftsson, formaður Nautís var gestur undir 1. lið og Höskuldur Sæmundsson, verkefnastjóri LK undir liðum 8 og 9. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
- Nautgriparæktarmiðstöð Íslands. Sigurður Loftsson er gestur. Farið yfir stöðuna á Stóra Ármóti. Kálfarnir úr fósturvísum sem komu í fyrra eru að fæðast núna, ein kýr óborin. Ekki nema 6 kálfar í ár sem er lakasti árangur til þessa. Framboð á nautum gengur því hægt. Sæðing kvígna úr fyrsta hollinu komin af stað, þ.e. Angus kvígurnar og styttist í fangskoðun. Sæðistakan úr nautunum fjórum frá í fyrra hófst fyrir helgi. Nautin verða svo auglýst til sölu á næstu dögum en stefnt á að gengið verði frá sölu í lok júlí. Sama lágmarksverð og í fyrra, 800.000 kr. Mikið rætt um frjósemisvanda, sami vandi og við höfum staðið frammi fyrir í almennt í nokkurn tíma. Lagt er upp með að fá aðila utan frá til að aðstoða við fósturvísaskolun og í leiðinni koma á framfæri þekkingu. Umræður um eftirspurn eftir sæði og fósturvísum en almenn notkun hefur ekki verið mikil. Rætt um stefnu í uppbyggingu Angus-stofnsins. Starfshópur um nautakjötsframleiðslu, sem starfar undir fagráði í nautgriparækt, hefur sett fram það staðfesta markmið að búa til Angus stofn í landinu. Til þess þarf að koma með næginlega stóran kúahóp inní stöðina og þannig byggja upp Angus stofninn eins hratt og hægt er. Líta þarf til þess að halda sérstaklega utanum stofninn í skýrsluhaldi, vinna pörunaráætlanir o.fl.
- Félagskerfi bænda. Bændasamtök Íslands hafa óskað eftir skriflegri umsögn um tillögur að breyttu félagskerfi bænda sem bárust stjórn í kjölfar formanna- og framkvæmdastjórafundar sem haldinn var fyrr í júnímánuði. Stjórn tekur undir þá stefnu sem í tillögunum kemur fram, þ.e. að einfalda félagskerfið m.a. með innheimtu ens félagsgjalds. Mikilvægt er að skýr verkaskipting verði milli fyrirhugaðra búgreinadeilda og stjórnar BÍ. Umræður um hlutverk búnaðarsambanda annars vegar og Bændasamtakanna hins vegar, fyrirkomulag búnaðarþings o.fl. Stjórn LK leggur mikla áherslu á að í stjórn BÍ eigi fulltrúar frá öllum búgreinum til að ná fram sem mestri breidd í kjölfar fyrirhugaðrar sameiningar.
- Erfðamengisúrval. Framkvæmdastjóri og varaformaður LK funduðu með framkvæmdastjóra BÍ í síðustu viku. Umræður um stöðu verkefnisins og næstu skref. Ljóst er að kosta þarf nokkrum fjármunum í viðbót áður en erfðamengisúrval í nautgriparækt verður komið í gagnið, enda líklega um stærsta og mikilvægasta einstaka verkefni sem legið hefur fyrir greininni að ræða. Stækka þarf viðmiðunarhópinn með tilheyrandi sýnatöku og greiningum á þessu ári, ásamt því að vinna nýtt kynbótaskipulag og yfirfæra gögn í DMU hugbúnað. Þýðingarmikið er að fagráð í nautgriparækt standi á bak við þetta verkefni og allir þeir sem aðild eiga að fagráðinu deili sýn á framgang verkefnisins. Er stjórn sammála að senda erindi þess efnis á fagráð. Umræður um fjármögnunarmöguleika þeirra verkefna sem þarf að ráðast í á næstunni.
- Mælaborð landbúnaðarins. Óskað var eftir tillögum frá LK um efnistök mælaborðs landbúnaðarins, verkefni sem nú er unnið að innan Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í kjölfar ályktunar af Búnaðarþingi 2020. Markmið verkefnisins er aukið aðgengi upplýsinga um stöðu og þróun landbúnaðar og matvælaframleiðslu á Íslandi sem eru birtar reglulega og sýna breytingar innan árs eða tímabils. Stjórn hafði áður samþykkt tillögur í tölvupósti sem sendar voru til BÍ 23. júní sl. Umræður um mikilvægi verkefnisins og þau tækifæri sem í því felast.
- Ársreikningur LK 2019. Tekjur ársins 2019 eru samtals 59.968.643 krónur, 39.968.643 krónur í félagsgjöld og 20.000.000 krónur í styrk vegna nautakjötsverkefnis. Samtökin skila 10.440.241 króna hagnaði fyrir fjármagnstekjur og -gjöld, en 14.608.463 króna hagnaði að þeim meðtöldum. Ef nautakjötsverkefnið er tekið út fyrir sviga þá er kostnaður þess 5.245.893 krónur. Því er rekstrarniðurstaða samtakanna utan tekna og kostnaðar nautakjötsverkefnisins 145.644 krónur í tap. Ársreikningur fer nú til skoðunarmanna til yfirferðar.
- Staða starfshópa vegna endurskoðunar samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt. Starfshópur um loftslagsmál er búinn að skila og skýrsla birt á naut.is þann 26. júní sl. Vinna er enn í gangi í starfshóp um aðlögunarsamninga, minni bú o.fl. og hafa fulltrúar bænda óskað eftir aðkomu fjármálaráðuneytis til umræðna um skattalegt umhverfi viðskipta með búrekstur og bújarðir með það að markmiði að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti. Vinna er enn í gangi í starfshóp um verðlagsmál og stefnt að skilum í ágústmánuði. Umræður um næstu skref en tillögur hópanna verða nýttar til grundvallar fyrir samkomulag milli ríkis og bænda sem verður viðbót við endurskoðun samningsins sl. haust. Bændur munu kjósa um það samkomulag líkt og með endurskoðunina sjálfa.
- Hámarksverð á kvótamarkaði. Óskað hefur verið eftir fundi í framkvæmdanefnd búvörusamninga til að fara yfir tillögu að hámarksverði á kvótamarkaði. Næsti markaður er 1. september nk. og þurfa bændur að skila inn tilboðum fyrir 10. ágúst og því mikilvægt að ákvörðun fari að liggja fyrir. Umræður um lækkun á verði fyrir umframmjólk sem tilkynnt var 27. júní sl.
- Nýtt vörumerki fyrir íslenskt nautakjöt. Höskuldur Sæmundsson fer yfir. Undirbúningur hefur gengið vel og stjórn gefur grænt ljós á að keyra málið áfram. Stjórn er sammála um að hraða vinnunni áfram og umræður um mikilvægi markaðssóknar m.a. í ljósi falls í verði á tollkvótum samhliða aukningu. Miklar umræður um þróun á tollkvótum bæði í verði og magni. Verður tekið fyrir á framkvæmdastjórafundi þriðjudaginn 30. júní.
- Bæklingur um gæðaframleiðslu íslensks nautakjöts. Höskuldur Sæmundsson fer yfir. Unnið áfram.
- Önnur mál
- Aðalfundur Landssambands kúabænda. Stefnt á 6.-7. nóvember en ekki orðið staðfest. Stefnt á að verði staðfest fyrir lok næstu viku.
- Leitað er eftir bændum til að taka þátt í nýjum sjónvarpsþætti um veganlífstíl.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15:50.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda